Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Föstudaginn 08. desember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja eins og er að ég skildi ekki almennilega rök hv. síðasta ræðumanns sem bar hag heimilanna fyrir brjósti því það er ljóst að skattlagning sú sem hér er verið að ræða um veldur hækkuðu verðlagi í landinu sem að sjálfsögðu bitnar fyrst og fremst á heimilunum í landinu. Ég hygg því að Kvennalistinn geti endurskoðað afstöðu sína til þessa máls.
    Þetta mál sem hér er til umræðu er náttúrlega margrætt mál og menn kannski farnir að endurtaka sig ár frá ári en eins og fram kom hér hjá 1. flm. minni hl. var þessi skattur settur á fyrst 1979 og þá til eins árs, en það er eins og með aðra skatta sem settir eru á tímabundið að þeir virðast festast og ekki nokkur einasta leið að losna við þá. Sá skattur sem hér er til umræðu er hins vegar mjög óréttlátur og mismunar verulega atvinnugreinum og gerir mjög upp á milli þeirra. Hér ætti hins vegar að vera hlutlaust skattkerfi sem ekki er hægt að segja að sé þegar um slíka skattlagningu er að ræða sem leggst þyngst á eina tiltekna atvinnugrein umfram aðrar.
    Það er alveg ljóst, eins og ég sagði fyrr, að þessi skattur fer út í verðlagið og þó sérstaklega hér á Reykjavíkursvæðinu. Möguleikar dreifbýlisverslunar eru ekki eins ríkir til að yfirfæra skattinn út í verðlagið, nógu dýrt er það nú samt þar fyrir.
    Það er reyndar einkennilegt að ríkisstjórn sem hefur það að markmiði, eins og segir í málefnasamningi hennar, að unnið verði að því að bæta aðstöðu verslanafyrirtækja í dreifbýli --- og undir þeim orðum, þegar vitnað er í málefnasamninginn, flýr hæstv. fjmrh. úr sal --- skuli standa að framlengingu á slíkri skattlagningu sem hér er um að ræða.
    Þessi skattur leggst þó fyrst og fremst á Reykjavíkursvæðið eða Stór-Reykjavíkursvæðið, eins og fram kemur í svari við fsp. sem hv. þm. Hreggviður Jónsson lagði fram hér fyrr í vetur þar sem hann spurði hvernig þessi skattur skiptist eftir kjördæmum. Þá kemur það glögglega í ljós að að 88% leggst skatturinn á Stór-Reykjavíkursvæðið.
    Mér er ómögulegt að sjá að verið sé að bæta aðstöðu verslunarfyrirtækja í dreifbýli. Ég sé ekki styrkinn í því að íþyngja þeim atvinnuvegi með skattlagningu sem þessari og mætti reyndar spyrja þá landsbyggðarþingmenn hér sem bera hag kaupfélaganna fyrir brjósti hvort þeir telji að þetta verði þeim verslunarrekstri til framdráttar. Nógu erfitt hélt ég að það væri fyrir hjá mönnum á þeim bæ.
    Hæstv. forseti. Ég hefði nú gjarnan viljað hafa hæstv. fjmrh. hér í salnum þegar ég fer í einn ákveðinn punkt. Ég ætla ekki að krefjast þess að hann sitji hér undir, eins og ég sagði áðan, miklum endurtekningum sem óneitanlega verða ár frá ári, en það er ákveðinn punktur sem ég vil gjarnan hafa ráðherrann hér í salnum til að svara fyrir. Reyndar hefði ég óskað einnig eftir hæstv. viðskrh. því hann lýsti því hér fyrr í vetur í umræðum um þennan ákveðna skatt að hann væri því fylgjandi að hann yrði

felldur niður og tekinn af, þannig að nauðsynlegt er að fá sjónarmið hæstv. viðskrh. einnig. Og talandi um þá sem ég, persónulega, hefði viljað heyra í hér úr ræðustól þá var líka ítrekað reynt að fá álit Borgfl. á þessum skatti. Eins og menn vita voru þeir andvígir honum að miklum meiri hluta á síðasta þingi nema hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, og það væri vissulega athyglisvert að heyra þeirra skoðun í dag og hvort hún er ekki sú sama og hún var á síðasta þingi. Reyndar á ég ekki von á öðru en að svo sé enda mjög stefnufastur flokkur þar á ferð.
    Það er ljóst að á tímum eignarskatta og hárra fasteignagjalda leggst þessi skattur þar ofan á einnig, þannig að það er ekki nóg að verið sé að ræða um skattlagningu af einu tagi á eignir heldur er hún af þrennu tagi, eignarskattar, fasteignagjöld og verslunar- og skrifstofuhúsnæðisskattur. Þá er líka rétt að benda á að þessi skattur veldur hækkun á húsaleigu sem kemur náttúrlega þeim verst sem minnstar hafa tekjurnar.
    Úr því að hæstv. fjmrh. heiðrar deildina með nærveru sinni langar mig að víkja beint að þeirri spurningu sem ég ætlaði að leggja fyrir hann vegna þess að ég geri ráð fyrir að hann staldri ekki lengi við.
    Í fjárlögum sl. árs, fyrir árið 1989, var gert ráð fyrir að skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði mundi gefa ríkissjóði 425 millj. kr. í tekjur. Af góðmennsku sinni og til að liðka fyrir kjarasamningum lækkaði hæstv. fjmrh. skatthlutfallið úr 425, og í fyrsta þingskjali þessa árs, fjárlögunum, segir um þennan skatt, með leyfi forseta: ,,Miðað við sömu verðforsendur og í áætlun um eignarskatta gætu tekjur af þessum gjaldstofni numið 400 millj. kr. á árinu 1990, samanborið við 330 millj. kr. á þessu ári.``
    Hæstv. ráðherra ætlaði sem sagt að fara úr 425 millj. niður í 330 millj. samkvæmt því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir. Engu að síður svarar hann fsp. hv. þm. Hreggviðs Jónssonar um þennan skatt og hvernig hann skiptist á kjördæmin á þá lund að heildarinnheimta skattsins sé um 464 millj. kr. á þessu ári. Nú óska ég að sjálfsögðu eftir skýringum á þessu, á skatti sem átti að lækka úr 425 millj. niður í, eins og fjárlagafrv. í ár segir, um 330 millj. en raunveruleikinn er 464 millj. Sem sagt, aukin skattheimta um 40 millj. frá frv. sl. árs en aftur munur upp á einar 130 millj. samanborið við fjárlög ársins í ár. Ég veit að það vefst ekkert fyrir ráðherra að útskýra fyrir þingheimi í hverju þetta liggur. Hins vegar er þarna mikið ósamræmi á ferðinni og ég vona að það sé ekki rauði þráðurinn í gegnum frv. hæstv. ráðherra, þ.e. fjárlagafrv. fyrir árið 1990.
    Ég óskaði eftir því, hæstv. forseti, að viðskrh. tæki þátt í þessum umræðum. Nú hef ég ekki heyrt frá forseta um hvort ráðherra er í húsinu eða ekki eða hvort von er á honum. ( Forseti: Hann er í húsinu.)
    Það hefur glögglega komið fram í umræðum undanfarinna ára að kratar eru í sjálfu sér á móti þessari skattlagningu og hafa lýst því yfir ár eftir ár en engu að síður ætíð greitt síðan atkvæði með

honum. Hins vegar, eins og ég sagði fyrr, lýsti ráðherra því yfir að hann hefði talað fyrir því í ríkisstjórninni að þessi skattur yrði lagður af og væri fróðlegt að heyra hvernig honum gangi í þeirri baráttu sinni.
    Ég ætla hins vegar ekki að hafa langt mál um þetta. Ég tel að í ljósi þeirra aðstæðna sem eru í þjóðfélaginu í dag, í ljósi yfirlýsinga hæstv. forsrh. um stöðu verslunar og þjónustu, sé engan veginn verjandi að leggja slíkan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.
    Með þetta allt í huga höfum við, ég og hv. þm. Hreggviður Jónsson, lagt fram tillögu til rökstuddrar dagskrár sem hljóðar svo:
    ,,Þar sem þessi skattur mismunar verulega atvinnugreinum í landinu og í ljósi erfiðrar rekstrarstöðu fyrirtækja samþykkir deildin að vísa þessu máli frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.``
    Og nú ákalla ég samvisku manna, krata sem annarra, að taka undir þessa tillögu.