Kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Virðulegur forseti. Tilefni þess að ég tek hér til máls er ræða 1. þm. Suðurl. hér áðan, sem mér fannst, eins og hæstv. utanrrh., vera svolítið á skjön við það mál sem hér er til umræðu.
    Það er þá fyrir það fyrsta að persónulega sé ég ekkert því til fyrirstöðu að gerð verði forkönnun varðandi varaflugvöll hér á landi. Hins vegar tel ég að það beri að virða þær ákvarðanir sem um það mál hafa verið teknar í stjórnarsáttmála og ég efa ekki að stjórnarflokkarnir muni komast að samkomulagi um þá túlkun.
    Það er hins vegar einn hlutur í þessu máli og í málflutningi sjálfstæðismanna sem ég á erfitt með að skilja. Það er spurning um orsök eða afleiðingu og hvort sá þrýstingur sem nú er um aukna afvopnun er til kominn vegna þess ógnarjafnvægis sem menn hafa viljað starfa undir á alþjóðavettvangi undanfarin ár eða einhvers annars. Ég reyndar lít þannig á að drifkrafturinn í afvopnunarviðræðum núna sé þörf austantjaldsríkjanna til þess að geta beitt sínu afli og sínum fjármunum nú um sinn, og vonandi um langa framtíð, til þess að byggja þar upp efnahagslega sjálfstæð, lýðræðisleg ríki að fyrirmynd vestrænna þjóða. Um þetta finnst mér umræðan í utanríkismálum að verulegu leyti snúast núna. Ég er að vísu ekki mjög fróður um utanríkismál en tilfinning mín segir mér að þetta sé nánast einsdæmi í afvopnunar- og utanríkismálaumræðu á Vesturlöndum í dag að ein þjóð eða stjórnarflokkur hjá einni þjóð berjist fyrir aukinni hernaðaruppbyggingu, sbr. umræðu um varaflugvöll nú.
    Ég ætla síðan að koma að því sem ég hef aldrei skilið í röksemdafærslunni fyrir varaflugvellinum en sem mundi væntanlega koma í ljós ef þar yrði gerð forkönnun. Það er að menn segja: Þetta getur haft þýðingarmiklu hlutverki að gegna varðandi eftirlitshlutverk okkar Íslendinga á norðurhöfum. Nú vil ég ekki draga úr því hlutverki og þar munum við, meðan við tökum þátt í samstarfi NATO-þjóðanna, hafa hlutverki að gegna. Í hinu orðinu segja menn: Varaflugvöllurinn verður ekki til nokkurra hernaðarnota á friðartímum, hann verður eingöngu þar til staðar ef á þarf að halda. Og lái mér nú hver sem vill þó ég skilji það ekki hvaða tilgangi hann þjónar þá í eftirlitshlutverkinu ef í hinu orðinu er hafður uppi sá málflutningur að hann skuli ekki, og engar undantekningar gefnar á því, nýttur í hernaðarlegum tilgangi á friðartímum. Þetta er að mínu mati einhver mesta rökleysa sem ég hef heyrt hafða uppi í stjórnmálaumræðunni hér á seinni árum.