Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans. Það er rétt sem fram kom í máli hans að það eru eflaust mjög skiptar skoðanir um gildi þriðja stjórnsýslustigsins. Það tók að mig minnir tvo áratugi að koma á lögum um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, þannig að e.t.v. er hugmyndin nú komin af stað og hver veit hvað verður í framtíðinni. Ég vil hins vegar benda á að hann talaði um að margar stofnanir væru lítið annað en starfsmennirnir og andstaða þeirra stæði í veginum fyrir flutningi. Í því sambandi vil ég benda á þá lausn, þegar settar eru á laggirnar nýjar stofnanir, eins og hæstv. forsrh. nefndi t.d. með Hagþjónustu landbúnaðarins, að huga þá að því strax í upphafi að ekki sé nauðsynlegt að þær séu staðsettar hér á höfuðborgarsvæðinu, að möguleiki sé á að koma þeim fyrir annars staðar.
    Mér sýnist á svörum hæstv. forsrh. að það standi svo sem ekki mikið meira á bak við þessi fyrirheit en í stjórnarsáttmálum fyrri ríkisstjórna. Vil ég nú brýna þá hæstv. ráðherra sem áttu sæti í staðarvalsnefnd að dusta rykið að þeim tillögum sem þeir stóðu að á sínum tíma. ( Gripið fram í: Hverjir voru það?) Það voru hæstv. núv. utanrrh. og hæstv. fjmrh.
    Þá vil ég einnig minna á í þessu sambandi að hér liggur fyrir þinginu till. til þál. frá þingkonum Kvennalistans um að kanna möguleika á að nýta fjarskiptatækni og tölvutækni til þess að flytja verkefni ríkisstofnana út fyrir höfuðborgarsvæðið og vil segja það að lokum að það hefur aldrei skipt minna máli en nú hvar hinar ýmsu stofnanir eru staðsettar.