Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað örstutt athugasemd. Ég ætla ekkert að deila um þessi orðaskipti. Ég var ekki viðstaddur. Ég var eingöngu að hafa það eftir sem borgarstjóri sagði mér að ég mætti hafa eftir sér og það kemur auðvitað heim og saman við það þegar spurt er hvort einhver breyting hafi orðið af hálfu borgaryfirvalda. Þá liggur það fyrir, mótmælin standa óbreytt. Allt borgarráð er andvígt þessu. Það hefur engin breyting orðið á því. Hvort viðhaft hefur verið eitthvert orðalag um að borgin mundi ekki leggja stein í götu Alþingis o.s.frv. eða það að dagar þess væru taldir að það yrði hótelrekstur í þessu húsi, að slík ummæli hafi fallið af hálfu borgarstjóra --- það kemur þá á daginn hvort hann ... ( GHelg: Ég var ekki að vitna orðrétt í borgarstjóra.) Nei, sameiginlegt álit eða hvað, en alla vega er eitthvað málum blandað í þessu öllu saman. Það sem stendur eftir er þetta: borgin er andvíg þessu. Sú ályktun stendur, alls borgarráðs. Og hitt er það að auðvitað fer borgin ekki að gera tilboð í hús sem ekkert er sérstaklega boðið henni því að borgin ætlar sér auðvitað ekkert að taka þátt í hótelrekstri, en það lá auðvitað fyrir að borgin ætlaði að gera það sem hún gæti til þess að tryggja að þarna yrði áfram hótelrekstur.