Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Föstudaginn 08. desember 1989


     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Það er nú skammt um liðið frá því að hér fór fram mikil efnisleg umræða um málefni loðdýrabúskapar hér í landi og afkomu þeirra bænda sem þann búskap stunda. Ég gat þess þá að við umfjöllun í nefnd væri hægt að fjalla nánar um málið. Sú umfjöllun hefur nú farið fram og hefur leitt til þess að landbn. Ed. hefur komist að samkomulagi um afgreiðslu málsins. Eins og hv. formaður nefndarinnar gat um hér áðan þá liggur það alveg ljóst fyrir af þeim fregnum sem við höfum haft af skoðunum forustumanna loðdýrabænda, og reyndar einstakra bænda þar einnig, að hér er um lausn að ræða sem gerir það að verkum að loðdýrabændur geta haldið áfram að berjast fyrir tilverurétti þessarar búgreinar. Það er að sjálfsögðu afar mikilvægt.
    Eins og ég lýsti hér við fyrri umræðuna verður þessi búskapur að sjálfsögðu ekki neinn dans á rósum, eins og stundum er orðað, langt frá því. Ég fæ ekki séð að hann skili t.d. miklum launagreiðslum við þær aðstæður sem nú eru. En menn eru að sjálfsögðu í þessari grein vegna þess að menn treysta á betri tíð í framtíðinni. Þess vegna vilja menn enn um sinn þreyja þorrann og góuna. Þær ráðstafanir sem þessar till. fela í sér eins og þær eru nú lagðar fram gera þetta kleift. Það er aðalatriðið.
    Eins og formaður landbn. hefur lýst hér í skýru máli fela þær í sér þrjú grundvallarmarkmið. Í fyrsta lagi er ríkisábyrgð hækkuð um 20 millj. Sú ábyrgð var 280 millj., er núna 300 millj. Það fjármagn sem Framleiðnisjóður landbúnaðarins átti að leggja til þessa verkefnis hefur nú verið fært til að greiða niður fóður, þannig að þar hefur verið tryggt fjármagn að upphæð 45 millj. kr. Það er staðfastlega tekið fram í nál. að sú niðurgreiðsla sem viðhöfð hefur verið á þessu ári eigi að halda verðgildi sínu, raungildi sínu á næsta ári. Og það liggja líka fyrir um það skýrar yfirlýsingar að ef til þess þarf meira fjármagn en hér er til ráðstöfunar verði úr því bætt. Hér er því séð fyrir á hóflegan hátt en fullnægjandi.
    Þriðja atriðið, sem skiptir nú ekki hvað minnstu máli, er að till. nefndarinnar kveða á um heimild til Stofnlánadeildar landbúnaðarins til að draga úr fjármagnskostnaði þessarar búgreinar í viðskiptum við deildina næstu fimm árin með því að láta höfuðstólinn standa þar óbreyttan en vexti og verðtryggingu falla niður. Þeir sem kunna að óttast að hér gæti orðið um misræmi að ræða milli loðdýrabænda geta verið áhyggjulausir að því leyti, eins og kom hér fram hjá hv. frsm., að síðari hluti 2. gr. veitir heimild til að mæta slíku misræmi er fram kynni að koma. Þ.e. fyrri hlutinn er einvörðungu bundinn við þessi svokölluðu búralán sem geta auðvitað haft misjafnlega stóran höfuðstól að baki sér þannig að ýmsir bændur hafa e.t.v. ekki tekið þau lán í sama mæli og aðrir, kannski jafnvel búnir að greiða þau upp en búa við sömu erfiðleika í viðskiptum við deildina. Þá er vert að leggja á það sérstaka áherslu að síðari hluti 2. gr. gerir einmitt ráð fyrir því að hægt verði að mæta

þeirri þörf með öðrum hætti. Hér er sem sagt um að ræða mjög hóflegar breytingar, en sem gera það aftur kleift, eins og ég sagði áðan, að vonandi sem allra flestir geti áfram tekist á við þessa búgrein og þann búskap sem henni fylgir.
    Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Mér finnst mikil ástæða til þess að færa landbúnaðarnefndarmönnum Ed. þakkir fyrir samstarfið og þá ekki síst forustumanninum fyrir nefndinni, hv. þm. Skúla Alexanderssyni. Ég hygg að það muni nú kannski vekja nokkra eftirtekt að menn skuli komast hér að sameiginlegri niðurstöðu en það styrkir þetta mál náttúrlega afar mikið í augum bændastéttarinnar, ekki einungis þeirra sem stunda loðdýrabúskap heldur bændastéttar landsins almennt. Ég met það mikils að bændur fái slíkar fréttir þegar fjallað er um störf þeirra hér á Alþingi og er það vissulega nokkuð með öðrum hætti en almennt hefur gerst í umræðunni um landbúnaðarmál. Þetta sýnir með ótvíræðum hætti eins og fram kom á sl. vetri að skilningur alþingismanna
og vilji til að standa við hliðina á íslenskum bændum er miklu meiri en álitið er og pólitísk viðbrögð í landinu eru. Þetta finnst mér sérstök ástæða til að undirstrika svo að menn hafi það til athugunar hvað þessi stuðningur er mikilvægur fyrir landbúnaðinn í heild sinni.
    Ég ætla svo ekki að tefja þessa umræðu frekar. Það er afar þýðingarmikið hvað hér hefur verið hratt og vel unnið og ég endurtek þakklæti mitt til samnefndarmanna minna í Ed. fyrir það starf og þá niðurstöðu sem hér hefur fengist.