Kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Áður en ég vík beint að þeirri till. til þál. sem hér er til umræðu vil ég vekja athygli á því að eitt af forgangsverkefnum núv. ríkisstjórnar í utanríkismálum er að afla hugmyndinni um afvopnun á höfunum fylgis á alþjóðavettvangi. Þetta kemur skýrt fram í skýrslu utanrrh. sem lögð var fyrir Alþingi í apríl sl. og í fjölmörgum yfirlýsingum síðar.
    Ég vek sérstaka athygli á því skrefi sem stigið var á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í lok maí sl. þar sem Ísland varð fyrst aðildarríkja til að lýsa formlega áhuga sínum á þessu máli og því að Íslendingar vildu vinna að framgangi þess innan bandalagsins. Við þá yfirlýsingu hefur verið staðið með virkum málflutningi í tvíhliða viðræðum utanrrh. við ýmsa fulltrúa bandalagsríkjanna og almennt af hálfu utanríkisþjónustunnar. Til utanrrn. hefur verið ráðinn sérstakur sérfræðingur til að sinna þessum málaflokki og í störfum fastanefndar Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu hefur málið verið forgangsverkefni.
    Á nýafstöðnum leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins var einnig fjallað um þessi mál í framhaldi af fundi leiðtoga stórveldanna undan ströndum Möltu. Á þeim fundi náðist mikilvægur árangur og vonir voru vaktar um stóran áfanga á sviði afvopnunarmála á næsta ári. Á þeim grundvelli ætti að vera unnt að byggja einnig síðar afvopnun á höfunum. Við teljum nauðsynlegt og skynsamlegt að hefja nú þegar undirbúning að slíkum viðræðum, ekki síst vegna þess hversu flókið og tiltölulega lítt kannað þetta málefni er. Höfin eru að langstærstum hluta alþjóðlegt svæði og falla ekki undir yfirráð einstakra ríkja. Það er ekki síst þessi staðreynd sem veldur því að afvopnun á höfunum þarf að nálgast að ýmsu leyti á annan veg en afvopnun á landi. Því fer víðs fjarri að fullljóst sé hvernig leysa á ýmis vandamál sem þessu er samfara. M.a. af þessum sökum höfum við lagt áherslu á að undirbúningur hefjist fyrr en síðar. Það eru á því sterkar líkur að samningar um niðurskurð hefðbundinna vopna í Evrópu takist á næsta ári. Samningaviðræður ganga hratt og fremur greiðlega um þessar mundir. Reyndar svo greiðlega að ýmis ríki, einkum smærri ríkin, eiga fullt í fangi með að inna af hendi alla þá vinnu sem fylgir því að vera beinir aðilar að þessum viðræðum. Það kann að koma að því á síðari hluta næsta árs að ákveða framhaldið og við teljum brýnt að afvopnun á höfunum verði þar ofarlega á blaði.
    Á leiðtogafundinum undan ströndum Möltu tókst því miður ekki að ná samkomulagi um að taka afvopnun á höfunum á dagskrá í viðræðunum milli austurs og vesturs. Þrátt fyrir þetta leyfi ég mér að fullyrða að á því er vaxandi skilningur að þegar til lengdar lætur er tæpast mögulegt að skilja að land og haf í afvopnunarmálum. Utanrrh. vakti athygli á þessu í ræðu sinni hjá Sameinuðu þjóðunum í okt. sl. og frá þeim tíma hefur það komið enn skýrar í ljós. Við erum þess vegna bjartsýnir á að okkar málstaður nái

fram að ganga. Það er óhætt að fullyrða að tíminn vinnur með okkur í þessu máli, ekki síst þegar höfð er í huga hin hraða þróun í átt til bættra samskipta milli austurs og vesturs sem við verðum vitni að nánast á hverjum degi um þessar mundir og á undanförnum mánuðum. Þótt höfin séu ekki viðfangsefni samningaviðræðna um afvopnun milli austurs og vesturs enn sem komið er er ástæða til að minna á að líkur benda til þess að samningar um langdræg kjarnorkuvopn, svonefndir START-samningar, takist á næsta ári. Með START-samningi mundi langdrægum kjarnorkuvopnum á höfunum fækka verulega. Eins og utanrrh. vakti athygli á í ræðu sinni hjá Sameinuðu þjóðunum í október teljum við fulla ástæðu til þess að hinn mikli fjöldi annarra kjarnavopna sem ætluð eru sjóherjum verði einnig viðfangsefni samninga. Í því sambandi er þó rétt að vekja athygli á að Bandaríkjamenn hafa einhliða ákveðið verulegan niðurskurð kjarnorkuvopna í bandaríska flotanum eða sem nemur um 1100 kjarnavopnum. Eftir stendur þó að mikið magn kjarnavopna er ætlað sjóherjum og staðreyndin er að enginn floti er í jafnríkum mæli útbúinn til notkunar kjarnorkuvopna og sovéski flotinn. Hér á ég ekki við fjölda vopna heldur hversu stór hluti flotans er útbúinn með kjarnavopnum eða getur beitt þeim.
    Höfin hafa einnig komið við sögu að öðru leyti í samskiptum austurs og vesturs að undanförnu. Bandaríkin og Sovétríkin gerðu með sér samning í júní sl. um aðgerðir til að koma í veg fyrir að hætta stafaði af ýmiss konar starfsemi herafla. Þessi samningur nær ekki eingöngu til land- og flughernaðar heldur einnig til sjóhernaðar. Hvað höfin varðar má líta á samninginn sem frekari útfærslu á samningi Bandaríkjanna og Sovétríkjanna til að koma í veg fyrir hættuleg atvik á höfunum, en hann er, eins og kunnugt er, talinn hafa dregið mjög úr slysum á höfum úti. Árangur þessa samnings hefur leitt til þess að fleiri þjóðir hafa gert tvíhliða samninga við Sovétríkin um sama efni, m.a. Bretar, Frakkar, Vestur-Þjóðverjar og Kanadamenn. Norðmenn hafa jafnframt hafið samningaumleitanir um þetta efni.
    Slys af því tagi sem við urðum vitni að í norðurhöfum fyrr á þessu ári, þegar sovéskir kafbátar urðu í þrígang fyrir áföllum, hljóta að vera þjóð, sem
byggir sína afkomu á fiskveiðum, mikið áhyggjuefni. Með samningum verður þó ekki unnt að koma í veg fyrir slík slys af því tagi. Samningarnir, sem gerðir hafa verið fram til þessa, hafa ekki beinst að því að draga úr slysahættu. Slysin verða yfirleitt ekki vegna árekstra eða annarra atvika sem leiða af starfsemi milli sjóherja frá mismunandi þjóðum heldur vegna bilunar í útbúnaði eða vegna mannlegra mistaka. Könnun á því hvernig hugsanlega mætti draga úr mengunarhættu vegna slysa af þessu tagi leiddi til þess að utanrrh. lagði til í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í okt. sl. að sem fyrsta skref setti Alþjóðakjarnorkumálastofnunin alþjóðlegar reglur um öryggi kjarnavopna á höfunum. Það er ætlunin að fylgja þessu máli eftir frekar af hálfu Íslendinga á

vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    Ég hef hér bent á nokkur meginatriði sem lúta að afvopnun á höfunum á alþjóðavettvangi og málflutningi Íslendinga í þeim efnum og vík þá beinlínis að efni þeirrar þátill. sem hér er til umræðu.
    Það liggur fyrir og hefur gengið fram af því sem ég hef sagt til þessa hversu jákvæðum augum ríkisstjórnin lítur á afvopnun á höfunum og hversu brýnt hún telur að undirbúningur að slíkum viðræðum hefjist. Ég tel jafnframt æskilegt að sem víðtækust umræða um þessi mál fari fram, hvort sem er á sérstökum ráðstefnum eða úti í þjóðfélaginu. Ég hlýt því að líta á efni þessarar þáltill. með jákvæðum huga. En því miður á það sama við nú og fyrr á þessu ári þegar utanrrh. svaraði fsp. hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifs Guttormssonar um alþjóðlega ráðstefnu um afvopnun á höfunum að það er enn ekki tímabært að mínu áliti að halda slíka ráðstefnu. Ástæðan er einfaldlega sú að afvopnun á höfunum er nú á því stigi að verið er að knýja á um að undirbúningur að samningaviðræðum hefjist sem fyrst. Með öðrum orðum, að skapa vilja fyrir því að slíkur undirbúningur hefjist. Við getum ekki kallað saman ráðstefnu til undirbúnings samningagerð fyrr en við höfum þann áfanga að baki. Það hefur litla þýðingu að standa að slíkri ráðstefnu ef þeir aðilar eða ríki sem eiga fulltrúa á henni eru ekki sammála um það hvort efnt skuli til samningaviðræðna um afvopnun á höfunum. Eins og ég sagði áðan er ég nú bjartsýnn á að okkur takist fyrr en síðar að koma málinu á dagskrá og þá getur vel komið til greina að huga að því hvort við Íslendingar eigum að kalla saman ráðstefnu af því tagi sem þáltill. gerir ráð fyrir. Ég tel það hins vegar ekki tímabært á þessari stundu. Slíkt kynni fremur að skaða okkar málstað en verða honum til framdráttar. Af þessum sökum sé ég mér ekki fært að styðja tillöguna. Til þess að enginn misskilji mig, þá vil ég undirstrika áhuga ríkisstjórnarinnar í þessu máli og það starf sem unnið er á hennar vegum til að eiginlegur undirbúningur að viðræðum um afvopnun á höfunum hefjist sem fyrst. En við megum ekki rasa um ráð fram í svo mikilvægu máli og það er ekki sama hvaða leiðir við förum. Segja má að tillagan sé ekki tímabær nú en það kynni að hafa breyst að svo sem einu ári liðnu.