Flm. (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Forsetar Alþingis hafa á þskj. 217 lagt fram till. til þál. um heimild til handa forsetum Alþingis að ganga til samninga um kaup á Hótel Borg. Þetta er 192. mál þingsins. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að heimila forsetum Alþingis að ganga til samninga um kaup á Hótel Borg eða öðru húsnæði í næsta nágrenni við Alþingishúsið, ef hagkvæmara þykir, og láta gera nauðsynlega lagfæringu á húseigninni ef af kaupunum verður.
    Við ákvörðun um kaup og umfang endurbóta á húsnæði skal hafa samráð við fjárveitinganefnd.``
    Þetta orðalag er í samræmi við þá breytingu sem gerð var þegar málið var til umfjöllunar á síðasta löggjafarþingi í hv. fjvn.
    Greinargerðin með þessari tillögu hljóðar svo, með leyfi forseta, hún er örstutt:
    ,,Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en hlaut þá ekki fullnaðarafgreiðslu. Henni var eftir fyrri umræðu vísað til fjárveitinganefndar. Tillagan var afgreidd í nefndinni 6. maí sl. og mælti meiri hl. hennar með samþykkt tillögunnar með breyttu orðalagi. Tillagan er nú endurflutt með þeim breytingum sem meiri hl. fjárveitinganefndar lagði til, sbr. brtt. á þskj. 1080 og nál. á þskj. 1079 á síðasta þingi.
    Eftir viðræður forseta Alþingis við borgarstjóra nýlega er ljóst að borgaryfirvöld hafa hvorki í hyggju að kaupa Hótel Borg né stuðla fjárhagslega að rekstri þess sem hótels.
    Flutningsmenn telja eðlilegt að tillaga þessi hljóti afgreiðslu nú á haustþingi áður en fjárlög næsta árs verða samþykkt.``
    Við höfum í dag látið dreifa áliti því sem sérstök nefnd, sem sett var á laggirnar á síðasta ári, skilaði um ástand hússins og hugsanlega nýtingu og vænti ég þess að sú skýrsla liggi nú á borðum hv. þm. Hún var okkur send á síðasta þingi sem trúnaðarmál en við höfum ákveðið að upphefja þann trúnað, og ég vil taka það fram að sú skýrsla er öllum aðgengileg sem hana vilja sjá.
    Nokkur umræða hefur orðið um þessar hugmyndir forseta þingsins um að kaupa Hótel Borg og sýnist vitanlega sitt hverjum um það. Það hefur hins vegar lengi verið ljóst að það er erfiðleikum bundið að reka þingið í átta húsum, bæði eigin húsnæði og leigðu húsnæði, og nauðsynlegt að gera einhverjar aðgerðir til að sameina rekstur þingsins undir færri þök. Ýmislegt hefur komið á óvart í sambandi við þessi mál. Um tíma var talað um að hugsanlegt væri að Reykjavíkurborg kæmi að einhverju leyti inn í rekstur Hótel Borgar þannig að þar væri hægt að halda áfram hótelrekstri. Nú er það alveg ljóst að af slíku verður ekki, enda get ég ekki hugsað mér hvernig það hús gæti nýst borgarstjórn og borgaryfirvöldum.
    En annað hefur e.t.v. komið meira á óvart. Nú hefur komið í ljós að einhverjum erfiðleikum kann að verða bundið að fá að byggja hér á þessari torfu vegna þess að menn hafa miklar áhyggjur af því að

til niðurrifs komi á húsaröðinni hér við Kirkjustræti. Kann það að valda nokkurri furðu þar sem skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar og borgaryfirvöld fylgdust grannt með þeim fyrirætlunum sem í gangi voru þegar verið var að efna til samkeppni og teikna það hús sem um tíma var talað um að byggja og enginn hefur enn þá ákveðið að ekki skuli byggt. Ákvörðun um það hefur einfaldlega aldrei verið tekin. Sú ákvörðun ein var tekin að efna til samkeppni um þinghús og lengra var það mál ekki komið. Samþykki fyrir byggingunni var ekki komið þar sem byggingartillögur voru ekki tilbúnar og málið því ekki tækt til meðferðar í byggingarnefnd. En ljóst er að húsfriðunarnefnd og áhugafólk um gömul hús hér í Kvosinni er mjög mótfallið því að þessi hús verði rifin. Það má kannski segja að ekki liggi á að taka ákvörðun um það á meðan ekki er tekin ákvörðun um að byggja hér við hliðina á Alþingishúsinu, en hitt er hins vegar ljóst að það er þinginu til mikils vansa í hversu bágbornu ástandi þessar húseignir þess eru. Sú var ástæðan til þess að forsetar fóru að tala um að reyna að snyrta til hér á þeirri landareign sem þingið hefur yfir að ráða hér. Alþingi hefur þegar fengið leyfi til að rífa húsið nr. 5 við Tjarnargötu. Ég hygg þó að það verði flutt á annan stað í bænum í stað þess að það verði rifið. Afgreiðsla hefur ekki fengist á Tjarnargötu 3c sem er litla húsið sem Indriði skáld Einarsson eitt sinn átti heimili í, og hefur það nokkuð tafið aðgerðir þingsins við að ganga frá þessu svæði. Hugmyndir okkar voru bæði að auka bílastæði á lóðinni og jafnframt setja þar niður gróður þannig að þetta svæði væri ekki eitt hið ljótasta í borginni eins og það er nú og þinginu til --- ja, svo að það sé snyrtilega orðað, háborinnar skammar. Annað verður ekki um það sagt eins og það er nú.
    En hvað sem öllu þessu líður er hér auðvitað um viðkvæm mál að ræða og sjálfsagt að huga vel að þeim öllum. Hitt er svo staðreynd að þetta gamla og virðulega hús, Hótel Borg, er að mínu viti og okkar forseta þannig að allri gerð að það hæfir vel hinu háa Alþingi. Þetta er gamalt, fallegt og virðulegt
hús sem er til sölu. Það er alveg ljóst að hótelrekstur leggst þar niður. Við það ræður hvorki Alþingi né aðrir, og sennilega er Alþingi ein stofnana um það að geta haft verulegt gagn af þessu húsi með tiltölulega litlum breytingum. Þegar kæmi til þess að gera húsið sem þægilegast fyrir rekstur þingsins ræður auðvitað Alþingi sjálft hversu miklu fé er eytt í það og á hve löngum tíma þannig að óþarfi er að gera því skóna að þar fari allt úr böndunum og menn fari að eyða þar og spenna langt umfram það sem vitrænt má teljast.
    Í stuttu máli teljum við forsetar þingsins að þarna sé einstakt tækifæri til þess að fá mjög góða húseign á tiltölulega lágu verði þar sem nú virðist vera svo komið að önnur hver húseign hér í Kvosinni er til sölu. Það má segja að búið sé að bjóða til sölu næstum allt það húsnæðismagn sem í kringum Austurvöll er, og það er eðli markaðarins að því meira framboð sem er, því lægra getur verð orðið.
    Ég vænti þess að Alþingi sjái sér nú fært að

afgreiða málið. Það er auðvitað ekkert við því að segja ef Alþingi vill ekki nýta þetta tækifæri. Ég vil hins vegar taka fram að ýmsir sem telja sig hafa nokkurt vit á þessum málum telja það mikið óráð að festa ekki kaup á húsinu, og ég leyfi mér að nefna þar sjálfan ríkisendurskoðanda sem telur þarna um einstakt tækifæri fyrir þingið að ræða. Vilji hv. þm. hins vegar ekki kaupa Hótel Borg nær það auðvitað ekki lengra, en það er mjög mikilvægt að málið komist nú að nýju til hv. fjvn., fái þar afgreiðslu og við greiðum um það atkvæði vegna þess að hvort tveggja er að það er auðvitað ekki þolandi að halda núverandi eigendum lengur í óvissu um hvort Alþingi hyggst kaupa húsið eða ekki auk þess sem það er nú vart sæmandi hinu háa Alþingi að geta ekki kveðið upp úr um það hvort vilji er fyrir hendi til að kaupa húsið eða ekki. Við munum ekki á nokkurn hátt reyna að þröngva því upp á hv. þingheim og óskum einungis eftir því að hv. þm. greiði fyrir því að málið komist núna fyrir jólin til hv. fjvn. svo að unnt sé að afgreiða það sem allra fyrst. Hv. fjvn. hefur þegar fjallað um þetta mál, en þó hefur orðið breyting á nefndinni frá síðasta löggjafarþingi, þannig að vænta má að þar verði að fara fram nokkur umræða að nýju. En sá er vilji okkar forseta að hv. þm. sýni þann velvilja að greiða fyrir því að málið komist til nefndar og hljóti þar þá afgreiðslu sem það verðskuldar og síðan taki menn ákvörðun um hver vilji þeirra er í þeim efnum.
    Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.