Byggðastofnun
Föstudaginn 08. desember 1989


     Flm. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Byggðastofnun hefur þá sérstöðu að hún hefur frá stofnun fengið framlög á fjárlögum til þess að standa undir rekstri sínum enda er Byggðastofnun öðrum þræði þjónustustofnun fyrir sveitarfélög úti á landi og fyrir einkaaðila. Nú á síðustu mánuðum, ég tala ekki um nú upp á síðkastið, hefur það færst æ meir í vöxt að ríkisstjórnin hefur sent ýmis erindi til Byggðastofnunar til að hún vinni úr þeim og reynir með þeim hætti að lækka þann rekstrarkostnað sem er af störfum ráðuneytanna. Hlýtur raunar að koma til athugunar hvort rétt sé að Byggðastofnun sendi einstökum ráðuneytum reikning fyrir þá vinnu sem hún innir af hendi fyrir ráðuneytin ef svo fer fram sem horfir að með fjárlögum og sérstökum stjórnvaldsákvörðunum sé stöðugt verið að binda fleiri og þyngri bagga á Byggðastofnun, en hins vegar dregið úr þeim framlögum sem ríkið veitir stofnuninni.
    Eins og ástandið var í Byggðastofnun á öndverðu þessu ári á meðan 6% lántökugjald var greitt af erlendum lánum stóðu sakir þannig, skv. áætlun Byggðastofnunar, að búist var við að þessi skattur mundi nema um 70--80 millj. kr. Þar af var gert ráð fyrir því að vegna lána til verkefna skipasmíðastöðva yrðu greiddar 12 millj. kr. og hefur sá kostnaður að verulegu leyti fallið á Byggðastofnun sjálfa. Bæði vegna þess að þessi lán hafa greiðst út með jöfnum hætti allt árið og eins vegna hins að hæstv. viðskrh. lýsti því yfir hér í deildinni á sl. vori að þessi lán skyldu undanþegin lántökugjaldi og verður þá að átelja að sú vitneskja hefur ekki borist fjmrn. eða Seðlabanka þannig að sérstakri samþykkt ríkisstjórnarinnar um þau efni hefur ekki verið sinnt.
    Ég hef fyrir allnokkru lagt fram fsp. hér á hinu háa Alþingi um það hversu sé háttað endurgreiðslu á lánum vegna þessa lánaflokks en af einhverjum undarlegum ástæðum hefur mér ekki verið boðið að tala fyrir þeirri fsp. og hlýtur þó að vera auðvelt fyrir ríkisstjórnina að gefa upplýsingar við henni.
    Þeim sem taka lán hjá Byggðastofnun er ætlað að greiða 2% í stimpilgjald af skjölum vegna skulda Byggðastofnunar, hlutabréfa og skuldabréfa, og enn fremur er lagt 0,25% ríkisábyrgðargjald á erlend lán frá stofnuninni sem verður að teljast mjög hæpið í heild sinni þegar á það er litið að skv. síðustu fjárlögum og lánsfjárlögum var gert ráð fyrir því að skattar á Byggðastofnun næmu samtals 118 millj. kr., en ríkisframlag var á hinn bóginn ekki nema 125 millj. kr. Það er því augljóst að lántakendur standa nánast undir öllum rekstri þessarar stofnunar, þar með talið þjónustu við hið opinbera, þróunarstarf og þátttöku í nýjum hlutafélögum.
    Ríkissjóður hefur ekki treyst sér til þess að leggja neitt til stofnunarinnar af þessum sökum ef borið er saman annars vegar þær tekjur sem ríkissjóður áskilur sér af þeim lánveitingum sem afgreiddar eru í gegnum Byggðasjóð og hins vegar litið á svokallað framlag ríkissjóðs til stofnunarinnar. Það er óhjákvæmilegt að

átelja þessi vinnubrögð, sérstaklega vegna þess að vaxtamunur hjá þessari stofnun hefur verið mjög lágur að meðaltali og einnig og ekki síður vegna hins að mjög sterk fyrirmæli og stundum kannski óljósar óskir hafa verið sendar stjórn stofnunarinnar frá einstökum ráðherrum um að hún veitti styrki til eins og annars. Nefni ég þar sérstaklega t.d. loðdýrarækt og eins hitt að stofnunin tapar helmingi þess fjár sem hún hefur varið til kaupa á svokölluðum aðildarbréfum í Hlutabréfasjóði. En þessi lán eru til sex ára og vaxtalaus, að vísu verðtryggð en sú vaxtaskerðing sem þarna verður nemur um hálfum höfuðstól.
    Ég veit ekki hvort það væri rétt, herra forseti, að setja hljóðdempara á neðri deild.
    Ég vil í þessu samhengi vekja athygli á því að samkvæmt lögum um Fiskveiðasjóð er hann undanþeginn stimpilgjaldi af skjölum viðvíkjandi lánum sem Fiskveiðasjóður tekur og veitir skv. 19. gr. laga nr. 44/1976, en á árinu 1988 námu heildarútlán sjóðsins 2,2 milljörðum kr. Ef gert er ráð fyrir því að stimpilgjöld af þessum lánum hefðu að meðaltali numið 1,5% kemur í ljós að áætlaður tekjumissir ríkissjóðs vegna þessarar undanþágu hefur numið 33 millj. kr. á árinu 1988.
    Þá vil ég vekja athygli á því að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina, gælusjóður hæstv. ríkisstjórnar, nýtur ekki aðeins undanþágu frá stimpilgjaldi af skjölum viðvíkjandi lánum sem sjóðurinn tekur eða veitir heldur er einnig ákveðið í lögum að skjöl viðvíkjandi útgáfu hlutdeildarskírteina og skuldaskjöl vegna lána sem Hlutabréfasjóður Byggðastofnunar kann að veita eða taka eru undanþegin lántöku- og stimpilgjöldum.
    Ég hef ekki í höndum upplýsingar um hversu háar fjárhæðir hér er um að ræða en þær eru verulegar. Ég get ekki séð, herra forseti, að sá eðlismunur sé á starfsemi Byggðasjóðs skv. þeim markmiðum sem honum eru mörkuð í lögum og Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina eða Fiskveiðasjóði að með hliðsjón af þessum tilgangi sé réttlætanlegt að leggja 2% stimpilgjöld á þau lán sem Byggðasjóður tekur eða veitir. Ég þykist þess fullviss að þingdeildarmenn séu mér sammála um það atriði, a.m.k. er við því að búast að alþm. utan af landi skilji þá þýðingu sem það hefur að lánum úr Byggðasjóði sé ekki mismunað með þessum hætti. Hef ég í trausti þess lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um Byggðastofnun, þess efnis að við 19. gr. laganna bætist ný málsgr.:
    ,,Öll skjöl viðvíkjandi lánum, sem stofnunin veitir eða tekur, eru undanþegin stimpilgjöldum.``
    Það er kannski álitamál hvernig réttast væri að orða þetta frv., hvort rétt væri að setja þessa undanþágu inn í lög um stimpilgjöld nr. 36/1978, en með hliðsjón af því að undanþáguákvæðið um Fiskveiðasjóð er í lögunum um Fiskveiðasjóð og með hliðsjón af því að undanþáguákvæði um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina er í lögum um þá stofnun, lögum um efnahagsaðgerðir nr. 9/1989, taldi ég eðlilegast að fella undanþáguákvæðið inn í lög um Byggðastofnun, nr. 64/1985.

    Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. svo einfalt sem það er að formi til, einfalt að efni og sanngjarnt að eðli.