Jón Bragi Bjarnason:
    Virðulegi forseti, örstutt athugasemd. Ég vil leiðrétta þann misskilning, þann leiða misskilning sem hefur komið fram greinilega, að ég hafi kallað Háskólann á Akureyri refabú. Svo var alls ekki. Ég talaði um byggðastefnu í menntamálum og notaði hið óheppilega orð refabúastefnu og mér þykir fyrir því að það hafi misskilist á þennan hátt og sært menn. Ég vil taka það skýrt fram.
    Hins vegar held ég að menn verði að spyrja sig hvort þingið hafi ákveðið að stofna og styðja myndarlega við Háskólann á Akureyri sem er vissulega nauðsynlegt að gera ef þar á að rísa öflug menntastofnun. Þess vegna kom ég fram með þá hugmynd að það ætti frekar að flytja norður sterka og myndarlega og nauðsynlega stofnun eins og Tækniskóla Íslands og sameina þeirri starfsemi sem nú er hafin við Háskólann á Akureyri.