Eignaskrá ríkisins
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör. Það er fagnaðarefni að þetta verk skuli í fullri vinnslu og að eignaskrá muni liggja fyrir. Ég hygg að ekki þurfi að fara mörgum orðum um nauðsyn þess að til sé rétt og aðgengilegt yfirlit yfir allar eignir íslenska ríkisins, fastar og lausar. Eins og kom fram í upphafsorðum mínum er það talið nauðsynlegt í öllum fyrirtækjum og auðvitað hlýtur ríkinu að vera það nauðsynlegt líka að hafa yfirlit yfir eignir sínar. Svo segir mér hugur um að ýmislegt muni þar kannski koma í ljós sem mönnum var ekki alveg ljóst áður.
    Ég tek undir það sjónarmið sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. að ég tel eðlilegt að þessi eignaskráning sé á einum stað og í fljótu bragði sýnist ekki óeðlilegt að það sé fjmrn. sem annist hana en að þessu sé ekki dreift til hinna ýmsu ráðuneyta. Þannig sé tryggt fyllsta samræmi og rétt skráning og að þetta sé allt aðgengilegt á einum stað. Ég þakka svarið.