Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég styð þessa tillögu sem hér er til umræðu, þ.e. að Alþingi álykti að ,,heimila forsetum Alþingis að ganga til samninga um kaup á Hótel Borg eða öðru húsnæði í næsta nágrenni við Alþingishúsið, ef hagkvæmara þykir, og láta gera nauðsynlega lagfæringu á húseigninni ef af kaupunum verður``, og að ,,við ákvörðun um kaup og umfang endurbóta á húsnæði`` skuli ,,hafa samráð við fjvn.`` Ég er sammála þessari málsmeðferð og tel að hún sé skynsamleg. Ég tel að hún sé skynsamleg vegna þess að ég tel að ekki megi eyða í þetta einhverju stórfé. Ég held að hér sé um bráðabirgðalausn að ræða en nauðsynlega bráðabirgðalausn. Við verðum að búa okkur undir það að flytja starfsemi þingsins héðan úr miðborginni. Eftir að ráðhúsið er risið er náttúrlega ekki svigrúm til þess að byggja nýbyggingu þá sem menn dreymdi um fyrir nokkrum árum. Sú hugmynd er að mínu mati orðin úrelt og var sett á laggirnar undir öðrum formerkjum. Þá var ekki komið hér neitt ráðhús. Nú er það staðreynd.
    Borgarstjórn hefur uppi andmæli gegn því að við kaupum Hótel Borg. Andmæli eru uppi gegn því að rífa hús hér við Kirkjustræti og þingið er greinilega ekki velkomið hér í miðborginni. Við eigum að búa okkur undir það að fara héðan. Þetta hús sem við erum í, Alþingishúsið, er fallegt og góðra gjalda vert. Það má hugsa sér hér ýmsa aðra virðulega starfsemi en þinghald. Ég held að við eigum að fela forsetum að leita eftir því við borgaryfirvöld að fá lóðir sem gætu þjónað þörfum Alþingis til frambúðar og þá á svæðum þar sem ekki er farið að byggja.
    Ég er nú ekki eins stórtækur og og hv. þm. Stefán Valgeirsson að vilja fara á Álftanes. Ég held að eðlilegt sé að við höfum þinghaldið í höfuðborginni en mér fyndist koma til greina land á Korpúlfsstöðum eða e.t.v. annars staðar hér í borgarlandinu. Ég tel að það þyrfti að tryggja þinginu stað þar sem hægt væri að ráðast í framtíðaruppbyggingu einhvern tíma á næstu 20 árum og byggja þingstað sem þjónaði þörfum þingsins til nokkurrar framtíðar, þar sem hægt væri að koma fyrir bifreiðastæðum ofan jarðar og ekki þyrfti að eyða stórfé í að grafa þau niður í jörðina og hægt væri að koma við eðlilegu nútímaskrifstofuhaldi og eðlilegri starfsemi þings.
    Ég er sem sagt sammála því að fara svo fram sem tillagan leggur til, sem bráðabirgðalausn, en vara við því að verið sé að ausa peningum í endurbætur á Hótel Borg, en hvet jafnframt forseta þingsins til að hafa framsýni til þess að taka upp samninga við borgina um hentugar lóðir handa þinginu annars staðar í borgarlandinu.