Hundar til fíkniefnaleitar
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með fyrirspyrjanda að náttúrlega er fáránlegt að það eigi að duga fyrir eina þjóð að hafa ekki nema 1--2 hunda til þessara starfa. Fullljóst er að t.d. vöruinnflutningur fer í gegnum flugfrakt, sjófrakt og tollpóst, þannig að þarna eru þegar komnir þrír staðir, fyrir utan náttúrlega farþegaflutning og annað slíkt.
    Ég vil hins vegar inna hæstv. dómsmrh. eftir því hvort ekki sé réttur skilningur, sem kom reyndar fram hjá landbrh. á síðasta þingi við fsp. frá mér um hundamál yfirleitt, að slíkir hundar yrðu þá að fara í sóttkví úti í Hrísey í þrjá mánuði?