Tryggingasjóður fiskeldis
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég tek undir orð hv. 2. þm. Norðurl. e. um að okkur ber að reyna að standa við bakið á fiskeldinu á vaxtarskeiði þess hér og gefast ekki upp þó þar blási nokkuð á móti. Vissulega hafa mörg fyrirtæki lent í miklum erfiðleikum og horfurnar eru dökkar, hjá a.m.k. þeim hluta fyrirtækjanna sem eru með mestan fjármagnskostnaðinn og eru þannig á hvað erfiðustum tíma í sinni uppbyggingu samhliða því að verðfall hefur orðið á framleiðslunni og fleira. Hér eru engu að síður í sjónmáli miklir verðmætasköpunarmöguleikar, það er alveg ljóst, verulegar útflutningstekjur í sjónmáli ef okkur tekst að nýta þær og það væri hrapallegt við þær aðstæður sem við búum við að öðru leyti í okkar efnahags- og atvinnulífi ef við reyndum ekki að gera það sem við getum til að nýta þessa miklu möguleika.
    Ég tek undir það og það hefur sérstaklega verið rætt og skoðað og reyndar vann starfshópur að því að gera tillögur í haust um svonefnd bústofnslán. Það er alveg ljóst að eitt af því sem er fiskeldinu mjög mótdrægt, þ.e. þeim fyrirtækjum sem ekki hafa þá fengið uppbyggingu bústofnsins í stöðvunum að einhverju leyti viðurkennda sem stofnfjárfestingu eða langtímafjárfestingu, það er þeim mjög mótdrægt að vera með alla uppbyggingu þriggja ára eldisferlis á skammtímalánum og er í raun og veru andstætt öllum skynsamlegum venjum í rekstri að standa þannig að málum. Afurðalán á slíkum kjörum ættu að mínu mati fyrst og fremst að eiga við e.t.v. um síðasta ár eldisferlisins eða síðustu mánuði og þann tíma sem líður frá slátrun og þangað til birgðum er komið í verð. Þetta hefur verið sérstaklega til skoðunar en ekki komin niðurstaða í því enn þá.
    Eitt af þeim alvarlegu vandamálum sem ætlunin er að reyna að leysa með breytingum á þessu fyrirkomulagi er að opna þeim fyrirtækjum, u.þ.b. helmingi fiskeldisfyrirtækjanna í landinu, sem liggja enn utan alls sem hægt er að kalla afurðalánakerfi, opna þeim leið inn og breytingarnar eiga sérstaklega að miða að því að gera það mögulegt. Ég vona að það takist en vil að öðru leyti ekki tjá mig meira efnislega um það mál sem ekki er enn útrætt eða niðurstaða komin í milli stjórnarflokkanna.