Lækkun eignarskatta
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör við þessari fsp. Ég hyggst ekki taka upp efnislegar umræður um frv. sem hann gat um fyrr en það kemur hér á dagskrá með venjulegum hætti. Ég vil þó vekja athygli á tvennu. Í fyrsta lagi því að með því að leggja þetta frv. fram í þessum búningi hefur ráðherrann og ríkisstjórnin viðurkennt að þeim hafi orðið á mjög alvarleg mistök í þessu efni á síðasta þingi eins og við þingmenn stjórnarandstöðunnar bentum ítrekað á og eins og fjöldi aðila úti í þjóðfélaginu hefur margítrekað bent á. Ég hlýt að fagna því að ráðherrann skuli sjá að sér og þó koma þetta til móts við þau sjónarmið sem uppi hafa verið þó, eins og ég sagði áðan, þetta sé of skammt gengið að mínum dómi og reyndar allt of skammt. Í öðru lagi hlýt ég að benda á að þó að hér sé rætt um einhverja lækkun frá því sem nú er þá er það auðvitað lækkun sem tilkomin er eftir að búið er að margfalda þessa skatta eins og gert var núna í ár. Og það er auðvitað einn partur af þeirri blekkingariðju sem því miður hefur allt of oft verið höfð uppi í sambandi við þessi mál. Fyrst eru hlutirnir hækkaðir um heil lifandis ósköp og síðan eru þeir lækkaðir eitthvað smávegis og menn hreykja sér síðan af því að hafa lækkað þá um einhverja tugi prósenta. Þetta er náttúrlega ekki góð aðferðafræði og við skulum ekki gleyma því að svona er farið að hlutunum stundum.
    Ég hyggst ekki lengja þetta, virðulegi forseti, en mun taka þetta mál upp við ráðherrann í betra tómi í umræðum um þetta mál í hv. Nd.