Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Þau voru greinargóð og ég ætla engar athugasemdir að gera við þá aðferð sem bakfærsla felur í sér. Hins vegar harma ég það að ekki á að endurgreiða þessa upphæð verðtryggða með vöxtum heldur virðist ríkið ofan í alla skattpíninguna ætla að hirða af fólkinu verðbólgumuninn og vaxtamuninn. Tel ég það reyndar fyrir neðan allar hellur því það eru vinnubrögð sem sjálft ríkið temur sér ekki ef fólk á hinn kantinn skuldar því einhverja peninga. Sem sagt, vaxtamunurinn og verðbólgan á að renna í hítina.
    Ég hlýt að harma þetta og ég hlýt að biðja hæstv. ráðherra að endurskoða hug sinn í þessu og koma fram við fólkið eins og hann vill að fólkið komi fram við ríkið.