Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Það hefur margt borið á góma í þessum umræðum og ég vildi mjög gjarnan koma að mörgu, en ég verð að neita mér um það. Það er ekki tími til þess að gera slíkt. En kannski stóð ég aðallega upp til þess að leiðrétta ákveðinn misskilning sem hér hefur komið fram í þessum umræðum.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. kom fyrst inn á þetta atriði. Hann sagði að það gæti ekki orðið af nýbyggingu þeirri sem teikning hefur verið gerð að hér í nágrenni Alþingishússins vegna ráðhússins. Og hv. þm. bætti við: ,,Það er ekki að sakast við núv. forseta. Þetta er frá öðrum tíma,,, eins og hann orðaði það.
    Já, það er nú langur tími sem við þyrftum að rekja. Það eru nokkrar staðreyndir sem við verðum að hafa í huga í sambandi við þetta mál og við megum ekki neita staðreyndum og ég ætla engum að gera slíkt. Það hefur verið gert ráð fyrir ráðhúsi á aðalskipulagi Reykjavíkur við norðurenda Tjarnarinnar frá 1967. Þannig var það 1981 þegar Alþingi samþykkti sína þingsályktunartillögu sem ég hef hér áður gert grein fyrir. Þá var gert ráð fyrir ráðhúsi á þessum stað. Og þegar fram fór samkeppni um teikningu af nýbyggingunni eins og Alþingi mælti fyrir um stóð málið þannig að gert var ráð fyrir ráðhúsi við norðurenda Tjarnarinnar. Mér er ekki kunnugt um að það hafi nokkurn tímann allan þennan tíma komið fram nokkur formleg mótmæli af hálfu Alþingis við þessu. Mér er ekki kunnugt um það.
    En snemma árs 1988 skrifuðu þáv. forsetar Alþingis borgaryfirvöldum út af þessu máli og í því bréfi segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Gert er ráð fyrir að núv. Alþingishús verði notað til frambúðar, en til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að byggja hús í nálægð Alþingishússins fyrir þá starfsemi sem rúmast ekki þar. Þeim húsum er ætlaður staður á landspildunni sem Alþingi hefur til umráða, annars vegar milli Kirkjustrætis og Vonarstrætis og hins vegar milli Templarasunds og Tjarnargötu.
    Alþingi leggur áherslu á að tekið verði fullt tillit til þarfa þess við ráðstöfun byggingarlóða í næsta nágrenni Alþingishússins.``
    Þetta var skrifað snemma árs 1988. Og mér er ekki kunnugt um neinar slíkar hliðstæðar orðsendingar fyrr eða síðar út af staðsetningu ráðhúss, slíkar orðsendingar frá Alþingi.
    Ég nefndi hv. 6. þm. Norðurl. e. í þessu sambandi en hann er hvorki lakari né betri en aðrir í þessu efni. Hann gerði ekki athugasemdir við staðsetningu ráðhússins fyrr en hann kom með málið inn á síðasta þing, eins og menn muna, og er ég ekki að setja út á það.
    Hér eiga hlut að máli, í sambandi við þennan misskilning sem ég er að leiðrétta, fleiri en hv. 6. þm. Norðurl. e. Sami misskilningur kom fram hjá hv. 2. þm. Reykn., hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. og hjá 8. þm. Reykn. Ég tel mig hafa leiðrétt þennan misskilning, að tilkoma ráðhússins geri útilokað að byggja eftir

teikningu þeirri sem kom út úr samkeppninni um nýtt hús. Það var allan tímann gert ráð fyrir þessum möguleika. En það var sá munur í framkvæmd á byggingu ráðhússins frá því sem áður var reiknað með að áður var gert ráð fyrir að ráðhúsið stæði fyrir miðjum norðurenda Tjarnarinnar en nú stendur það ekki þar heldur í norðvesturhorninu og þykir það hentugri staður með tilliti til Alþingis.
    Hv. 13. þm. Reykv., hæstv. forseti Sþ., las upp úr fundargerð byggingarnefndar, að ég hygg, varðandi þetta mál. Það sem þar kom fram breytir í engu því sem ég er að segja. Og ég legg áherslu á það, eins og kom fram í máli hæstv. forseta, að það var ekki búið að leggja neinar tillögur af hálfu Alþingis fyrir byggingarnefnd þegar fráfarandi forsetar létu af störfum og það hefur ekki verið gert síðan. Þetta var ekki gert vegna þess að það þótti nauðsynlegt að fá fyrst ákvörðun Alþingis fyrir því að það ætti að leggja í þessar framkvæmdir, eins og fyrirhugaðar voru, og þá ákvörðun var ekki búið að fá. Þetta er eina ástæðan fyrir því, að það var ekki búið að fá samþykki byggingarnefndar, og það var alla tíð gengið út frá því að það væri auðsótt mál og sjálfsagt. Það var haft slíkt náið samband við borgaryfirvöld og skipulagsyfirvöld borgarinnar að það var ekki gert ráð fyrir öðru, enda vék ég að þessu fyrr í ræðu minni.
    Það hafa ýmsir hér haft ánægju af því að fara hörðum orðum um þá verðlaunateikningu sem kom út úr samkeppninni um teikningu á nýju húsi fyrir Alþingi. Ég ætla ekki að fara að deila hér um smekksatriði. Ég minni hins vegar á að það var mjög góð þátttaka í þessari verðlaunasamkeppni. Það komu á milli þrjátíu og fjörutíu tillögur og það er talið að milli 200 og 300 arkitektar hafi unnið að þessari samkeppni.
    Sl. haust, rétt áður en Alþingi kom saman, var málum svo komið að frágengin var áfangaskýrsla um framkvæmdir sem viðkomu nýbyggingu Alþingis. Þá var einnig búið að gera sérstakt líkan af þessu húsi og það var ætlan fyrrv. forseta að þetta líkan yrði til sýnis alþingismönnum hér í Alþingishúsinu og það yrði kynnt þjóðinni þannig að menn gætu sem best séð hvernig byggingin mundi líta út og með sérstöku tilliti til nálægra bygginga.
    Það hefur ekkert orðið af þessu. Þessu líkani hefur verið stungið undir stól og núv. forsetar hafa ekki sýnt það. Ég vil nú skora á núv. forseta að gera bragarbót og gefa alþingismönnum kost á að sjá þetta verk.