Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hér hefur nokkuð verið vikið að þeirri nefnd sem ég veitti forstöðu og sett var upp af ríkisstjórninni 1971--1974. Þessi nefnd hefur stundum gengið undir heitinu staðarvalsnefnd og hún skilaði mjög ítarlegri skýrslu og margvíslegum tillögum um flutning ríkisstofnana frá Reykjavík og til landshlutanna. Bæði var þar um að ræða tillögur um flutning heilla stofnana, hluta af stofnunum og stofnsetningu útibúa.
    Ég verð hins vegar að lýsa því hér að það voru mér mikil vonbrigði eftir þá margra ára vinnu sem lögð var í þetta verk af hálfu nefndarinnar og þeirra sem með henni störfuðu að verða þess áskynja að í reynd var ekki sá stuðningur meðal sveitarfélaga og landshlutasamtaka við þessar tillögur sem ég hafði vænst. Það kom í ljós í reynd að þrýstingurinn frá samtökum sveitarfélaga, frá einstökum sveitarfélögum eða landshlutasamtökunum til þess að tryggja framkvæmd þessa máls var mun minni en maður hafði búist við og þess vegna skapaðist ekki í þjóðfélaginu sá nauðsynlegi bakhjarl til þess að hrinda þessari breytingu í framkvæmd sem við margir, sem vörðum til þessa verks miklum tíma, höfðum búist við. Kannski vegna þess að í reynd vilja margir forustumenn sveitarfélaganna allt í kringum landið frekar geta gengið að höfuðstöðvum ríkisstofnana á einum stað eða þá, eins og ærið mikið bar nú á í störfum nefndarinnar og í viðbrögðum við tillögum hennar, að héraðarígur milli einstakra landshluta eða milli einstakra sveitarfélaga var of mikill til þess að samstaða gæti náðst um tillögurnar. Þess vegna vil ég óska þess að við í þessari ríkisstjórn sem viljum gjarnan vinna að þessu máli fáum meiri stuðning sveitarfélaganna og landshlutasamtakanna í landinu við að framkvæma tillögur á þessu sviði heldur en staðarvalsnefndin fékk við þær tillögur sem hún lagði fram á síðasta áratug.