Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Föstudaginn 08. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. Ég verð nú að hryggja hv. þm. með því að það er ekki búið að afgreiða fjárlög og hann hefur verið hér með fullri meðvitund undanfarna daga og hefði átt að geta sagt sér það sjálfur að fjárlög eru enn óafgreidd. Hitt er svo annað mál að það er búið að vinna talsvert að gerð fjárlaga þannig að meginramminn er nú þegar skapaður og satt að segja gengur okkur nú ekki of vel að ná endum saman. Og má segja að útgjöldin eru enn þá talsvert meiri en þær tekjur sem lagt er til að ríkissjóður fái og þar af leiðir að okkur þykir búmannlegra að fara hægt í að skera niður tekjur.
    Það er út af fyrir sig gott að það rifjast upp fyrir hv. þm. Friðriki Sophussyni að þessi skýrsla skuli vera til. Úr því að hann hefur svona mikinn áhuga á henni, þá hefði hann átt að biðja um að fá hana til umræðu í nefndinni því að við höfðum þetta frv. til umræðu á a.m.k. tveimur talsvert löngum fundum og hann hafði ýmislegt við það að athuga en ekki óskaði hann eftir að þessi skýrsla væri tekin til umræðu.
    Ég átti satt að segja ekki von á því að hv. 1. þm. Reykv. Friðrik Sophusson væri tilbúinn að fallast á tillögur þessarar nefndar. Það er kannski misskilningur minn og ég harma það mjög ef svo er, að Sjálfstfl. er tilbúinn að innágangast þessar hugmyndir sem hér er um að ræða. Ef Sjálfstfl. er eindregið fylgjandi því að farið sé eftir tillögum nefndarinnar, þá finnst mér nú ástæða til þess að stinga við fótum og skoða málið upp á nýtt. Hér leggur nefndin til í nokkrum atriðum breytingar til bóta fyrir dreifbýlisverslunina og 1. liður er þessi:
    ,,Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði verði felldur niður af verslunarhúsnæði í strjálbýli. Nefndin telur að sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sé verslunarþjónustu í strjálbýli þungbær enda arðsemi verslunarhúsa í lágmarki. Nefndin er sammála um að æskilegt sé að komið verði á endurgreiðslu álagðs skatts á verslunarhús í strjálbýli þar sem verslunarsvæðið nær til um 500 íbúa eða færri. Kort um þessa verslunarstaði fylgir álitsgerð þessari. En sums staðar er matsatriði hvað telja beri til verslunarsvæðis hvers staðar. Erfitt er að áætla nákvæmlega hvað hér yrði um háa fjárhæð að ræða en nefndin áætlar að á yfirstandandi ári nemi hún rétt innan við 10 millj. kr. Hér er um að ræða tiltölulega lága fjárhæð ...`` o.s.frv.
    Síðan leggur nefndin til að leyfð verði hækkuð álagning á landbúnaðarvörur í smásölu, sem sagt að létta 10 millj. af þessum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, síðan að hækka smásöluálagningu á landbúnaðarvörum. Veittir verði hagræðingarstyrkir til strjálsbýlisverslana sem m.a. kosti rekstrarráðgjöf þeirra. Þetta finnst mér vel geta komið til greina og er alveg góðra gjalda vert.
    Síðan kemur 4. liður: ,,Veittir verði styrkir til þess að greiða fyrir sameiningu verslunarfyrirtækja og hagræðingu verslunarþjónustu í strjálbýli. Nefndin

hefur rætt nauðsyn þess að nokkru fjármagni sé veitt til þess að auðvelda sameiningu verslunarfyrirtækja og til að stuðla að hagræðingu í verslunarþjónustu í strjálbýli. Sums staðar háttar þannig til að nokkur fyrirtæki keppa á smáum markaði þannig að markaðshlutdeild hvers og eins stendur ekki undir kostnaði. Með sameiningu fyrirtækja og jafnvel aðstoð við að leggja niður fyrirtæki þannig að viðskipti þeirra færist til annars aðila á staðnum er hægt að koma upp styrkari rekstrareiningum sem þjónað geti markaðnum á hagkvæman hátt, jafnt fyrir rekstraraðila sem viðskiptavini.`` Þetta finnst mér nú góðra gjalda vert. Þarna vil ég taka höndum saman við hv. þm. Friðrik Sophusson.
    Í mínu kjördæmi hagar þannig til með þessa staði að þarna yrðu kaupmannaverslanirnar lagðar niður og undir kaupfélögin. Mér finnst þetta virkilega vera til athugunar og mundi verða til mikillar hagræðingar. Að sjálfsögðu yrði nú það lífvænlegasta látið lifa. Kaupmannaverslanirnar yrðu bara lagðar undir kaupfélögin. Það er fyrrv. varaformaður Sjálfstfl. sem er að leggja til að leggja niður kaupmannaverslanirnar á þessum smáu stöðum og leggja þær undir kaupfélögin. Ég er alveg tilbúinn að taka saman höndum við hv. 1. þm. Reykv. um þetta markmið. Þetta finnst mér ágæt hugmynd.
    Og 5. liður: ,,Stuðlað verði að tengingu verslunarþjónustu við aðra þjónustu.`` Þessi þjónusta er m.a. að í þessi kaupfélög verði sett lyfjaafgreiðsla. Þetta finnst mér líka geta vel komið til greina. Ég veit ekki hvernig hv. 1. þm. Reykv. gengur að sannfæra apótekarana fyrir norðan um að heldur ætti að selja lyfin í kaupfélögunum en ef hann tekur það að sér, þá vil ég gjarnan njóta atbeina hans við það og taka höndum saman við hann um að hrinda því máli í framkvæmd.
    6. liður er að Byggðastofnun veiti lán eða stofnstyrki til uppbyggingar verslunarþjónustu. Þetta líkar mér vel. Þetta finnst mér ágætt og góðra gjalda vert. Og 7. liður: ,,Veittir verði rekstrarstyrkir til strjálbýlisverslunar.`` Þetta finnst mér góðra gjalda vert líka. (Gripið fram í.) Enda eru þetta valinkunnir menn sem nefndina skipa og hafa komist að skynsamlegri niðurstöðu. Og það er svo einkennilegt að hv. 1. þm. Reykv. skuli hafa séð að þetta var skynsamlegt því það er sannarlega ekki á hverjum degi sem hann rekur augun í hvað er skynsamlegt. Þetta þykja mér mikil og góð tíðindi og ég hefði gjarnan viljað gera mitt til að hann fái hrint þessum hugsjónum sínum í framkvæmd. Ég sé að samvinnuhreyfingunni í landinu er hinn mesti fengur að fá þennan vaska liðsmann, hv. 1. þm. Reykv. Mér finnst þetta nú dálítið gróft, satt að segja, en ef fyrrv. varaformanni Sjálfstfl. ofbýður þetta ekki, þá er ég til í að reyna að greiða svolítið fyrir samvinnuhreyfingunni. Ég væri alveg til með að taka málið til skoðunar fyrir 3. umr. ef hv. 1. þm. Reykv. heitir því hér í ræðustól eða í prívatviðtali að styðja mig við að hrinda þessum tillögum nefndarinnar í framkvæmd.