Hundar til fíkniefnaleitar
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Vesturl. hefur beint til mín tveimur fyrirspurnum, þeirri fyrri um fjölda hunda til fíkniefnaleitar sem nú eru í eigu lögregluyfirvalda annars vegar og tollyfirvalda hins vegar.
    Tollyfirvöld á Íslandi hafa aldrei sjálf verið með sérstaka hunda til fíkniefnaleitar. Segja má að hundar lögreglunnar hafi jöfnum höndum verið til afnota fyrir tollyfirvöld og lögregluna. Og ekki eingöngu í Reykjavík, heldur hvarvetna á landinu. Lögreglan í Reykjavík hefur síðan 1971 verið með fíkniefnaleitarhunda og lögreglumann eða menn til að stjórna leit með þeim hundum.
    Eins og stendur starfar einn lögreglumaður með einn leitarhund og er jafnframt með annan hund í þjálfun sem búist er við að ljúki áður en langt um líður. Fyrstu árin starfaði einn lögreglumaður með einn leitarhund en síðan 1975 hafa tveir menn stjórnað hundum til fíkniefnaleitar, ýmist með einn eða tvo hunda hvor. Tveir leitarhundar hafa verið fengnir erlendis frá, annar frá Englandi 1971, sem gefinn var af Kiwanisklúbbnum Kötlu, en hinn var keyptur frá Danmörku. Aðrir hundar, fimm talsins, hafa hlotið þjálfun sína og uppeldi á Íslandi.
    Á sl. ári fékk annar lögreglumannanna, er stjórnaði leitarhundum, leyfi frá störfum. Var þá ekki fenginn maður í hans stað og hundinum er hann stjórnaði var ráðstafað brott. Ekki er talin ástæða til þess að rekja í nákvæmari talningu fjölda lögreglumanna og leitarhunda ár fyrir ár.
    Seinni fsp., um það hvort dómsmrh. telji þann fjölda hunda sem nú er fyrir hendi til fíkniefnaleitar fullnægjandi og ef svo er ekki, hvenær megi búast við að þeim verði fjölgað og hve mörgum nýjum hundum sé ætlunin að bæta við, vil ég svara á þennan hátt: Fjöldi hunda til fíkniefnaleitar hefur verið
fullnægjandi að mínu mati allt fram á sl. ár, þ.e. á vegum lögregluyfirvalda. Þá voru uppi áætlanir um að tollyfirvöld fengju sér leitarhund en af því varð ekki. Því má segja að nokkurt skarð hafi myndast því illkleift er að ætla einum manni og einum hundi að sinna húsleitum, fíkniefnaleit í farangri Íslendinga og ferðamanna við komu til landsins, í bögglapósti, bréfapósti o.s.frv. Ég hef því ákveðið að beita mér fyrir því að heimild fáist til þess að ráða að nýju lögreglumann til að stjórna leitarhundi og fé verði einnig veitt til að kaupa hund erlendis frá, svo og til reksturs slíks leitarhunds. Á þessu stigi er nægjanlegt að mínu mati að þessi lögreglumaður fái einn hund sem verður þá fenginn erlendis frá, enda mun sá lögreglumaður þá væntanlega eiga fullt í fangi með hann fyrst í stað. Þá er við það miðað að sá hundur sem hinn lögreglumaðurinn er að þjálfa verði orðinn hæfur til leitarstarfa innan tveggja mánaða.
    Að lokum vil ég taka fram að ég tel nauðsynlegt að tollyfirvöld hafi hins vegar sjálf yfir leitarhundum að ráða því að þjálfun vegna leitar t.d. í skipum er hagað með allt öðru móti en vegna leitar í húsum. Þannig að þó að þær aðgerðir og þó að þau áform

sem ég hef gert hér grein fyrir komist í framkvæmd tel ég enn nokkuð óunnið á þessum vettvangi til að viðunandi geti talist.