Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 08. desember 1989


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Mér hefur þótt rétt þegar við 1. umr. að tjá mig nokkuð um það frv. sem hér er til umræðu og hæstv. sjútvrh. hefur gert grein fyrir.
    Hér er frá mínu sjónarmiði um mikið mál að ræða og mikilvægt og það snertir fiskveiðistefnuna. Hæstv. ráðherra vék að því að þegar núverandi fiskveiðistefna var upp tekin í ársbyrjun 1984 hafi verið bundnar vonir, eins og hann orðaði það, við að hún stuðlaði að fækkun skipa. Hæstv. ráðherra sagði að nokkur árangur hefði orðið í þessu efni en ekki eins og efni hefðu staðið til vegna þess að löggjöf um fiskveiðistefnuna hefði verið sett á hverjum tíma til skamms tíma. Og svo er að skilja að betri árangur hefði náðst í þessu ef löggjöfin hefði verið sett til lengri tíma og hægt væri að ganga út frá lengri gildistíma laga um fiskveiðistefnu.
    Ég hef ýmislegt við þessi ummæli hæstv. ráðherra að athuga. Lítum á þann vanda sem hér er um að ræða og hæstv. sjútvrh. vill meina að núverandi fiskveiðistefna hafi stuðlað að að leysa. Vandinn er sá, eins og glögglega kom fram hjá hæstv. ráðherra og allir hljóta að gera sér grein fyrir, að fiskveiðiflotinn er of stór. Það er staðreynd og þá er spurningin hvernig á að snúast við þeim vanda. Það eru tvær leiðir í því efni. Önnur er sú að takmarka fjárfestingu í fiskiskipum þannig að með því móti verði stuðlað að jafnvægi milli sóknargetu fiskiskipaflotans og veiðiþols fiskstofnanna. Hin leiðin er sú að takmarka notin af fiskiskipaflotanum, takmarka nýtingu þeirrar fjárfestingar sem hefur verið lagt í.
    Ég hygg að þegar grannt er skoðað geti naumast nokkur verið í vafa um að þjóðhagslega sé skynsamlegra að takmarka fjárfestinguna þannig að ekki sé fjárfest umfram það sem þörf er fyrir frekar en að fara hina leiðina, að fjárfesta of mikið og takmarka síðan notin af fjárfestingunni.
    Þrátt fyrir að þetta ætti að vera augljóst þá er það svo að núverandi fiskveiðistefna er í ætt við síðari leiðina. Í raun og veru beinist hún ekki í framkvæmd að því að takmarka fjárfestingu í fiskiskipum heldur að takmarka nýtingu þeirra fiskiskipa sem fyrir eru.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta en ákaflega þýðingarmikið er að menn geri sér grein fyrir þessu. Til að stytta mál mitt vil ég láta staðreyndirnar tala. Það vill svo til að hæstv. ráðherra kom einmitt inn á þau atriði sem eru staðreyndir í þessu máli og ég vildi benda á. Ástandið er þannig núna að sóknardagar þeirra togara sem eru á sóknarmarki eru ákveðnir þetta ár 245. Með öðrum orðum, þessum framleiðslutækjum er gert að vera ónotuð í 120 daga á árinu. Hæstv. ráðherra benti líka á, og ég vil undirstrika það, að álitið er samkvæmt athugunum sérfræðinga að hægt væri að ná sama aflamagni með 70--80% af þeim fiskiskipaflota sem til er í landinu. Þetta segir mikið og við getum
hugsað okkur hvaða baggi það er á þjóðarbúinu að við skulum búa við þetta ástand. Því til áréttingar leyfi ég mér að vísa til skýrslu frá Þjóðhagsstofnun

sem ég hef hér í höndum um áhrif fækkunar fiskiskipa og afkomu botnfiskveiða. Þarna er fjallað um árið 1987 og niðurstaða þessarar skýrslu er sú að hagur útgerðar gæti að öllu samanlögðu batnað um nálægt því einn milljarð króna eða um nálægt 5% í hlutfalli við tekjur ef fiskiskipum yrði fækkað um 10%. Þetta eru harla alvarlegar upplýsingar og menn geta þá reiknað út eða séð nokkuð hvað þetta er stórt mál þegar við höfum í huga það sem hæstv. ráðherra sagði, að við gætum komist af með 70--80% af fiskiskipaflotanum til að ná sama aflamagni og við nú höfum.
    Ég hygg að ekki þurfi að fara fleiri orðum til að benda á hvað þýðingarmikið er að við höfum fiskveiðistefnu sem stuðlar að minnkun fiskiskipaflotans þannig að náð verði sem mestu jafnvægi milli sóknargetunnar og veiðiþols fiskstofnanna. En nú er það svo að það er einmitt þetta sem núverandi fiskveiðistefna gerir ekki. Ég fæ ekki séð hvernig sú fullyrðing hæstv. sjútvrh. fær staðist að miðað hafi í rétta átt í þessu efni fyrir þá fiskveiðistefnu sem fylgt hefur verið. Ég bið menn að líta á staðreyndir í þessu efni og ég þykist vita að menn neiti ekki staðreyndum. Til glöggvunar skulum við gera samanburð á þróuninni áður en kvótakerfið var tekið upp og þróuninni eftir að kvótakerfið var tekið upp. Við getum tekið fimm ára tímabil. Á fimm árum eftir að kvótakerfið var tekið upp hefur þróunin orðið sú varðandi stærð fiskiskipastólsins að á þessu fimm ára tímabili hefur fiskiskipunum samtals fjölgað um 121 skip og smálestatala aukist um 9879 smálestir. Eru þá ekki meðtaldir opnir vélbátar en þeim fjölgaði um 162 og smálestatala þeirra jókst um 1725 lestir á þessum tíma. Þetta er þróunin sem hefur orðið í þessum efnum eftir að tekin var upp núverandi fiskveiðistefna með kvótakerfinu í ársbyrjun 1984.
    Ég talaði um samanburð og þá skulum við taka til samanburðar næstu fimm ár á undan. Hvað skyldi þar koma í ljós? Í staðinn fyrir að eftir að kvótakerfið kom til og skipum fjölgaði um 121, þá fækkaði skipum um 71 áður en kvótakerfið kom til. En þetta segir ekki alla söguna. Á fimm árum eftir að kvótakerfið var upp tekið jókst smálestatalan um tæpar 10 þús. smálestir eða 9879, eins og ég
sagði áðan, en á jafnlöngum tíma áður en þessi fiskveiðistefna var upp tekin þá jókst smálestatalan um 5357 smálestir.
    Mér sýnist að þessar staðreyndir séu eins glöggar og hægt getur verið. Stækkun fiskveiðiflotans er nær helmingi meiri eftir að kvótakerfið er tekið upp miðað við það sem var áður en kvótakerfið kom til.
    Ef við höfum þetta í huga verð ég að segja að ég skil ekki þá fullyrðingu hæstv. sjútvrh. að núverandi fiskveiðistefna hafi skilað árangri í þessu efni sem mestu varðar fyrir stjórn fiskveiða í landinu. Ég skil það ekki.
    Það er ekki önnur leið fær í þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir með allt of mikinn fiskveiðiflota en að gera ráðstafanir til að minnka hann. Það er aðeins spurningin um hvernig við förum að því að

minnka hann. Ef það væri hægt að ná í þessum efnum árangri með kvótakerfinu, þá verður það ekki gert nema með meiri miðstýringu, meiri ríkisafskiptum en hafa verið viðhöfð fram að þessu. Það kann að vera að þá gæti kvótakerfið skilað árangri í þessum efnum. En þetta merkir í framkvæmd að komið verði á ströngu skömmtunarkerfi þar sem stjórnvöld ákveði hvað fiskiskipastóllinn skuli vera stór, hvaða skip skuli úrelda, hve mörg ný skip megi koma til, hvaða skip skuli endurbyggð, hver skuli vera eigandi að hverju skipi og frá hvaða verstöð skuli gera það út.
    Með þannig framkvæmd kvótakerfisins má hugsa sér að hægt sé að forðast ofnýtingu fiskstofnanna. En þessi leið yrði dýrkeypt. Þá væri ekki lengur fyrir hendi sú frjálsa samkeppni í fiskveiðum landsmanna sem hefur skapað þá eindæma framleiðni sem hefur verið undirstaða velmegunar þjóðarinnar. Fyrirmæli stjórnvalda fela ekki í sér neina tryggingu fyrir hagkvæmum rekstri sjávarútvegsins. Þvert á móti skortir þessa aðferð það sem nauðsyn krefur til að stuðla að þjóðhagslegri hagkvæmni. Engin miðstýring eða ríkisforsjá getur í eðli sínu verið fær um að gæta þess. Og samkvæmt eðli málsins hljóta ákvarðanir stjórnvalda í þessum efnum að vera að meira eða minna leyti geðþóttaákvarðanir.
    Þessi leið er ófær fyrir okkur Íslendinga. Þessi leið er ófær fyrir undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Það kann að vera að slík leið sem þessi geti einhverjum dugað þar sem sjávarútvegur er ekki nema eitt, tvö eða þrjú prósent af þjóðarframleiðslu. En það er útilokað að njörva undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveg okkar Íslendinga, í slíka fjötra. Og hvað er þá til ráða? Það er að hverfa frá kvótakerfinu sem er fólgið í því að aflatakmarkanir séu bundnar við skip og leyfa að hverju einstöku skipi sé frjálst að afla og flytja þá björg í bú sem það er fært um.
    Ég skal neita mér um að fara að útfæra þessa hugsun í löngu máli. Ég held að flestir ættu að skilja þetta og gera sér grein fyrir því hvaða þýðingu þetta hefur. Það hefur þá þýðingu að skip með góðan rekstrargrundvöll fá að skila þeim arði í þjóðarbúið sem efni standa til. Úrelding bíður þeirra skipa sem haldið hefur verið á floti einungis vegna kvótakerfisins. Kaup og sala skipa verður óhindruð af kvótahagsmunum og verstöðvar fá að njóta aðstöðu sinnar til fiskimiðanna þannig að stuðlað sé að hagkvæmri verkaskiptingu í atvinnulífi landsmanna eftir byggðarlögum og með því eflt þjóðhagslegt gildi og heildarafrakstur fiskveiða.
    Þessi skipan felur í sér það úrval sem þarf að fara fram til þess að fiskiskipum verði fækkað. Þannig að sóknargetan fari til samræmis við það sem nægir til þess að fullnýta fiskistofnana. Ég legg áherslu á að slíkt úrval geta engar stjórnvaldsákvarðanir gert. Það verður einungis gert í frjálsri samkeppni þar sem hæfni og arðsemi fá að ráða. Þeir halda velli sem kunna best til verka, hinir falla úr. Í frjálsum atvinnurekstri geta þeir einir verið þátttakendur sem standast samkeppnina. Þannig verður best tryggður hagkvæmur rekstur sjávarútvegsins. Þannig heltast úr

lestinni þau skip sem óhagkvæm eru og úrelt til reksturs. Það borgar sig hreinlega ekki að gera þau út. Og þannig gæti sóknargetunni miðað, þegar til lengdar lætur, í átt til jafnvægis við fiskistofnana svo beita þurfi sem minnstum veiðitakmörkunum.
    Það er grundvallaratriði að við höfum almenna fiskveiðistefnu sem stuðlar að minnkun fiskiskipaflotans og getur leitt smám saman og þegar til lengdar lætur til nauðsynlegs jafnvægis milli sóknargetunnar og veiðiþols fiskstofnanna. En auðvitað gerist þetta ekki allt umsvifalaust þó að þetta sé grundvallaratriði. Einmitt vegna þess er nauðsynlegt, eins og ég veit að okkur kemur öllum saman um, að gera sérstakar ráðstafanir til að flýta þessari þróun. Það er einkum með tvennum hætti sem við gerum það. Annars vegar með reglum í sambandi við endurnýjun fiskiskipastólsins. Á meðan sóknargetan er of mikil þá leiði endurnýjunin, sem alltaf þarf að vera, ekki til aukinnar sóknargetu. Hin leiðin er sú að gera sérstakar ráðstafanir til þess að úrelda skip.
    Þetta frv. sem við hér ræðum fjallar einmitt um þetta efni. Frv. er, eins og ég sagði þegar í upphafi, mikilvægt og tilgangur þess er slíkur að það skyldi ekki gert lítið úr honum. En það verða ekki þau áhrif af Úreldingarsjóði hvernig sem hann er byggður upp, hvort sem það er með þeim hætti sem er í þessu frv. eða á einhvern annan hátt, það næst ekki sá árangur sem við erum að
sækjast eftir með Úreldingarsjóði, vegna þess að hið almenna skipulag, hin
almenna fiskveiðistefna vinnur í þveröfuga átt. Þess vegna er það svo að í mínum huga er þetta frv. þversögn í sjálfu sér. Það er vegna þess að því fylgir ekki annað frv. sem breytir fiskveiðistefnunni á þann veg sem nauðsynlegt er til að stuðla að jafnvægi milli sóknargetunnar og veiðiþols fiskstofnanna heldur þvert á móti þá gerir þetta frv. ráð fyrir því að haldið verði áfram við þá fiskveiðistefnu sem fylgt hefur verið frá ársbyrjun 1984. Og þetta er í mínum huga að sjálfsögðu alvarlegasti hluturinn við þetta frv. sem við nú ræðum.
    Það ákvæði að ráð skuli vera gert fyrir að Úreldingarsjóðurinn geti keypt veiðileyfi þeirra skipa sem úrelt eru og selt öðrum byggir á því að við höldum kvótakerfinu sem nú er. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði að takmarkanir yrðu settar fyrir því hvað þessi viðskipti með kvótaleyfi mega vera mikil. Hæstv. ráðherra sór fyrir það að þetta þýddi að gengið væri inn á hugmyndir um auðlindaskatt. Ég læt mér ekki til hugar koma að gera ráðherra það upp að hann sé talsmaður auðlindaskatts og tali um hug sér í þessum umræðum. En ég fullyrði að bein hætta er á því að kvótakerfið leiði fyrr eða síðar til auðlindaskatts, enda vitum við að sumir, og ekki fáir, styðja þetta kerfi einmitt á þeim grundvelli að svo verði. Það er rétt að þetta er ekki nema lítið skref sem stigið er með sölu veiðileyfa til tekjuöflunar fyrir Úreldingarsjóð. Það er rétt sem hæstv. ráðherra lagði áherslu á. En allar leiðir hefjast á einu skrefi hvort sem það er leiðin til ljóssins eða helvegur. Þess vegna

er þetta ákvæði mjög alvarlegt hvernig sem á það er litið. Það getur verið túlkað síðar sem vegvísir til auðlindaskatts og það gerir þetta frv. óraunhæft vegna þess að það er þversögn í sjálfu sér af því að gert er ráð fyrir kvótakerfinu til frambúðar.
    Þetta eru aðalatriðin í því sem ég vildi segja um þetta mál og vekja athygli á þegar við 1. umr. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem kemur til með að fjalla um þetta mál. Þar fær þetta frv. að sjálfsögðu ítarlega meðferð. Fyrir utan það sem ég hef hér rætt, og er aðalatriðið í mínum huga, þarf að sjálfsögðu að líta á önnur atriði frv., 3. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir stofnfé Úreldingarsjóðs. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta ítarlega. Ég er, eins og marka má af máli mínu, eindreginn stuðningsmaður þess að Úreldingarsjóður sé við lýði og stofnaður. Mér finnst ekkert athugavert og eðlilegt það sem segir í 1. tölul. 3. gr. að eftirstöðvar af eignum hins eldri Úreldingarsjóðs fari í hinn nýja sjóð. Hins vegar orkar meira tvímælis það sem segir í 2. tölul. ef það fær staðist að eignum Aldurslagasjóðs fiskiskipa verði ráðstafað á þennan veg, vegna þess að sá sjóður er annars eðlis en eldri Úreldingarsjóðurinn og heyrir í raun og veru undir tryggingastarfsemi þar sem hinir tryggðu hafa greitt sín iðgjöld.
    Ég hef aðeins hugsað um þá leið sem gert er ráð fyrir að verði farin skv. 4. gr. frv. um tekjuöflun í Úreldingarsjóð, að árlega skuli greiða gjald til Úreldingarsjóðs og að eigendum fiskiskipa sé það gert. Í raun og veru er það svo að þegar öll kurl koma til grafar þá verður ekki staðið undir svona kostnaði nema af sjávarútveginum sjálfum vegna þess eðlis sjávarútvegsins að hann getur ekki orðið styrktur, það er hann sem styrkir allt annað sem byggt er á í efnahagslífi okkar. En það kann að vera spurning hvort það sé heppilegra að leggja þetta gjald á miðað við smálestatölu fiskiskipa fremur en t.d. smálestatölu afla. Ég skal ekkert fullyrða í því efni en held að sú nefnd sem fær frv. til meðferðar þurfi að athuga þessar tekjuöflunarleiðir gaumgæfilega eins og annað efni.
    En allt er þetta hjóm, allt er þetta hjóm og frv. algerlega tilgangslaust í mínum huga nema því sé breytt þannig að það byggi ekki á þeirri fiskveiðistefnu sem nú er fylgt, kvótakerfinu, og að horfið verði, sem er aðalatriðið, frá þeirri fiskveiðistefnu sem fylgt hefur verið frá ársbyrjun 1984 og tekin upp önnur fiskveiðistefna með þeim hætti sem ég hef lýst hér.
    Ég hef leitast við að draga fram staðreyndir sem varða fullyrðingar mínar í þessu efni og ég ætla að þær séu öruggari leiðarvísir, staðreyndirnar í þessu efni, en sú fullyrðing hæstv. sjútvrh. í upphafi hans framsöguræðu að nokkur árangur hefði náðst af núverandi fiskveiðistefnu í því efni sem mestu máli skiptir, að minnka fiskveiðiflotann og stuðla að jafnvægi milli sóknargetu fiskveiðiflotans og veiðiþols fiskstofnanna.