Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 09. desember 1989


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara að taka þetta frv. til umræðu. Það er búið að gera það að verulegu leyti, en það er athyglivert að hæstv. fjmrh. segir að skattar léttist á þeim sem eru með lægri tekjur en þyngist á þeim sem eru með hærri tekjur. Síðan kemur forusta Alþýðusambandsins og segir þetta ekki rétt. Loks kemur forusta BSRB og segir það heldur ekki rétt en er þó með aðra útreikninga.
    Ég fyrir mitt leyti tel að það sé nauðsynlegt að fjh.- og viðskn. verði þess umkomin að kafa í þetta mál því að það má ekki koma fyrir að verið sé að þyngja byrðar á þeim sem eru á nauðþurftartekjum. Það er alveg rétt sem hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir sagði hér áðan að þessi mörk sem þarna eru sett eru nauðþurftartekjur. Ég harma það að sú þáltill. sem ég flutti hér í fyrra um að kanna þetta til hlítar hafi ekki enn fengið hljómgrunn í þinginu því að það hlýtur að verða undirstaðan, að sú úttekt verði gerð, til þess að hægt sé að ákveða lágmarkslaun og aðrar fjármagnsstærðir þá eftir því. Það á að vera grunnurinn. Ég harma það að ekki hefur komist í framkvæmd að taka annað þrep í tekjuskatti, þ.e. hátekjuþrep sem við, mín samtök, höfum lagt þunga áherslu á að verði gert.
    Hitt er svo annað mál að ríkið verður að láta enda ná saman, a.m.k. þegar til lengri tíma er litið. Það verður að fá með einhverjum hætti tekjur fyrir þeim útgjöldum sem menn standa frammi fyrir til þess að halda uppi velferðarríkinu, til þess að geta framkvæmt þannig að það sé a.m.k. ekki neðan við lágmark sem menn geta hugsað sér og tekið afstöðu til. Og þá er einmitt þetta að finna það út með hvaða hætti er hægt að skipta byrðunum af réttlæti. Það er málið.
    Það var verið að tala hér áðan um vaxtahækkun sem var ákveðin á lánum þeirra sem eru að fá lán nú eftir margra mánaða eða jafnvel ára bil. Ég verð nú að segja það að það er eiginlega ofvaxið mínum skilningi hvernig stóð á því að þessi ákvörðun var tekin eins og hún var tekin. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að athuga það mál og það kann að vera að það hafi verið nauðsyn, eins og allt þjóðfélagið er, að hækka eitthvað þessa vexti yfirleitt. En að hækka þá á þann veg sem gert var er forkastanlegt, hvorki meira né minna. Þeir sem eru búnir að bíða eftir lánum og eru að tapa sínum íbúðum annars vegar og hinir sem jafnvel hafa notið þess, eru búnir að kaupa, var þá ekki réttara að setja 0,5% á alla? Er það ekki frekar í átt til jafnréttis heldur en að níðast á þeim sem eru kannski búnir að bíða í fleiri mánuði og jafnvel ár með lausaskuldir, jafnvel á dráttarvöxtum? A.m.k. er það mín afstaða. Og ég bara trúi því ekki að þetta nái fram að ganga. Ég vil þá spyrja: Hvar er réttlætið orðið í þessu þjóðfélagi? Eða er fólk ekki í sambandi, er hæstv. ráðherra ekki í sambandi við fólk? Hvað hefur gerst?
    Í sambandi við húsbréfamálið þá hefur það farið alveg eins og ég hef gert ráð fyrir, eins og ég sagði fyrir. Mér datt ekki í hug að standa að þessu máli

þegar ég var búinn að tala við hæstv. ráðherra og átta mig á hvað var verið að gera. Og vera hissa á því að það hafi ekki kannski farið alveg eftir einhverju samkomulagi. Ég held að ég hefði verið jafnvel enn þá meira hissa ef það hefði staðið. Nei, við þurfum að vera raunsæ á hvernig hlutirnir eru. Sannleikurinn er sá að það verður ekki hægt að ná tökum á þjóðfélaginu, tökum á efnahagslífinu, það verður ekki hægt í raun og veru hvorki fyrir fyrirtæki né einstaklinga að gera neinar áætlanir á meðan lánskjaravísitalan er í gildi því ef verðlag hækkar erlendis þá hækka skuldirnar, t.d. á húsnæðisstjórnarlánum, á öllum lánum. Og á meðan þetta vitleysisfyrirkomulag er, sem er alveg merkilegt að menn sem þykjast vera langskólagengnir telja að það sé ekkert annað hægt, að það skuli vera svona ár eftir ár og setja þjóðina í þann vanda sem hún stendur í fyrir þessum málum. Og að vera að gefa ákveðnar forsendur fyrir því að það skuli vera nægt að ná þessu niður jafnvel í 5%, ja, ég veit ekki á hverju þetta er byggt. Það er náttúrlega hægt að setja sér forsendur sem eru svo langt frá raunveruleikanum og geta aldrei ræst. Það er hægt. Og margir hafa reiknað sig á þann hátt hálfvitlausa.
    En ég ætla bara að endurtaka það að ég vonast til þess að fjh.- og viðskn. hv. deildar taki þessi mál alvarlegum tökum, komi með niðurstöðu hér við 2. umr. hvernig þetta verkar í raun og veru og hvaða forsendur nefndin þá gefur sér. Ég sé það að aðilar vinnumarkaðarins gefa sér allt aðrar forsendur en hæstv. ríkisstjórn og fjmrh. Þetta þarf að kanna. Ég fyrir mitt leyti vil ekki sætta mig við annað en það komi berlega í ljós áður en þetta er afgreitt að það þyngist á þeim sem hafa hærri tekjur en það sé létt á hinum sem eru á nauðþurftartekjum.