Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Föstudaginn 08. desember 1989


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Því miður gat ég ekki verið viðstödd afgreiðslu þessa frv. í fjh.- og viðskn. en þar sit ég nú fyrir hönd Kvennalistans og vil því gera grein fyrir afstöðu Kvennalistans til frv.
    Við munum styðja frv. og fyrir því eru tvær ástæður. Önnur er sú, og hún er kannski ekki veigameiri þó að ég nefni hana fyrst, að það telst nú til nýmæla í því moldviðri skattbreytinga ýmiss konar sem þyrlað er upp á þessum síðustu dögum þingsins að einhvers staðar skuli þó vera staðfesta.
    Saga þessa skatts var að vísu óvenju fjölbreytt og skrautleg sl. ár. Hann var hækkaður til muna fyrir réttu ári og síðan þegar þurfti að grípa til efnahagsráðstafana, einu sinni sem oftar, var hann lækkaður aftur og er því gott dæmi um það óðagot og það flaustur sem einkennir þingstörf hér á síðustu dögum þings fyrir jól.
    Við gerum okkur vel grein fyrir því að mörg fyrirtæki eru illa stödd. Um það vitna bæði gjaldþrot og umkvartanir. Svo er þó auðvitað ekki um öll fyrirtæki, og við efumst reyndar um að þessi skattur einn skipti sköpum í afkomu fyrirtækja en viljum þó vekja athygli á því að það eru ekki bara fyrirtæki sem eru gjaldþrota. Það eru líka heimili og einstaklingar sem eru gjaldþrota eða standa mjög höllum fæti og því finnst okkur ekki verjandi annað en að styðja þennan skatt sem er þó óbreyttur á sama tíma og verið er að leggja til hækkun á tekjuskatti á einstaklinga.