Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Virðulegi forseti sameinaðs Alþingis --- ég sé hana nú ekki hér í salnum. Jú, hún er þarna, sú sem er 1. flm. að þessari þáltill. Mér skildist að ein af höfuðrökum fyrir því að leggja til að Alþingi keypti Hótel Borg væru þau að ekki mundu vera aðrir kaupendur að húsinu, það væri eini aðilinn sem væri líklegur kaupandi að húsinu. Mér fannst í þessum orðum liggja að það væri verið að gera eitthvert gustukaverk á eigendum Hótel Borgar eða a.m.k. mátti skilja það svo.
    Mér hefði fundist vera nær fyrir hæstv. forseta að gera ráðstafanir til þess að þolandi væri að vera inni í þessum sal vegna þess að það er hvorki boðleg loftræsting eða lýsing. Það er nú komið á annað ár síðan ég hef kvartað yfir því að það er varla líft stundum hér í húsinu, bæði vegna þessara ljóskastara sem hér eru, og þegar maður er í þessum ræðustól beinast þeir beint í augu á fólki, og það hafa margir fleiri en ég rætt um þetta, og svo er loftið yfirleitt kyrrt þegar er á annað borð logn úti og illt að vera inni í húsinu. Þetta þyrfti áreiðanlega að sitja í fyrirrúmi fyrir því að flytja svona tillögu.
    Ég lít á þetta þannig, og skal endurtaka það sem ég sagði fyrir rúmu ári síðan, að það er alveg sýnilegt að hér verður ekki Alþingi Íslendinga nema um stutta framtíð. Þess vegna er það alveg rétt sem kom hér fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. áðan að það á að skoða þessi mál öll. Það hljóta allir að sjá sem eitthvað sjá á annað borð að af þeirri byggingu sem var fyrirhuguð hér vestan við getur aldrei orðið. Það er alveg ljóst og af fleiri en einni ástæðu. Eftir að ráðhúsið var reist hér í Tjörninni og menn gerðu ekki ráðstafanir til þess að gera það í tíma upp við Reykvíkinga sem ég tel alveg vafasamt, svo að ekki sé meira sagt, að það hafi ekki verið gengið þar blátt áfram á rétt Alþingis með þeirri byggingu, enda stendur það í gömlum skjölum að Alþingi eigi alveg
að Tjörninni. Það er ekki við virðulegan forseta að sakast sem nú er hér forseti. Þetta var frá öðrum tíma. Ég er sem sagt alveg sammála því að reynt verði að fá frekar leigt húsnæði, þessi mál verði öll skoðuð vandlega. Hæstv. forseti Sþ. sagði í ræðu sinni áðan að menn sem segðust hafa vit á verðinu segðu að það væri mjög gott verð. Hér segir í þessari skýrslu, þó að ég hafi ekki lesið hana vandlega því að ég var rétt að fá hana, á bls. 8, með leyfi forseta:
    ,,Vinnuhópurinn telur að heildarkostnaðurinn við kaup og endurbætur á fasteignum Hótel Borgar megi ekki verða hærri en um 200 millj. kr. miðað við hefðbundna skilmála sem í grófum dráttum eru þessir.`` Sem sagt, ramminn er hér gefinn og síðan eru tölurnar miðaðar við þann ramma. Eftir reynslu manna held ég að það sé alltaf þannig með svona gömul hús, 60 ára hús, sem á að breyta vegna sérstakra þarfa Alþingis, að þá verði kostnaðartölur ekki hinar raunverulegu tölur þegar á reynir.
    Að öllu þessu athuguðu mun sá sem hér stendur greiða atkvæði á móti þessari þáltill. Ég vil bara

endurtaka það að ég óska mjög eftir því að athugað verði um loftræstingu hér í sölum Alþingis þannig að það sé boðlegt, það tel ég ekki, og eins að gera ráðstafanir til þess að dempa eitthvað þá ljóskastara sem hér eru og að athuga þau mál, hvaða möguleikar eru á því að byggja hér þannig að þetta geti orðið framtíðarstaður, ég skil það rétt. Og þá þarf að huga að því hvar framtíðarstaður fyrir Alþingi á að verða. Ég hef áður bent á t.d. Álftanesið sem æskilegan stað. Það geta ýmsir aðrir staðir komið til greina. ( Gripið fram í: Þingvellir.) Varla Þingvellir vegna þess að þingið þarf að vera í nálægð við stjórnkerfið.
    Ég skal ekki hafa þetta lengra, en ég held að menn verði að staldra við og hugsa málið upp á nýtt.