Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Föstudaginn 08. desember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Þessi skattur er dæmigerður fyrir þá hugsanavillu sem ríkir hér á landi í skattamálum. En hvað er verslun? Er verslun af hinu góða eða er verslun af hinu illa? Og ég spyr hæstv. fjmrh. hvort hann telur. (Gripið fram í.) Hann telur verslun af hinu góða.
    Jón Sigurðsson var heldur ekki í nokkrum vafa um hvort væri. ( Fjmrh.: Viðskrh.?) Sá eini sanni. Hann gerði sér manna best grein fyrir því hvað blómleg verslun þýðir fyrir landsmenn. Góð afkoma fyrirtækja í verslun og viðskiptum er hagur allrar þjóðarinnar og þá um leið ríkissjóðs.
    Sú skattheimta er vanhugsuð sem felst í því að leggja sérstakan skatt á atvinnutækin í landinu, starfsvettvang þeirra sem geta bætt lífskjör almennings með lægra verði og ódýrari þjónustu á fjölmörgum sviðum.
    Nú undanfarið hefur fjöldi fyrirtækja og einstaklinga orðið gjaldþrota. Jafnframt eru nú fleiri menn atvinnulausir í landinu en nokkru sinni fyrr, og í fyrsta skipti í fjölda ára eru menn nú atvinnulausir úr verslunarstétt. Fram að þessu hefur atvinnuleysi fyrst og fremst verið tengt þeim atvinnugreinum sem hafa átt við árstíðabundnar sveiflur að stríða. Þau gjaldþrot og greiðslustöðvanir fyrirtækja í verslun og viðskiptum sem hafa átt sér stað á þessu ári eru aðeins staðfesting á að fyrirtækin þola ekki alla þessa skattheimtu núv. ríkisstjórnar.
    Í tillögu til rökstuddrar dagskrár í þessu máli frá okkur hv. 5. þm. Vesturl. kemur það og greinilega fram að við teljum að vísa eigi þessu máli frá, enda er þetta skattur sem við getum ekki sætt okkur við að eigi að leggja á fyrirtækin og mismuna með þeim hætti fyrirtækjum í landinu.
    Hæstv. forseti. Í fsp. minni til hæstv. fjmrh. um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði kemur mjög glögglega fram hvað þetta þýðir í raun og veru. Af þeim skatti eru 88,3% greidd á Stór-Reykjanessvæðinu eða 409 millj. Þessi skattur er sem sagt fyrst og fremst settur á fyrirtæki hér á Stór-Reykjanessvæðinu og hann hefur orðið þess valdandi að dýrtíðin hefur vaxið í landinu. En hann leggst líka á fyrirtæki úti á landi, þó í minna mæli sé, vegna þess að fasteignamat úti á landi er miklu lægra. Í nýjum lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem voru samþykkt hér á sl. vetri, og ég einn þingmanna gerði athugasemd við það, eru ákvæði um það að sveitarstjórnir úti á landi geti hækkað allverulega fasteignagjöldin á húsnæði um allt land. Má reikna með því að fasteignagjöld á þessum fyrirtækjum úti á landi hækki um u.þ.b. 30% á næsta ári að meðaltali. Þó getur sú hækkun orðið allmiklu hærri eftir því í hvernig sveitarfélögum þau eru en reikna má með að þetta sé ekki undir þessu. Við erum því að ræða hér að þessi sérstaki eignarskattur og fasteignagjöld geti numið samtals í kringum 619 millj. á 2224 fyrirtækjum. Þetta eru gífurlega háar tölur þegar haft er í huga að þetta eru ekki fleiri fyrirtæki

sem lenda í þessum skatti. Það liggur alveg ljóst fyrir að með því að fella þennan skatt niður væri hægt að skapa mörg störf í þjóðfélaginu og af þessum störfum rynnu skattar til ríkisins, þannig að það er örvandi fyrir atvinnulífið að lækka skattana.
    Ég veit ekki til þess að slíkur skattur sé lagður á fyrirtæki neins staðar í heiminum með þessum hætti. Þegar til viðbótar kemur að það er lagður á fyrirtæki á landinu rúmlega 1 milljarður í öðrum eignarsköttum eru lögð á fyrirtæki í landinu með þessum sköttum rúmlega 1600 millj. sem felast fyrst og fremst í því að verið er að draga féð úr heilbrigðum atvinnurekstri og setja það í rekstur ríkisins sem er kominn langt úr böndum. Hæstv. fjmrh. ætti frekar að snúa sér að því að leyfa fyrirtækjunum að ráðstafa þessum tekjum sem væru nálægt því að allir þeir menn sem nú er á atvinnuleysisskrá gætu fengið vinnu hjá þessum fyrirtækjum fyrir andvirði þeirra.
    Ég skora á hv. þm. að snúa þessu við því að ríkið fær engar tekjur ef atvinnufyrirtækin í landinu hætta að starfa. Þá getum við hætt. Hæstv. fjmrh. ætti að snúa sér að því að minnka skattana en ekki hækka þá eins og hann hefur gert.