Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 08. desember 1989


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að mæla hér fyrir frv. til l. um Úreldingarsjóð fiskiskipa sem flutt var á síðasta þingi en varð þá ekki útrætt.
    Það misræmi sem hefur verið milli afrakstursgetu fiskistofnanna og afrakstursgetu fiskiskipaflotans hefur verið meginvandamál íslensks sjávarútvegs til langs tíma. Þetta ósamræmi hefur dregið úr hagkvæmni veiðanna og m.a. valdið því að nauðsynlegt hefur reynst að setja víðtækar reglur um stjórn fiskveiða og takmarkanir á veiðiheimildir einstakra skipa. Því var á sínum tíma lagt algert bann við innflutningi á fiskiskipum. Það bann rann formlega úr gildi árið 1984.
    Þær reglur gilda nú um endurnýjun flotans að ný og nýkeypt skip koma því aðeins til greina við veitingu veiðileyfa að þau komi í stað sambærilegra skipa er hverfi úr rekstri. Hins vegar hefur tækni í hönnun og smíði fiskiskipa ásamt þeim sveigjanleika sem verið hefur í lögum um stjórn fiskveiða leitt til þess að endurbyggð eða ný skip sem koma í flotann eru oft og tíðum afkastameiri en þau sem úrelt hafa verið.
    Er stjórn fiskveiða hófst með svokölluðu kvótakerfi árið 1984 voru miklar vonir bundnar við fækkun fiskiskipa. Nokkur árangur hefur náðst í þeim efnum en gæti þó verið mun meiri. Stafar það einkum af því hversu skammur gildistími laga um stjórn fiskveiða hefur verið hverju sinni og gert útgerðarmönnum erfiðara fyrir að sjá fyrir framvindu mála næstu ár.
    Með samþykkt núgildandi laga til þriggja ára, 1988--1990, skapaðist fyrst grundvöllur fyrir útvegsmenn til að sameina veiðiheimildir fiskiskipa. Á grundvelli núgildandi laga hafa veiðiheimildir rúmlega 30 skipa verið sameinaðar heimildum annarra skipa. Engu að síður má búast við að hvati til slíkrar sameiningar komi til með að þverra eftir því sem skemmri tími lifir eftir af gildistíma laganna. Sjútvrn. hefur jafnan hvatt til að lög um stjórn fiskveiða hefðu sem lengstan gildistíma en þær tillögur hafa mætt harðri andstöðu, bæði á Alþingi og hjá einstökum hagsmunaaðilum í sjávarútvegi.
    Fyrstu ár kvótakerfisins var unnt að beita umframafkastagetu flotans að nokkru leyti að sókn í áður vannýtta stofna, til að mynda úthafsrækju og grálúðu. Hins vegar er nú svo komið að sókn í þessa stofna hefur einnig verið takmörkuð að tillögu fiskifræðinga. Á næsta ári verður dregið úr þorskveiðum þriðja árið í röð. Frá árinu 1987 til 1990 mun heildarkvóti í þorski alls hafa lækkað um meira en 20%. Þá hefur sóknardögum þeirra togara sem velja sóknarmark verið fækkað. Eru þeir 245 á yfirstandandi ári og gert er ráð fyrir því að þeim muni enn fækka á árinu 1990. Það hefur í för með sér að sóknarmarkstogarar verða með öðrum orðum að liggja bundnir við bryggju rúmlega fjóra mánuði á næsta ári.
    Að beiðni sjútvrn. gerði Þjóðhagsstofnun sl. vor lauslega athugun á áhrifum þess á afkomu útgerðar að fækka fiskiskipum. Niðurstaða stofnunarinnar var sú

að fækki fiskiskipum um 10% og veiðiheimildir þeirra verði sameinaðar öðrum skipum sem eftir verða í flotanum megi gera ráð fyrir að afkoma útgerðar geti batnað um allt að 5% af heildartekjum. Þótt hér sé aðeins um lauslega athugun að ræða er ljóst að hún gefur góða vísbendingu um hvaða áhrif það getur haft á afkomu útgerðarinnar takist að fækka fiskiskipum.
    Í því frv. sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir að veiðiheimildir þeirra skipa sem sjóðurinn kaupir verði seldar. Það mun leiða til þess að fyrrnefndur afkomubati verður nokkru minni, enda er vandséð hvernig hægt væri að fjármagna slíkan sjóð án þess að til sölu veiðiheimilda komi sem hann eignast.
    Með hliðsjón af þessu og þeirri skoðun sérfræðinga að unnt sé að ná sama aflamagni á okkar miðum með jafnvel 70--80% af núverandi flota er nú hér lagt fyrir Alþingi frumvarp að nýjum Úreldingarsjóði fiskiskipa sem hefur það verkefni að glíma við þetta vandamál. Frv. er rökrétt framhald af hinni viðamiklu endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins sem lauk vorið 1986. Nefnd sú sem vann að endurskoðuninni lagði til að gamli Úreldingarsjóður fiskiskipa sem stofnaður var árið 1980 yrði lagður niður. Ástæða þess var einkum sú að nefndin lagði til að útflutningsgjald af sjávarafurðum yrði fellt niður og við það hvarf aðaltekjustofn sjóðsins. Eins taldi nefndin þörf á að gera starfsemi Úreldingarsjóðs og Aldurslagasjóðs fiskiskipa markvissari en verið hafði. Þótti sjóðurinn hafa unnið gegn upprunalegum tilgangi sínum því styrkveitingum úr sjóðnum var oftast ráðstafað til kaupa á nýjum og afkastameiri skipum í stað þeirra sem úrelt voru. Gerði nefndin ráð fyrir að síðar yrðu sett ný lög um starfsemi sjóðsins og jafnframt yrðu ákvæði um Aldurslagasjóð endurskoðuð.
    Hinum nýja Úreldingarsjóði er ætlað það hlutverk að kaupa fiskiskip sem eru til sölu á frjálsum markaði, eyða þeim eða selja úr landi. Í frv. er gert ráð fyrir að sjóðurinn ráðstafi veiðiheimildum þeirra skipa sem hann kaupir gegn endurgjaldi og standi með þeim hætti undir frekari skipakaupum. Lagt er til að stofnfé sjóðsins verði eignir eldra Úreldingarsjóðs fiskiskipa auk eigna Aldurslagasjóðs fiskiskipa. Eignir þessara tveggja sjóða nema samtals tæplega 400 millj. kr.
    Þá er sjóðnum markaður tekjustofn sem Aldurslagasjóður hefur nú. Sú tillaga er gerð hér að gjaldið verði árlega 1200 kr. á hverja brúttórúmlest skips en þó aldrei hærra en 370 þús. kr. fyrir hvert skip. Gjaldið hefði skilað Úreldingarsjóði um það bil 90 millj. kr. á þessu ári en til samanburðar er rétt að benda á að gjald til Aldurslagasjóðs er á þessu ári nálægt 60 millj. kr. Auk þess er gert ráð fyrir að sjóðurinn fái tekjur af sölu veiðiheimilda sem hann eignast við kaup á fiskiskipum. Lagt er til að sjóðnum verði heimilað að yfirtaka áhvílandi lán á þeim fiskiskipum sem hann kaupir eða að öðrum kosti að taka lán fyrir allt að 80% af kaupverðinu. Þetta er gert til að skapa möguleika fyrir sjóðinn að hafa raunveruleg áhrif á stærð fiskiskipaflotans strax á

fyrstu starfsárunum. Við kaup á fiskiskipum skal gætt tveggja meginsjónarmiða. Annars vegar að skipakaupunum sé hagað á þann veg að sem hagkvæmust samsetning náist í fiskiskipaflotanum þannig að líklegt sé að afli dreifist á þá árganga nytjastofna sem hámarksafrakstur gefa. Hins vegar skal stefnt að betri aflameðferð með því að kaupa einkum þau skip sem ekki fullnægja nýjustu kröfum um meðferð afla.
    Í frv. er gert ráð fyrir að sjóðurinn ráðstafi gegn endurgjaldi veiðiheimildum þeirra skipa sem hann eignast. Það er gert til að sjóðurinn geti staðið undir greiðslum afborgana og vaxta og síðar aflað fjár til frekari skipakaupa. Við ráðstöfun á veiðiheimildum verður útgerðum þeirra skipa sem tilteknar veiðar stunda gefinn forkaupsréttur á veiðiheimildum skipsins. Sjóðsstjórn verður falið að ákvarða verð á veiðiheimildunum miðað við markaðsverð slíkra heimilda. Verði forkaupsréttur ekki nýttur verða veiðiheimildirnar seldar hæstbjóðanda. Þá er gert ráð fyrir að sjóðnum verði heimilað að semja við seljanda skips um tímabundinn forkaupsrétt hans á aflaheimildum þess eftir kaupin. Með þessu ákvæði er útgerðaraðilum auðveldað að laga rekstur sinn að breyttum aðstæðum.
    Auk þess sem sjóðnum er ætlað að kaupa fiskiskip sem til sölu eru á almennum markaði er jafnframt heimilt að veita styrki úr sjóðnum til úreldingar fiskiskipa. Er ráð fyrir því gert að slíkir styrkir verði ekki veittir nema til komi raunveruleg úrelding, að skipi sé eytt án þess að skip komi þess í stað. Jafnframt sé óheimilt að nýta endurnýjunarrétt þess til stækkunar annarrar nýsmíði eins og núgildandi reglur heimila. Styrkjunum er einkum ætlað að hvetja útgerðarmenn til að sameina veiðiheimildir úreltra skipa veiðiheimildum annarra skipa í flotanum. Styrkir þessir mega að hámarki nema 1 / 10 af húftryggingarmati viðkomandi skips.
    Í frv. er gert ráð fyrir að ráðherra skipi fimm manna stjórn yfir sjóðnum til fjögurra ára í senn. Tveir stjórnarmenn verða tilnefndir af helstu hagsmunaaðilum í fiskveiðum og tveir tilnefndir af tveim opinberum lánastofnunum er mestu máli skipta við lánveitingar til fiskiskipa. Þá er lagt til að formaður stjórnar verði skipaður af sjútvrh. án tilnefningar.
    Hér skal áréttað að sjóðnum verður í upphafi ekki úthlutað aflaheimildum. Mun sjóðurinn ekki hafa yfir að ráða öðrum veiðiheimildum en þeim er fylgt hafa þeim skipum sem hann hefur keypt og úrelt. Hlutverk sjóðsins er afmarkað
við að fækka fiskiskipum. Því eru sett takmörk á þær aflaheimildir sem sjóðurinn má eiga. Er honum ekki ætlað að kaupa aflaheimildir umfram það sem nauðsynlegt er til að hann nái tilgangi sínum. Sjóðnum eru sett þau takmörk að hann megi ekki öðlast ráðstöfunarrétt umfram 3% heildaraflaheimild af botnfiski eða einstökum tegundum sérveiða. Nái hlutdeild sjóðsins því marki munu aflaheimildir þeirra skipa sem sjóðurinn eignast bætast hlutfallslega við

aflaheimildir alls flotans og munu þannig stuðla að bættum rekstrargrundvelli hans. Þannig að í reynd mun sjóðurinn, þegar 3% markinu er náð, vinna fyrir flotann í heild og þess vegna er þetta takmark sett. En auðvitað má hugsa sér að þetta takmark verði lægra eða hærra eftir því hvað menn vilja að sjóðurinn sé sterkur og hversu langt hann getur náð að minnka flotann.
    Sjútvrh. er heimilað að lækka þetta hámark, þ.e. 3% hámarkið, með reglugerð. Ákvæði þetta er nauðsynlegt því skapist betra samræmi milli stærðar flota og fiskstofna en nú er má draga úr starfsemi sjóðsins með lækkun þessa hámarks. Ég nefni þetta hámark sérstaklega af því að margir hafa haldið því fram að hér sé í reynd stigið fyrsta skref að svokölluðum auðlindaskatti. Ég tel það mikið öfugmæli vegna þess að hér er sett af stað starf sem vinnur fyrir allan flotann og það hámark sem sett er er mjög lágt miðað við allar þær aflaheimildir sem íslenski fiskiskipaflotinn fær, eða einungis 3%.
    Herra forseti. Í ljósi þess ástands sem menn nú horfa til varðandi ástand og hegðun loðnustofnsins verður nauðsyn þess að fækka skipum einn augljósari. Aðrar veiðiheimildir en þær sem loðnuskipin hafa eru nú fullnýttar, þannig að þessum skipum verður ekki skapaður viðunandi rekstrargrundvöllur ef loðnan bregst án þess að gengið sé verulega á veiðiheimildir annarra.
    Verði frv. þetta að lögum gæti Úreldingarsjóður keypt skip útgerðaraðila loðnuskipa sem vilja, við aðstæður sem þessar, hætta útgerð. Þetta sýnir glöggt að með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til verði stuðlað að aukinni hagkvæmni í rekstri flotans án þess að gengið sé á rétt eða hagsmuni þeirra
sem fyrir eru í útgerð.
    Herra forseti. Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.