Tryggingasjóður fiskeldis
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Ekki er nema vonlegt að hreyft sé málefnum fiskeldisins hér á hinu háa Alþingi nú við þá erfiðleika sem þar er að etja. Hv. þm. spyr: ,,Hver er reynslan af framkvæmd laga um Tryggingasjóð fiskeldis?``
    Reynslan er sú að það hefur bæði tekið meiri tíma og verið meiri erfiðleikum bundið en menn ætluðu fyrir um ári síðan að koma á því sem menn hafa kallað eðlilega rekstrar- eða afurðalánafyrirgreiðslu til fiskeldisins. Það á við um starfsemi Tryggingasjóðs fiskeldislána. Þar kemur margt til, ekki bara hvernig lög og reglur um þann sjóð eru úr garði gerðar, heldur og kannski miklu fremur þær erfiðu aðstæður sem fiskeldið býr við, þeir miklu erfiðleikar sem þar er við að eiga, sú áhætta sem hefur orðið mönnum ljósari með hverju árinu sem líður eða hverjum mánuðinum sem líður í þessari grein. Nægir að vitna til óhappa og gjaldþrota sem orðið hafa á undanförnum mánuðum. Allt hefur þetta lagst á sömu sveif að gera það meiri erfiðleikum bundið en áður var talið að koma á fullnægjandi fjármögnunarkerfi.
    Rétt er að minna á að Tryggingasjóður var settur á laggirnar í samráði við forsvarsmenn fiskeldisins og fjármálastofnana sem töldu, á því stigi málsins, að tilkoma slíkra ábyrgða af hálfu ríkisins ofan við fyrirgreiðslu banka mundi duga til að unnt væri að veita fullnægjandi fyrirgreiðslu rekstrarafurðalána og fyrirgreiðslu til fyrirtækjanna. Síðan hafa aðstæður breyst, bankarnir hafa m.a. breytt sínum vinnureglum í þessu sambandi, hafa tekið til við að krefjast meiri trygginga frá fyrirtækjunum fyrir þeim hluta afurðalánanna sem þeir veita og bera ábyrgð á vegna þess að þeir meta nú áhættuna meiri en áður var talið. Allt hefur þetta haft sín áhrif.
    Engu að síður er rétt að upplýsa að Tryggingasjóðurinn hefur þegar afgreitt ábyrgðir sem komnar eru til framkvæmda. Fé sem komið er til fyrirtækja út á ábyrgðir Tryggingasjóðs nemur núna tæpum 400 millj. kr. Síðustu upplýsingar sem ég fékk, sem kunna að vísu að vera orðnar eitthvað úreltar, voru upp á 380 millj. til 13 fyrirtækja sem höfðu verið afgreidd og voru búin að fá fyrirgreiðslu út á ábyrgðirnar. Síðan koma nokkur fyrirtæki til viðbótar með allmikla upphæð sem hafa fengið afgreiðslu frá sjóðnum en hverra ábyrgðir eru ekki komnar til framkvæmda.
    Samtals hafa Tryggingasjóði borist umsóknir frá rúmlega 30 fyrirtækjum, en talið er að ekki séu nema um 35 fyrirtæki í afurðalánaviðskiptum hjá bönkum, þannig að nær öll þau fyrirtæki í landinu sem á annað borð eiga innangengt í þetta kerfi eins og það er uppbyggt hafa þegar sótt um fyrirgreiðslu og tæpur helmingur þeirra hefur þegar fengið afgreiðslu og nokkur til viðbótar eru í vinnslu eða á leið í gegnum kerfið.
    Það er síðan rétt sem hv. þm. sagði að menn hafa verið að skoða það núna upp á síðkastið hvort

nauðsynlegt sé, vegna þessara aðstæðna sem ég hef gert grein fyrir og vegna þess sérstaklega að reynst hefur miklum annmörkum bundið að fá bankana til að veita afurðalán upp að þeim mörkum sem lög og reglur um Tryggingasjóð gera ráð fyrir, þess vegna er það til umræðu að breyta þessu fyrirkomulagi og heimila beinar sjálfskuldarábyrgðir ríkisins á afurðalán til einstakra fyrirtækja án þess að gera sambærilegar kröfur til fjármögnunar frá bönkum áður og gert er í sambandi við Tryggingasjóð. Þetta er til skoðunar og verður vonandi leitt til lykta með ákvörðun um hvort og þá hvernig þessu verði breytt núna á næstu sólarhringum.