Námslán og námsstyrkir
Föstudaginn 08. desember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ræða hæstv. menntmrh. var býsna skondin. Hér kom sá maður sem gefið hefur mest loforð og stærstar yfirlýsingar um námslánin, gefið hefur námsmönnum mest fyrirheit um það að enginn vandi sé á höndum og auðvelt sé að uppfylla allar óskir þeirra. Hann kemur svo hér í hv. deild og segir: Ég kann auðvitað engin ráð. Ég á auðvitað engar lausnir --- eftir að hafa gefið öll loforðin og segir svo: Eigum við ekki að ræða þetta í sameiningu? Eigum við ekki að fjalla um þetta í sameiningu því að ég kann engin ráð til þess að uppfylla loforð mín og yfirlýsingar og samninga.
    Það er auðvitað ástæða til þess af þessu tilefni, herra forseti, að ræða ítarlega og í löngu máli feril hæstv. ráðherra í þessum efnum, loforð hans og efndir og sérstaklega þá stóru játningu sem hér hefur verið gefin, að hann kunni engin ráð og eigi engar lausnir, en hann skýtur því svona til meðþingmanna hvort þeir vilji ekki hugsa málið í hans stað. Aumkunarverðari getur einn ráðherra ekki verið og aumari frammi fyrir Alþingi og námsmönnum í þessu landi.
    Hæstv. menntmrh. fór hér á haustdögum hamförum vegna ákvarðana og yfirlýsinga stjórnar Lánasjóðsins. Ég minnist ekki annarra eins ofsókna, pólitískra ofsókna, af hálfu ráðherra gagnvart undirmönnum sínum vegna þess að þeir höfðu gert það eitt að rækja þá skyldu sína að taka ákvarðanir í samræmi við það sem Alþingi hafði ákveðið í fjárlögum og lánsfjárlögum um ráðstöfunarfé Lánasjóðsins. Og var býsna eðlilegt að stjórn og starfsmenn Lánasjóðsins hefðu þau sjónarmið í huga því að hæstv. fjmrh. hafði gefið um það sverar og miklar yfirlýsingar á öndverðu ári að haldnar yrðu yfirheyrslur yfir forstöðumönnum ríkisstofnana, ráðuneyta og einstakra fyrirtækja og stofnana, í þeim tilgangi að tryggja að þeir færu í einu og öllu eftir þeim ákvörðunum sem teknar voru í fjárlögum og lánsfjárlögum. Þegar stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna áréttaði að hún ætlaði að fylgja ákvörðunum Alþingis hófst herferð hæstv. menntmrh. Hann sakaði stjórn Lánasjóðsins um pólitíska afstöðu í málinu af því að hún var einvörðungu að fylgja fram ákvörðun Alþingis. Það væri nauðsynlegt, herra forseti, að fá álit hæstv. fjmrh. á framkomu hæstv. menntmrh. í þessu máli. Á hvern veg stóð hæstv. menntmrh. að því að styðja hæstv. fjmrh. í því að fylgja fram yfirlýsingunum um að hafa aga og hemil á einstökum ríkisstofnunum? Nei, þvert á móti, hæstv. menntmrh. gekk fram fyrir skjöldu í að ráðast á þá sem ætluðu að fylgja eftir ákvörðunum Alþingis, gera það að pólitísku árásarefni á þá menn sem þannig stóðu að verki. Það væri fróðlegt að fá álit hæstv. fjmrh. á þessum vinnubrögðum hér í umræðunni.
    Hitt vekur líka athygli að hæstv. menntmrh. kemur hér og segist ekki eiga neinar lausnir og lýsir því yfir, varðandi fjárhagsstöðu sjóðsins á næsta ári, að enn sé þar allt á huldu. Það er óhjákvæmilegt að inna eftir því hvort það sé ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að hafa þau mál í lausu lofti fram eftir næsta ári, hvort það sé

ekki ætlun hæstv. ríkisstjórnar að hafa mótað afstöðu og tekið ákvarðanir nú fyrir jólaleyfi samhliða því sem Alþingi tekur ákvarðanir með samþykkt fjárlaga og lánsfjárlaga um ráðstöfun opinberra fjármuna á næsta ári. Á að skilja þetta mál eftir? Á þetta að verða enn eitt dæmið um að fjárlög og lánsfjárlög sem hér á að afgreiða fyrir jól verði pappírsgagn eitt, marklaust pappírsgagn? Eða ætlar hæstv. ráðherra að lýsa ákvörðunum og niðurstöðu í tæka tíð þannig að unnt verði að afgreiða þessi mikilvægu frv. og mikilvægu lög, fjárlög og lánsfjárlög, í ljósi endanlegrar niðurstöðu hæstv. ríkisstjórnar um þessi efni? Eða á að láta reka á reiðanum og hafa þessi mál óleyst fram eftir öllu ári eða sér hæstv. ráðherra kannski ekkert fram úr þessum málum þannig að allt verði í óefni meðan hann situr í stól sínum?