Hundar til fíkniefnaleitar
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans. Eins og fram kom í máli hans hefur þessum hundum fækkað nú hin seinni ár. Síðasta ár hefur aðeins einn lögreglumaður verið með hund til þessa verkefnis og ekki hefur verið fenginn maður í stað þess sem hvarf frá störfum í fyrra. Ég vona að fljótt verði af þeim áformum dómsmrh. sem fram komu í máli hans um að fá hund strax nú á næstunni fyrir lögregluna. Vil ég taka undir það sem fram kom í máli hans að auðvitað þurfa tollyfirvöld líka að hafa hund fyrir sig. Skip og farþegar koma til hinna ýmsu staða á landinu og þó að samtarf lögreglu og tollyfirvalda hafi gengið mjög vel í þessum efnum er auðvitað ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að alltaf sé hægt að nota þennan eina hund sem til boða stendur nú um þessar mundir.
    Ég vil benda á eitt atriði sem fram kemur í þessari skýrslu hér. Árið 1985 voru 427 vöruflutningaskip afgreidd í Reykjavík en 433 annars staðar á landinu. Og það þarf auðvitað ekki að tíunda að oft hefur komið upp að einmitt með slíkum skipum er verið að reyna að koma ýmsum efnum til landsins. Á sama ári voru afgreidd 86 fiskiskip í Reykjavík en 286 annars staðar á landinu þannig að það blasir við að auðvitað þarf að auka möguleika tollyfirvalda og lögreglu til að hafa upp á efnum sem hugsanlega berast hingað til landsins. Vil ég reyndar benda á það líka að grannar okkar á Grænlandi munu hafa 15 hunda til fíkniefnaleitar. Ýmsar aðstæður eru náttúrlega öðruvísi þar en hér, meiri einangrun og erfiðara að ferðast á milli staða, sérstaklega á veturna, en þó er greinilegt að þeir eru mun betur í stakk búnir til að sinna þessu.
    Ég ítreka að ég vænti þess að hundum verði fjölgað hið allra fyrsta og að tollyfirvöld hafi líka hund til þessa því að þetta er mjög brýnt verkefni. Þó að forvarnarstarfið sé auðvitað mikilvægast þá er þetta einn mikilvægasti liðurinn í því að hindra að fíkniefni berist til landsins.