Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Þessi tillaga er ekki mikil að vöxtum en hún varðar mál sem er mjög víðtækt og mér þykir rétt að víkja að hinu víðara samhengi þessa máls í fáeinum orðum.
    Á undanförnum áratugum hafa öðru hverju komið fram hugmyndir og orðið umræður um húsakost Alþingis hér á þessum stað. Margar hugmyndir hafa komið fram, hvernig ætti að leysa húsnæðisvandamál Alþingis, og þar inn í hefur komið umræðan um það hvar Alþingi ætti að vera staðsett. Menn hefur greint á um flesta hluti í þessum efnum og m.a. um það hvort Alþingi ætti að vera á þessum stað, jafnvel í Reykjavík eða annars staðar, og þá hefur verið átt við Þingvöll. Það var mjög bagalegt að ekki var tekin nein ákveðin stefna í þessum málum. Bagalegt vegna hvers? Vegna þess að Alþingi bjó við mikinn vanda í húsnæðismálunum. Alþingishúsið hafði um langt skeið verið ófullnægjandi, of lítið fyrir starfsemi Alþingis.
    Það var þess vegna í tilefni af 100 ára afmæli Alþingishússins sem Alþingi samþykkti þáltill. 1981 um að fram skyldi fara samkeppni um gerð og skipulag nýbyggingar hér við Alþingi. Þetta var hugsað þannig, menn lögðu þetta þannig niður fyrir sér, lausn á vandamálinu, að það væri um tvennt að velja: Annaðhvort að byggja nýtt Alþingishús eða að koma upp húsakosti í næstu nálægð við Alþingishúsið þannig að í Alþingishúsinu og hinu nýja húsi væri rúm fyrir þá starfsemi sem undir eðlilegum kringumstæðum ætti að vera í einu og sama húsi, í Alþingishúsi. Hafnað var að fara þá leið að byggja nýtt alþingishús en í þess stað valinn sá kostur að koma upp nýbyggingu sem væri þess eðlis að hægt væri að nota þetta hús sem við nú stöndum í til frambúðar. Samkeppni fór síðan fram um gerð og skipulag nýbyggingar. Menn þekkja sögu þessa máls síðustu missirin og skal ekki í mínum takmarkaða tíma fara að fjölyrða um það.
    Ég vil að gefnu tilefni sérstaklega víkja að því sem hæstv. forseti, 13. þm. Reykv., sagði um húsin hér við Kirkjustræti. Ég vil biðja menn að hafa í huga að þó að Alþingi gæti ekki mótað heildarstefnu í þessum málum voru menn samtaka um langan aldur, um langt árabil, að skapa aðstöðu til þess að Alþingi réði yfir ferhyrningnum milli Kirkjustrætis, Vonarstrætis, Templarasunds og Tjarnargötu til þess að þar væri hægt að koma upp nýjum byggingum og aðstöðu sem væri fullnægjandi fyrir Alþingi. Það var alltaf gert ráð fyrir því, þegar samkeppnin fór fram, að húsin við Kirkjustræti, sem eru hérna í næstu nálægð við Alþingishúsið, þyrftu að fara. Það kom aldrei nein rödd fram um annað, aldrei mótmæli við slíku, --- það kom aldrei í tíð fyrrverandi forseta þingsins, aldrei. Það voru engir erfiðleikar taldir á því að húsin við Kirkjustræti yrðu látin víkja. Allt sem gert var af hálfu Alþingis og framkvæmd samkeppninnar um nýtt hús var gert í samráði við borgaryfirvöld, allt, og til þess að tryggja sem nánasta samstöðu þarna á milli

var sú skipan á að forstöðumaður borgarskipulagsins var einn af dómnefndarmönnum í þessari samkeppni.
    Nú er farið að gera þetta að einhverju höfuðmáli og það kemur upp eftir að umræðan um Hótel Borg kemur. Það kemur ekki fyrr upp. En þetta hlýtur að vera mál sem Alþingi verður að hafa í hendi sinni, að geta skapað innan ferhyrningsins sem ég nefndi áðan þá aðstöðu sem Alþingi þarf til þess að hægt sé að hagnýta þetta hús þar sem við nú stöndum. Og það væri auðvitað sönnu nær, ef menn vilja kaupa einhver hús núna, að kaupa Oddfellowhúsið sem nú er til sölu og er á þessum ferhyrningi en að dreifa starfsemi Alþingis út fyrir þennan ferhyrning. Þessi umræða hefði sjálfsagt ekki komið til nema vegna þeirrar tilviljunar að Hótel Borg er til sölu og ég verð að segja að mér finnst að þessi tilviljun eigi ekki að ráða sköpum um stefnu Alþingis í þessum þýðingarmiklu málum sem var mótuð með þingsályktuninni 1981.
    Ég vil aðeins segja um hugmyndina um kaup á Hótel Borg að frá mínu sjónarmiði getur það ekki verið framtíðarlausn. Það leiðir af því sen ég hef áður sagt. Það hús er ekki í þeirri nálægð við Alþingishúsið að hægt verði að líta svo á að um eitt hús sé að ræða fyrir alla starfsemi sem undir venjulegum kringumstæðum er höfð í einu og sama húsi þegar um þjóðþing er að ræða. En ef á að líta á þetta sem bráðabirgðalausn tel ég að hún sé ekki hagkvæm og of dýr og þess vegna eigi líka að hafna þessari tillögu á þeirri forsendu.
    Hæstv. forseti. Ég hef hér lýst afstöðu sem ég lýsti á síðasta þingi þegar þessi tillaga kom fram. Ég hef talið rétt að ítreka þetta, sérstaklega með tilliti til þess að vekja athygli á víðfeðmi þessa máls og því sem Alþingi hefur ákveðið áður og hefur verið um langan aldur hugmyndir manna innan veggja Alþingis. Ég hef viljað vekja athygli á þessu til að undirstrika þá afstöðu mína að vera á móti þessari tillögu.