Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 09. desember 1989


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Í þessari umræðu sem hér hefur farið fram um tekjuskatt og eignarskatt hefur nokkuð borið á góma sú ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur tekið um hækkun vaxta á húsnæðislánum. Um það mál mætti raunar hafa mörg orð í ljósi þeirra orða sem hér hafa fallið, en tímans vegna skal ég reyna að stytta mál mitt. Ég hlýt þó að fara um þetta nokkrum orðum, ekki síst í ljósi alvarlegra ásakana sem fram komu í máli hv. 1. þm. Reykv. um einstaka þætti þessarar ákvörðunar.
    Hv. 1. þm. Reykv. hélt því m.a. fram að þessi ákvörðun bryti í bága við ákvæði húsnæðislaganna og ákvæði laganna þýði raunverulega að hækka hefði átt vexti á öll lán.
    Í öðru lagi gerði þingmaðurinn athugasemd við það að vextir hefðu ekki verið hækkaðir á þegar tekin lán. Í ljósi þess má reyndar spyrja hv. þm. hvort það sé afstaða Sjálfstfl. að það hefði átt að hækka vextina á þegar tekin lán.
    Í þriðja lagi dró þingmaðurinn í efa að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefði meiri hluta hjá stjórnarflokkunum.
    Ég vil fyrst, virðulegi forseti, ræða um þá fullyrðingu þingmannsins að þessi ákvörðun brjóti í bága við lög, hafi ekki lagastoð og sé þess vegna ómerk. Ég hef leitað álits nokkurra lögfræðinga á þessari ákvörðun, þ.e. að hún gildi bara á lán frá ákveðnum tíma sem ekki hafa verið greidd út, og hef m.a. fengið skriflegt álit eins lögfræðings sem ég ætla að lesa kafla úr, með leyfi virðulegs forseta. Þar kemur fram m.a. eftirfarandi:
    ,,Það vandamál sem hér er til álita er framkvæmd vaxtahækkunar á lánum Byggingarsjóðs ríkisins, þ.e. sú ákvörðun að öll lán úr sjóðnum sem komu til útborgunar fyrir ákveðið tímamark beri áfram 3,5% vexti en öll þau lán sem komu til greiðslu eftir þennan tíma beri 4,5% vexti.
    Í fyrsta lagi verður að kanna hvort telja megi stjórnvöldum heimilt að láta mismunandi vexti gilda á lánum Byggingarsjóðs ríkisins yfirleitt. Í lögum segir það eitt að vextir skuli vera breytilegir. Á það væntanlega bæði við mismunandi vexti eftir lánaflokkum og felur einnig í sér heimild til að breyta vöxtum eftir á, enda er það tekið fram í útgefnum skuldabréfum að vextir séu háðir ákvörðunum ríkisstjórnarinnar hverju sinni. Hvergi er þó að finna neitt ákvæði sem leggur skyldu á stjórnvöld til að breyta vöxtum með ákveðnum hætti, hvorki á ákveðnum tímamörkum, einstökum lánaflokkum né einstökum lánveitingum.
    Húsnæðisstofnun ríkisins og lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins hafa verið undirstaða almennra fasteignaviðskipta í landinu. Fjár í Byggingarsjóð ríkisins er í grófum dráttum aflað með tekjum af eigin fé, fjárframlagi ríkissjóðs og sölu skuldabréfa til lífeyrissjóðanna. Lánskjör á skuldabréfum til lífeyrissjóðanna miðast við þau kjör sem ríkissjóður býður almennt á fjármagnsmarkaði. Beint framlag

ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins fer því í að jafna þann mun sem er á vöxtum útlána úr sjóðnum, ákveðnum sérstaklega af ríkisstjórninni hverju sinni, og þeim vöxtum sem Byggingarsjóður ríkisins greiðir til lífeyrissjóðanna.
    Sú vaxtahækkun sem nú á að koma til framkvæmda er til þess að leiðrétta að einhverju þann mun sem þarna er á. Vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins eru þannig niðurgreiddir af ríkissjóði með ákveðnum hætti og eru sjónarmið við vaxtaákvörðun ekki þau sömu og á almennum fjármagnsmarkaði eða þau sömu og notuð eru við almenna vaxtaútreikninga. Þetta má t.d. sjá glöggt á því hversu lengi útlánsvextirnir hafa verið óbreyttir þrátt fyrir að á þeim tíma hafi orðið töluverðar breytingar á fjáröflun til sjóðsins, m.a. með samningum um kaupskyldu lífeyrissjóðanna á skuldabréfum.
    Með sjónarmiðum sem þessum má færa rök fyrir þeirri niðurstöðu að ríkisstjórnin sé ekki bundin af neinum sérstökum reglum um það hvernig og hvenær hækka megi vextina af einstökum lánum Byggingarsjóðs ríkisins. Að sjálfsögðu verður að gera þá kröfu að ríkisvaldið láti fagleg og málefnaleg sjónarmið ráða því hverjir skuli greiða hærri vexti en aðrir. Hér er valin sú leið að láta ákveðna reglu gilda um hóp manna sem eins er ástatt um, þ.e. þau lán sem koma til greiðslu eftir ákveðið tímamark bera öll sömu vexti. Hins vegar gildir önnur regla, a.m.k. enn um sinn, um þau lán sem þegar hafa komið til útborgunar og má segja það sama hér að aftur gildir ein regla fyrir alla þá sem eins er ástatt um að þessu leyti.
    Það eitt sér, að breyta reglum um vexti á lánum Byggingarsjóðs ríkisins miðað við ákveðið tímamark, má því segja að sé eðlilegt og brjóti engan veginn í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.``
    Þessari afstöðu lögfræðingsins sem ég hef hér lesið og afstöðu nokkurra annarra lögfræðinga sem ég hef leitað til ber saman. Niðurstaða þeirra er á einn veg: Að ríkisstjórnin hafi ekki brotið gegn ákvæðum húsnæðislaganna með ákvörðun sinni. Hitt er aftur á móti ljóst að ríkisstjórnin hafði heimild til þess að hækka vexti á þegar tekin lán.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að fram komi í þessari umræðu að sú ákvörðun sem var tekin nú um vextina er ekki ný af nálinni. Hún lá þegar fyrir á
síðasta þingi, sl. vor þegar þessi hv. deild fjallaði um húsbréfakerfið og frv. um tekjuskatt og eignarskatt sem fól í sér vaxtabætur.
    Með upptöku húsbréfakerfisins og upptöku vaxtabótanna sérstaklega lá það að baki að gjörbreyta því fyrirkomulagi sem hefur verið og gilt hefur á niðurgreiðslu vaxta. Sem sagt að taka það raunverulega allt inn í einn farveg sem er vaxtabótakerfið. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar á sl. vori sem er bókuð í ríkisstjórninni og sem ríkisstjórnin stóð öll að og fram kom í þingskjölum hér á Alþingi, þ.e. í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, var að ríkisstjórnin stefndi að því að vaxtamunur af teknum lánum hjá lífeyrissjóðunum og

útlánum Byggingarsjóðs ríkisins í núverandi húsnæðiskerfi verði ekki meiri en 0,5--1%. Og verða vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins lægri sem þeim mismun nemur.
    Á þeim tíma þegar þetta lá fyrir sl. vor stefndi í það að vextirnir sem ríkissjóður greiðir lífeyrissjóðunum yrðu 5%. Hv. fjh.- og viðskn. lét bóka sína afstöðu í þessu efni og hún var á þann veg sem fram kemur í nál. meiri hlutans: ,,Meiri hl. nefndarinnar lítur svo á að fenginni þessari yfirlýsingu að eftir gildistöku laganna verði vextir af byggingarsjóðslánum ekki hærri en að hámarki 4,5%.`` Það lá því alveg ljóst fyrir að þegar húsbréfakerfið tæki gildi 15. nóv. sl. mundu vextirnir hækka upp í a.m.k. 4,5%. Ríkisstjórnin tók líka aðra ákvörðun þessu samhliða, þ.e. að vextir á þeim tíma mundu ekki hækka á þegar teknum lánum. Því ætti auðvitað engum að koma það á óvart að þessi ákvörðun er tekin nú.
    Og ef fyrir liggur samþykkt í þingflokki Framsfl., eins og hv. 1. þm. Vesturl. greindi hér frá, þá hlýtur það auðvitað að vera brot á því samkomulagi sem gert var sl. vor ef ákvörðun þingflokks Framsfl. er á þann veg að standa ekki að þessari vaxtahækkun. Þessi ákvörðun var samþykkt í ríkisstjórninni af ráðherrum allra flokka nema ráðherrum Borgfl., enda stóðu þeir ekki að því samkomulagi sem var gert sl. vor um meðferð vaxtanna þegar húsbréfakerfið yrði tekið upp.
    Það er nokkuð athyglisvert í þessari umræðu að það virðist eiga verulegt fylgi hér í þingsölum að hækka vexti á þegar teknum lánum. Það hefur komið fram í máli nokkurra hér og er það auðvitað athyglisvert út af fyrir sig. Meira að segja kom það fram í máli hv. 1. þm. Vesturl. að hann telur að gera eigi úttekt á vaxtakerfinu og vaxtabreytingar, þegar þær verði gerðar, eigi að ná jafnt yfir allt kerfið, bæði Byggingarsjóð verkamanna og Byggingarsjóð ríkisins. Ná yfir allt kerfið, sagði hv. þm. Það hlýtur þá að þýða það að hv. þm. er tilbúinn að ljá máls á því að hækka vexti t.d. á lánum úr Byggingarsjóði verkamanna.
    Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum á hv. 1. þm. Vesturl. Það er auðvitað orðin regla en ekki undantekning að hann er á móti öllum tillögum sem ég flyt og lúta að húsnæðismálum, og gerir bókanir út og suður þegar þær koma fram. Ég hefði út af fyrir sig ekki orðið hissa þó að hann hefði líka gert bókun og athugasemd við það ef tillaga mín hefði verið um að lækka vexti á lánum úr Byggingarsjóði ríkisins.
    En það er líka áhugavert að skoða hvort þetta sé í fyrsta skipti sem þannig hefur verið staðið að vaxtaákvörðunum á húsnæðislánum. Við skulum rifja upp hvernig staðið var að vaxtahækkun í Byggingarsjóði ríkisins 1984 þegar Framsfl. og Sjálfstfl. fóru með völd og gátu þá auðvitað haft áhrif á framkvæmd þeirrar ákvörðunar. Þá, árið 1984, voru vextir 2,25%. Ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að hækka þá vexti upp í 3,5%, um 1,25% en ekki 1% eins og nú er gert. Var þá sú ákvörðun í samræmi við það sem nú er gagnrýnt, t.d. af fulltrúum Sjálfstfl. og

Framsfl., að hækkunin yrði lægri og kæmi á þegar tekin lán? Nei, þeir völdu ekki þá leið þá að hafa hækkunina lægri og láta hana gilda á þegar tekin lán.
    Þá lá fyrir álit lögfræðings Húsnæðisstofnunar um að þetta væri heimilt. Þar kemur fram: ,,Húsnæðismálastjórn er heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að hækka vexti svo og dráttarvexti af lánum.`` Og síðar kemur fram: ,,Í 4. gr. segir enn fremur að lánakjör, þ.e. vextir, þóknun og verðtrygging, séu breytileg og er lánveitanda heimilt að breyta þeim án samþykkis lántaka, enda verði slík breyting kynnt opinberlega áður en hún tekur gildi.`` --- Þá er hann að ræða um lán sem voru tekin á tímabilinu 1980--1984.
    Átti hv. þm. Stefán Valgeirsson, sem nú gagnrýnir þessa ákvörðun, ekki aðild að ríkisstjórn þá og gat haft áhrif á þessa ákvörðun? ( SV: Ég var á móti því þá.) Mér sýnist því að framkvæmdin sé raunverulega með alveg sama hætti og var 1984 og þar var reyndar gengið ögn lengra. Þar kemur t.d. fram að 12. júlí 1984 tekur ríkisstjórnin þessa ákvörðun að hækka vexti um 1,25%, úr 2,25 í 3,5%, og skyldi sú ákvörðun vera framkvæmd á lánin frá 1. júlí. Það þýðir að þeir, sem höfðu fengið sín lán útgefin þá með vaxtaákvæði inni í sínum samningi um 2,25%, bjuggu við það 12 dögum seinna að ríkisstjórnin hafði hækkað vextina um 1,25% á þeirra láni einnig. Þessi ákvörðun var tekin, að hækka vextina á þegar tekin lán 12 daga aftur í tímann.
    Það sem ég hef hér kynnt liggur fyrir skjalfest í bréfi sem ég er hér með í höndunum frá Húsnæðisstofnun. Þar segir:
    ,,Framkvæmd vaxtahækkunarinnar 1984 var með sama hætti og nú, þ.e. öll lán sem voru greidd úr veðdeild Landsbanka Íslands frá og með 1. júlí 1984 bera 3,5% vexti og 1% vexti.`` ( FrS: Það er framkvæmdin.) Þetta er framkvæmdin. Og af því að hv. þm. Friðrik Sophusson dró upp dæmi af sjómannskonunni sem kom degi of seint og þarf því að bera 1% hærri vexti, þá var framkvæmdin 1984 með nákvæmlega sama hætti. Allir þeir, sem höfðu lagt inn sín gögn fyrir 12. júlí og jafnvel fyrir 1. júlí, þó að þau biðu bara eftir afgreiðslu hjá veðdeildinni, þurftu að bera þessa vaxtahækkun. Þar var engum hlíft við því. Þetta var ákvörðun sem var tekin og frá þeim degi báru allar greiðslur, sem komu út eftir þennan dag, þessa vexti.
    Og hér segir: ,,Í skuldabréfum sem gerð voru frá 1. júlí 1984 til 12. júlí 1984 voru lægri vextir skráðir. Hins vegar þegar kom að fyrsta gjalddaga var reiknað með þeim vöxtum sem tóku gildi hinn 1. júlí 1984.`` Og hér er sagt orðrétt: ,,Framkvæmdin þá var því með nákvæmlega sama hætti og nú er.`` Ég vil því segja það, virðulegi forseti, að mér þykir þeir þingmenn, sem koma hér nú og gagnrýna þessa framkvæmd, nota sterk orð. Hv. þm. Friðrik Sophusson sagðist sjaldan hafa vitað um svívirðilegri athöfn en þessa. Hv. þm. Stefán Valgeirsson talaði um forkastanlega ákvörðun. Þetta er nákvæmlega sama ákvörðun og var tekin 1984 þegar Framsfl. og Sjálfstfl. höfðu þessi mál í

sínum höndum. Og þá var framkvæmdin í höndum hv. þm., þáv. félmrh., Alexanders Stefánssonar. Hann notaði ekki tækifærið þá að hafa lægri vextina og láta þá ná yfir öll þegar tekin lán.
    Virðulegi forseti. Ég get farið að stytta mál mitt. En ég vil endurtaka það að ákvörðun um vaxtahækkun lá fyrir þegar í vor. Það mátti því öllum vera ljóst að vaxtahækkun yrði þegar húsbréfakerfið tæki gildi og ég hef lýst því hér að fyrir þessari framkvæmd eins og að henni var staðið eru fordæmi frá 1984.
    Ég vil líka bæta því við í lokin, virðulegi forseti, þar sem verið er að tala um að þessi ákvörðun íþyngi --- ja, sumir tala um láglaunahópana og fólk með miðlungstekjur. Svo er ekki. Það er einmitt vaxtabótakerfið sem á að taka upp nú um áramótin sem er jöfnunaraðgerð, sem skilar því sem við höfum svigrúm til að veita til niðurgreiðslu betur til láglaunafólksins og fólks með miðlungstekjur. Þeir sem vilja viðhalda óbreyttum vöxtum í núverandi kerfi, 3,5% vöxtum, fyrir hverju eru þeir að tala? Þeir eru að tala fyrir því að viðhalda vöxtum, niðurgreiddum vöxtum, einnig til hátekjuhópanna, fólks sem fer í biðraðirnar bara til að sækja sér niðurgreidd lán.
    Ég fæ ekki annað séð en þeir sem tala fyrir niðurgreiddum vöxtum séu einmitt að tala fyrir hátekjufólkið. Og meðan við greiðum niður vextina svo mikið fyrir hátekjufólkið, hvernig tökum við peninga fyrir því? Við þurfum þá að hækka skatta. Eru menn tilbúnir að standa að því? ( ÞP: Hverjir eru hátekjumenn?) Það liggur fyrir, hv. þm., að fólk með 150--170 þús. kr. brúttóheimilistekjur fær þessa vaxtahækkun, þessa 1% vaxtahækkun bætta gegnum vaxtabótakerfið.
    Ég get einmitt tekið dæmi af því hvernig þetta vaxtabótakerfi kemur út t.d. gagnvart fólki með lágar tekjur og hvernig það kemur út gagnvart fólki með háar tekjur. Við skulum taka dæmi af fjölskyldu sem á ekki neitt, hvorki neina eign eða neitt framlag sem hún getur sjálf lagt fram. Hún kaupir sér 6 millj. kr. eign, fær 4 millj. kr. að láni í húsbréfakerfi. Hún er með 1500 þús. í heimilistekjur. Hún er með vaxtagjöld vegna þessa upp á 260 þús. Útborgaðir vextir hjá þessari fjölskyldu eru 170 þús. kr. Þessi fjölskylda greiðir því sjálf 90 þús. kr. Raunvextir hjá þessari fjölskyldu eru 2,8% og hún fær vaxtabætur greiddar nánast allan lánstímann, í 25 ár. Staðreyndin er einmitt sú að fólk með lágar og miðlungstekjur greiðir raunverulega ekki með upptöku vaxtabótakerfisins nema 2--3% raunvexti. Og þá getum við tekið samanburð einnig af fjölskyldu með 4 millj. í árstekjur sem kaupir sér 11 millj. kr. eign og fær 8 millj. lánaðar í gegnum húsbréfakerfið. Vaxtagjöld þessarar fjölskyldu eru 520 þús. Hún fær greitt í vaxtabætur svipað og láglaunafjölskyldan, 173 þús. en vaxtabyrðin er 347 þús. á móti 90 þús. hjá lágtekjufjölskyldunni. Það sem er munurinn er að raunvextir þessarar hálaunafjölskyldu eru 4,4% vextir á móti því að raunvextir lágtekjufjölskyldunnar eru ekki nema 2,8%. Ég held að þetta dæmi sýni nokkuð

vel að vaxtabótakerfið er til hagsbóta fyrir láglaunafjölskyldur, fólk með miðlungstekjur og er miklu meira jöfnunarkerfi fyrir láglaunafólk heldur en það kerfi sem við nú búum við þar sem allir fá sömu niðurgreiðslu, hálaunafólk sem láglaunafólk.
    Í lokin, virðulegi forseti, af því að spurt var: Af hverju var ekki tekin ákvörðun um 0,5% vaxtahækkun á þegar tekin lán, þá alveg frá 1984, sem hefði gefið ríkissjóði sömu upphæð? þá vill svo til að þegar dæmið er skoðað lengra fram í tímann þá gefur 1% hækkun á lán sem eru tekin frá ákveðnum degi, í þessu tilfelli frá 6. des. en virkar ekki á þegar tekin lán, hún gefur meira
til lengri tíma litið. ( FrS: Þeir eiga að borga fyrir hina.) Hún gefur meira til lengri tíma litið og munar þar verulegu. Munar þar t.d. upp undir 100 millj. hvað 1% vaxtahækkun á lán frá þessum ákveðna tíma gefur ríkissjóði t.d. á árinu 1993 heldur en ef þetta hefði verið ákveðið á þegar tekin lán frá 1984 sem mér finnst margir tala fyrir við þessa umræðu.