Jón Bragi Bjarnason:
    Frú forseti. Mig langar til að taka undir með hv. flm. fsp. og ráðherrum um nauðsyn þess að flytja stofnanir til landsbyggðarsvæða og styrkja atvinnulíf þar. Þó vil ég benda á að þetta þarf að gera með myndarlegum hætti og e.t.v. ekki á þann hátt sem gert hefur verið með Háskólann á Akureyri þar sem sú stofnun virðist að hluta til vera óþörf að því leyti að þar er boðið upp á sama nám og annars staðar er kennt.
    Þegar þetta kom til umræðu í Háskóla Íslands lagði ég til að það sem ætti að gera í slíkum tilvikum væri að flytja Háskóla Íslands allan norður á Akureyri. Það er hins vegar að ýmsu leyti óraunhæf tillaga þar sem búið er að byggja yfir Háskóla Íslands margar og dýrar byggingar hér. En annað kemur til greina í þessu tilliti og það er að flytja Tækniskóla Íslands norður á Akureyri, allan sem slíkan. Það er ekki búið að byggja yfir Tækniskóla Íslands. Tækniskóli Íslands er skóli á háskólastigi og framhaldsskólastigi og gæti að þessu leyti sameinast Háskólanum á Akureyri, m.a. þeirri braut sem nú er fyrirhugað að þar verði sett á laggirnar. Ég vil nefna þetta sem framlag í þessu máli og tillögu til umhugsunar fyrir þingheim.