Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Húsnæðismál Alþingis hafa æðilengi verið á döfinni og miklar umræður verið um þau. Ég er einn þeirra sem hafa tekið þátt í þeim umræðum, að vísu ekki haldið miklar eða langar ræður, heldur reynt að setja í fremur stuttu máli fram mín sjónarmið. Að því er varðar stóra húsið sem teiknað hefur verið hef ég lýst andstöðu minni við byggingu þess og ég hygg að það hús muni aldrei verða byggt eða vona a.m.k. að svo verði ekki. Það mundi yfirgnæfa þessar lóðir hér og ekki vera í samræmi við umhverfið. Það tel ég vera alveg ljóst.
    Hitt finnst mér eiginlega hálfu fáránlegra og stappar nærri gríni að fara að flytja nú aftur tillögu um það að Alþingi eignist Hótel Borg. Það er áreiðanlega í andstöðu við vilja meginþorra Reykvíkinga og ég held í andstöðu við álit meginþorra landsmanna, a.m.k. að gera það akkúrat á þessum tímum þegar allir atvinnuvegir eru komnir á vonarvöl og ríkisvaldið raunar að eignast atvinnufyrirtæki beint og óbeint um land allt, þá skuli ríkið ætla að fara að sölsa undir sig þessa byggingu sem flestum landsmönnum og alla vega Reykvíkingum þykir auðvitað vænt um og það með þeim rökum að það sé ekki annar kaupandi.
    Það er nú komið svo að það eru yfirleitt ekki til kaupendur að atvinnufyrirtækjum á Íslandi, hvorki atvinnuhúsnæði í hótelrekstri eða á öðrum sviðum, nema ríkisvaldið. Og hvers vegna ríkisvaldið? Af því að það hefur hirt peningana af borgurunum og atvinnufyrirtækjunum og ætlar að seilast lengra í því efni. Ég frábið mér að taka þátt í slíkri aðför að atvinnulífinu. Og að það geti aldrei orðið arðvænlegt að reka hótel þar sem Hótel Borg er nú --- sú bygging sómir sér vel og það eru til byggingar við hliðina samtengdar Hótel Borg sem má breyta í hótelherbergi. Það er líka mjög auðvelt að byggja ofan á salinn þar. Það má auka hótelrými þar mjög mikið. Og við sjáum það í öllum borgum, held ég, þeir sem ferðast hafa, að gömlu hótelin í miðborgunum hafa ekki verið lögð niður. Þau hafa verið aukin og efld, bætt við byggingum, samtengdum, þar sem ... (Gripið fram í.) Ekki í Osló? ( Gripið fram í: Þar keypti þingið nýlega hótel við hliðina á þinghúsinu.) Grand hefur nú heldur betur fært út ... ( Gripið fram í: Það var annað hótel, var það ekki?) Það er ekki annað hótel, það er samtengt. Það eru fleiri hótel í Osló sem eru samtengd þannig að það eru þar kannski 200 herbergi sem áður voru innan við 100 og þess vegna eru þau orðin arðvænleg eining. Ég held að það sé í öllum þeim borgum sem við þekkjum til. Fólkið vill auðvitað hafa möguleika á því --- ferðamenn sem þurfa ekki endilega á bílum að halda vilja fá að vera í miðhverfunum til verslunar og til dægrastyttingar og skemmtunar. Og við vitum hvað er að gerast í Reykjavík. Það er að verða dauður bær --- og þó, ógnvænlega lifandi þegar ráðist er að fólki eins og gerist hér og lögreglan ræður ekki við neitt. Vegna hvers? Vegna þess að það er ekki hið eiginlega

heilbrigða líf í miðborginni. Það þurfum við að efla og auka. Til þess eru margar leiðir en sú síst að ráðast að þeim fyrirtækjum sem þó eru rekin enn og hindra að þar verði um umbætur að ræða.
    Það hafa komið fram margar tillögur miklu betri en þessi, t.d. um að leigja. Og ég skal játa að endurbæturnar á Þórshamri hafa tekist mjög vel. Þar er gott að vera. Kirkjuhvoll er ágætis húsnæði. Skjaldbreið mætti auðvitað eitthvað bæta ef menn vildu það, en það er til leiguhúsnæði líka. Það eru engin húsnæðisvandræði hjá Alþingi, engin. Og ég vil segja að eftir að farið var að fjölga hér stórlega fólki og svokölluðu aðstoðarfólki --- ég tala nú ekki um allt fólkið úr Stjórnarráðinu sem er að ráðleggja okkur og leiðbeina alla daga á nefndarfundum og annars staðar --- hefur löggjöf stórversnað í þessu þingi og vinnubrögð öll. Ég held að við ættum að staldra við og athuga það hvaða ofvöxtur er að færast í Alþingi eins og stjórnkerfið allt saman þar sem hvarvetna er verið að kaupa hús úr einkaeign eða leigja, þenja báknið út alls staðar. Og Alþingi gengur kannski lengst í því að auka kostnað sinn að óþörfu.
    Annar kostur er sá auðvitað að kaupa Oddfellow-húsið og meira að segja hefur borgarstjórinn í Reykjavík lýst því yfir að hann mundi leggja til að borgaryfirvöld gerðu það ef Alþingi telur sig ekki geta það. Það hús getur fengist fyrir miklu minni peninga er ég sannfærður um. Það hentar ekki öðru en fyrir skrifstofur. Það er kannski ekkert sérlega hagstætt fyrir Alþingi, en miklu, miklu meira en nóg. Það er nógu stórt, það hús. Ég hef sett fram þá hugmynd sem mér þess vegna, auðvitað, finnst hin besta að annaðhvort ríkið eða Reykjavíkurborg kaupi Oddfellow. Þeir eru að byggja og húsið er falt. Þeir vilja ekki lengur vera í því húsi eða það hentar þeim ekki. Það hús er falt.
    Ráðhúsið er auðvitað staðreynd. Það er komið, og það er fallegt hús, finnst mér. Um það verður sjálfsagt deilt einhvern tíma hvort það sé fallegt eða ljótt eða á réttum stað, en það er svo með flestar byggingar og það er auðvitað ekkert nema gott um það að segja að mönnum þyki það vænt um umhverfi sitt, ekki síst hjarta Íslands, hjarta borgarinnar, að þeir rífist um það, deili um það. Ég leyfi öllum mönnum að hafa sínar skoðanir og ég má þá hafa
mína og hún er sú að annaðhvort ríkið eða Reykjavíkurborg kaupi einfaldlega Oddfellowhúsið. Alþingi gæti fengið þar afnot, þau sem það telur sig þurfa. Ég tel ekki að það þurfi mikið meira og kannski alls ekkert meira en þegar er. Það er búið vel að öllum þingmönnum. Þeir hafa góðar skrifstofur og þjónusta er mikil en ekki lítil. Þetta hús á svo auðvitað að fjarlægja, Oddfellow. Það er miklu ódýrara að brjóta niður steinhús en að rífa rammgert timburhús. Þetta hús hefur enga byggingarsögulega þýðingu af neinu tagi. Það á auðvitað að fjarlægja. Og það kemur ráðhústorg við hliðina á Austurvelli.
    Ef menn vilja varðveita eitthvað af húsunum hér við Kirkjustræti, eitt þeirra, skilst mér, má vitanlega færa það um set ef því er að skipta og þar er miklu

meira en nóg pláss til að byggja fyrir Alþingi, fyrir þingflokksfundi og vistarverur þingmanna líka. Það er yfirdrifið pláss til að byggja hér vestur undir Tjarnargötunni og svo hér að austanverðu líka eru hús sem má nýta, bæði í eigu Alþingis og annarra. Þetta er sem sagt hið mesta frumhlaup. En ég skal ekki halda uppi neinu málþófi.
    Ég hygg að það sé alveg rétt hjá hæstv. forseta að það sé ágætt að ganga til atkvæða um þetta og málið fari til hv. fjvn. Þar verður um það fjallað eins og í fyrra og þá verði líka gengið til atkvæða um þetta. Það kemur þá í ljós hverjir vilji fara þessa ólánsleið og hverjir ekki í óþökk a.m.k. mikils meiri hluta Reykvíkinga og ég held landsmanna flestra. En þá er það líka rétt, hæstv. forseti, að ganga til atkvæða. En hvað gerðist á liðnu vori? Hver tók málið út af dagskrá? Það var forseti sjálfur. Hvers vegna? Ég ímynda mér það eða tel mig vita, hvort sem menn vilja hafa, að andstaðan hafi verið nægilega mikil til þess að forseti sjálfur tók þetta kappsmál sitt út af dagskrá. Það var ekki þar síðustu dagana. Það var ekki svo að það stæði á dagskrá en væri ekki rætt. Það var hreinlega tekið út af dagskránni, væntanlega með samþykki flutningsmannanna, forsetanna sjálfra. Öðruvísi hefði það nú ekki gerst.
    Hæstv. forseti. Ég skal hætta, en aðeins ein ósk: Hugsið þið þetta mál. Hugsum þetta mál öll áður en við förum að grípa til slíkrar endaleysu.