Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Föstudaginn 08. desember 1989


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki vera langorður. Ég held að mikið gagn hafi orðið af þessari umræðu hér í dag þótt ekki væri talið nema það að hv. 1. þm. Norðurl. v. skuli nú í fyrsta skipti hafa lesið þær tillögur ( PP: Og 1. þm. Reykv. líka.) sem komu fram hjá stjórnskipaðri nefnd sem fjallar um landsbyggðarverslunina. Það mátti heyra hér á stauti hans að hann þekkti ekki tillögurnar. Nú er hann þeim kunnugur og hann býður upp á að haft verði samráð um þau atriði sem þar koma fram. Ég skal fúslega verða við því í nefndinni að ræða þessar skýrslur og taka hv. þm. á orðinu, enda lofi hann hinu sama um önnur þau frumvörp sem lögð verða fram bæði af hálfu ríkisstjórnarinnar og af hálfu stjórnarandstöðunnar og skal þá ekki standa á mér að við vinnum saman og finnum sameiginlega lausn. Hitt efast ég hins vegar um að hv. þm. hafi rétt fyrir sér þegar hann telur að kaupfélögin muni taka yfir kaupmannsverslanirnar, a.m.k. sýnir það sig þegar skoðaðir eru reikningar kaupfélaganna að mörg þeirra tapa verulegum upphæðum og Sambandið kannski sýnu mest ... ( ÓÞÞ: Hárrétt.) Hárrétt, kallar flokksbróðir hv. 1. þm. Norðurl. v. og má þá kannski búast við því að á sumum stöðum verði kaupfélögin færð undir kaupmennina en ekki öfugt eins og hv. þm. hélt að yrði aðalreglan. (Gripið fram í.) En hv. þm. kom hér með tilboð og ég segi: Ég er tilbúinn að taka því tilboði með þeim skilyrðum að við vinnum þá saman og eigum samráð um allar þær tillögur sem koma fram frá stjórn og stjórnarandstöðu í hv. fjh.- og viðskn. og ég er sannfærður um það að við frændur munum komast þar að góðri og gagnlegri niðurstöðu fyrir land og þjóð.