Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Föstudaginn 08. desember 1989


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Ég þarf ekki miklu við það að bæta sem talsmaður minni hl. fjh.- og viðskn. sagði hér áðan, en mér þykir rétt að minna á það að þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð 28. sept. á sl. ári var nokkuð ítarlegur kafli í þeirri stefnuskrá um byggðamál og m.a. segir þar í lokakaflanum um byggðamál að sérstakt átak verði gert til að unnið verði að því, það er næstsíðasta atriðið, að bæta aðstöðu verslunarfyrirtækja í dreifbýli.
    Í framhaldi af því skipaði viðskrh. nefnd til þess að gera álitsgerð um aðgerðir til að bæta aðstöðu verslunarfyrirtækja í strjálbýli. Þessi nefnd var skipuð snemma á þessu ári eða nánar tiltekið 22. febr., skipuð af viðskrh. Í nefndinni sat ráðuneytisstjóri viðskrn. ásamt fimm öðrum mönnum, m.a. Eyjólfi Sverrissyni, endurskoðanda frá Þjóðhagsstofnun, Magnúsi E. Finnssyni, framkvæmdastjóra Kaupmannasamtakanna, Ólafi Friðrikssyni, framkvæmdastjóra hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga, Ólafi Gunnarssyni, viðskiptafræðingi frá Verðlagsstofnun, og Sigurði Guðmundssyni, skipulags- og áætlunarfræðingi, sem tilnefndur var af Byggðastofnun.
    Dagblaðið Tíminn hefur skýrt allítarlega frá starfsemi þessarar nefndar og hvað hún lagði til. Nefndin leggur til að endurgreiddur verði sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem lagður var á verslunarhús í strjálbýli, þ.e. á verslunarsvæðunum þar sem íbúafjöldi er um eða innan við 1500 íbúar og hefur verið það undanfarin fimm ár. Þessir verslunarstaðir sem hér koma til greina eru svo sýndir með í nefndarálitinu og þar er miðað við að íbúar verslunarsvæðis hafi ekki styttri og auðveldari kost á að sækja verslun. Nefndin telur rétt að endurgreiðslan verði byggð á umsóknum viðkomandi aðila og nefndin telur að miðað við álagningu á þessu ári sé hér um að ræða upphæð sem nemi rétt innan við 10 millj. kr. Og það sem meira er um vert er að nefndin leggur til að á fjárlögum þessa árs, fyrir árið 1990, verði í tilraunaskyni sérstök fjárveiting að upphæð 25 millj. kr. og verði Byggðastofnun falin ráðstöfun hennar í framangreind verkefni að fengnum tillögum þriggja manna nefndar sem viðskrh. skipar.
    Og nú spyr ég: Hvað er um þetta? Á að framfylgja þessu stefnuskráratriði ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá 28. sept. 1988? Á að framfylgja því með því að taka þessar 25 millj. inn í fjárlagafrv. Þá á eftir að afgreiða það. Nefndin gerir jafnframt að sinni tillögu að fjárhæðinni verði varið þannig að allt að 10 millj. renni til þess að borga fyrir ráðgjafarþjónustu við verslunarfyrirtæki í strjálbýli, allt að 10 millj. kr. verði varið til þess að greiða fyrir sameiningu verslunarfyrirtækja og hagræðingu í verslunarþjónustunni og allt að 5 millj. kr. samtals verði varið til þess að veita styrki til breytinga og endurbóta á verslunarhúsnæði og til rekstrarstyrkja vegna verslunarþjónustu sem býr við sérstaklega erfið

skilyrði.
    Það verður að mínum dómi að vera samræmi í því hvað ríkisstjórnin er að fara í þessum efnum. Ég hef ekki heyrt að sú ríkisstjórn sem var mynduð á sl. hausti hafi fallið frá þessum atriðum svo að þau hljóta að vera í fullu gildi. Því spyr ég: Hvers vegna er svo mikil ánægja af því að endurnýja þennan skatt og þá með þessum hætti ef ekki fást nein svör við hinu? Á að standa við gefin fyrirheit í málefnasamningi og með hvaða hætti á að standa við þau? Á að taka undir álitsgerð þeirra aðila sem hafa fjallað um þessi mál og hefur verið falið að fjalla um þau með skipun viðskrh. á þessari nefnd? Það er því ekki óeðlilegt sem fram kom í máli hv. 1. þm. Suðurl., að spurt sé um þessi mikilvægu atriði. Og það er ekki hægt fyrir hvorki fjmrh. né viðskrh. að sitja hér undir þessu og svara ekki jafnsjálfsögðum spurningum og hér hafa komið fram í dag. Þingið á kröfu til þess að þessir herrar svari þessum spurningum afdráttarlaust. Ætla þeir að standa við gefin fyrirheit? Meintu þeir eitthvað með því að skipa nefnd á þessu sviði? Ætla þeir að taka mark á því sem þessi nefnd leggur til eða ætla þeir að hunsa það og halda áfram þessari skattlagningu og það með þessum ósanngjarna hætti?