Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál. Ég fer að efast um að samstaða sé um nokkurn skapaðan hlut þegar við erum að ræða um lausn á húsnæðismálum Alþingis, hvorki hjá þingi né þjóð. Ég hef grun um að ótrúlega mörgum þyki sem Alþingi búi alveg við nægilega góðan kost og að það þurfi ekkert að gera --- ja, nema þá að fækka þingmönnum eins og við heyrum oft að muni leysa allan vandann.
    Mín skoðun er sú að við þurfum að finna lausn á húsnæðisvanda Alþingis, en við skulum ekki vænta þess að um þá lausn, hver sem hún verður, náist einhver allsherjar samstaða. Þótt þingið næði kannski samstöðu um að byggja nýtt hús ættum við eftir deilurnar um það hvernig það hús skyldi verða, hversu stórt og annað í þeim dúr. Við stöndum hins vegar frammi fyrir þessum vanda og kostirnir eru tveir: Annaðhvort er það nýbygging eða kaup á húsum hér í grenndinni.
    Ég hef verið fylgjandi því að við byggðum nýtt hús og reyndi að greiða því götuna þegar var verið að veita fé á fjárlögum til undirbúnings verkefna, hönnunar og þess háttar, en ég verð að viðurkenna það að mér hefur þótt afstaða borgarstjórnar Reykjavíkur skipta máli í öllu þessu sambandi og þar hefur ýmislegt komið upp sem hefur áhrif á mína skoðanamótun í þessu máli. Í fyrsta lagi fannst mér það hljóta að hafa áhrif á ákvarðanir Alþingis í þessu efni þegar Reykjavíkurborg ákvað að byggja ráðhúsið hér í Tjarnarhorninu. Það hefur haft áhrif á mig í þá veru að ég hef efasemdir um að sú bygging sem teiknuð var á sínum tíma geti risið þar sem henni var ætlaður staður eftir að ráðhúsið var ákveðið þar sem er nú verið að byggja það.
    Mér hefur líka þótt sem afstaða borgarstjórnar hefði áhrif á mína skoðanamótun varðandi Hótel Borg. Þegar fyrst var rætt um Hótel Borg komu mótmæli frá borgarstjórn Reykjavíkur. Borgin skyldi rekin sem gistihús. Það væri ómögulegt annað en að í hjarta höfuðborgar væri rekið hótel. Nú hefur það komið fram, ef ég skil málið rétt, að borgarstjórn hyggst hvorki kaupa Hótel Borg né stuðla að því að þar verði rekið gistihús eða hótel. Og ég hef einnig skilið það að enginn áhugaaðili hafi komið fram sem vill reka þarna hótel. Það finnst mér að eigi að auðvelda mönnum ákvörðunina hér í þinginu, hvort þeir eru fylgjandi kaupum á Hótel Borg eða ekki fyrir Alþingi.
    Ég viðurkenni það fúslega að mér finnst auðveldara að taka ákvörðunina eftir að þessar yfirlýsingar frá yfirvöldum Reykjavíkurborgar liggja fyrir. Mér finnst auðveldara fyrir okkur að taka ákvörðunina um kaup á Hótel Borg, ef við erum þá búnir að leggja fyrir róða hugmyndir um nýbyggingu. Ég verð að viðurkenna að mér finnst einhvern veginn landið liggja þannig að ekki muni nást nein samstaða á Alþingi í fyrirsjáanlegri framtíð um að verja því fé sem sýnilega þarf til þess að byggja nýtt hús. Ég sé það ekki, en kannski er rétt að láta reyna á það áður en ákvörðun um kaup á nærliggjandi húsum er tekin.

Kannski er rétt að láta reyna á það.
    Til viðbótar hefur svo komið fram tillaga í borgarstjórn um að Alþingi standi ekki fyrir niðurrifi á húsalengjunni hér meðfram Kirkjustrætinu, þessari húsalengju sem er auðvitað eiganda hennar til skammar. En ef það er skoðun borgaryfirvalda Reykjavíkur að þessi hús eigi að vernda finnst mér einhvern veginn að það sé frekar í verkahring borgaryfirvalda að kosta endurbyggingu þessara húsa, væntanlega í þeirri mynd sem þau eru í dag. Og þá held ég að það væri nokkuð snjallt hjá Alþingi að gefa borginni þessi hús þannig að hún geti þá hresst upp á útlitið ef borgaryfirvöld telja að þetta sé sú götumynd sem menn vilja hafa hér í hjarta borgarinnar. Það gafst vel þegar Alþingi gaf Reykjavíkurborg Viðey og Viðeyjarstofu. Reykjavíkurborg tók mjög myndarlega á því máli, myndarlegar en ég held að ríkisvaldið hefði nokkurn tíma gert. Kannski er þetta þá leiðin, ef sem sagt borgaryfirvöld ætla að standa í vegi fyrir því að Alþingi fái að byggja á þessum stað.
    Við getum svo í þessu samhengi velt því fyrir okkur hvað er fullnægjandi fyrir Alþingi. Ég verð að segja það alveg eins og er, miðað við að ekki sé líklegt að menn sameinist um að byggja nýtt og myndarlegt hús á þeim reit sem Alþingi á, með niðurrifi þeirra húsa sem þar eru fyrir, að það geti vel verið fullnægjandi um fyrirsjáanlega framtíð að kaupa Hótel, Borg og með það þá fyrir augum að fleiri hús verði keypt þarna í þeirri lengju. Jafnframt verði litið á þetta mál í dálítið öðru samhengi og frá öðru sjónarhorni en gert hefur verið. Menn hafa alltaf verið að tala um þetta sem bráðabirgðalausn. Ég held að þetta sé of dýrt sem bráðabirgðalausn. Þess vegna velti ég þessu fyrir mér, hvort menn geti ekki horft á þetta sem lausn til lengri tíma litið og þá í friði við borgaryfirvöld. Ég tel mjög óheppilegt að fara inn á þessa leið í einhverju stríði við yfirvöld Reykjavíkurborgar. Það tel ég að Alþingi eigi ekki að gera. En sem sagt, mér sýnist eftir þessum síðustu yfirlýsingum frá borginni að það yrði engin styrjöld á milli Alþingis og borgaryfirvalda ef þessi leið yrði farin.
    Ég ætla ekki --- enda tími minn búinn --- að fara að velta upp öðrum kostum sem kunna að vera fyrir hendi sem þó hefur aðeins verið nefnt, þ.e. að Alþingi flytji starfsemi sína á einhvern allt annan stað. Ég hef verið þeirrar skoðunar að Alþingi eigi að vera hér, en ef þrengt er að því þannig að það megi ekki byggja og ekki kaupa hús í nágrenninu kann það að vera eini kosturinn. Hugmyndin sem hv. þm. Stefán Valgeirsson hreyfði hér áðan, að flytja Alþingi út á Álftanes, kann vel að vera mjög góður kostur. Garðaholtið er einhver allra fallegasti staður hér á höfuðborgarsvæðinu. Þaðan er mjög víðsýnt og þar eru ekki margar byggingar. ( Gripið fram í: Í hvaða kjördæmi er það?) Það er í kjördæmi þingmannsins sem spurði, en það er ekki von að hann viti það. Við gætum svo einnig velt fyrir okkur Þingvöllum og stærstu spámennirnir kynnu að verða þeir sem segðu hér úr þessum ræðustól að sá

dagur komi auðvitað að Alþingi verði flutt þangað.