Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 09. desember 1989


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls sérstaklega vegna þess frv. sem hér er til umræðu, en ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs var sú umræða sem hér hefur farið fram í hv. deild undir þessum dagskrárlið varðandi húsnæðismál og vaxtaákvarðanir varðandi húsnæðismálin. Ég ætla ekki að fara ítarlega út í þau efni, það er ekki ástæða til þess af minni hálfu. En vegna þess að ég tók nokkurn þátt í umræðum um þessi mál á síðasta þingi þegar til umræðu var frv. um húsbréfakerfi og um vaxtaákvarðanir, þá sé ég ástæðu til að nefna nokkur atriði.
    Sú vaxtaákvörðun sem nú hefur verið ákveðin á húsnæðisstjórnarlánum er auðvitað tilfinnanleg, felur í sér mjög verulega hækkun á vöxtum þeirra sem taka lán í almenna húsnæðislánakerfinu. Sú hækkun nemur ekki minna en þriðjungi miðað við það að vextirnir hefðu haldist óbreyttir. Og það þarf auðvitað ekki neina spekinga til þess að sjá það að hér er um verulegar upphæðir að ræða fyrir þá aðila sem þurfa að greiða þessa hærri vexti.
    Það ber hins vegar að minna á það jafnhliða að það er vegna þess hvernig staðið var að ákvörðunum hér á síðasta þingi um þessi mál að ekki hefur farið verr heldur en þetta í sambandi við vaxtaákvarðanir á húsnæðislánum.
    Ég stóð hér í þessum ræðustól oftar en einu sinni varðandi umræður um þessi efni og átti hlut að því að það var neglt niður í áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. að vextir af húsnæðislánum vegna þeirra breytinga sem til umræðu voru færu aldrei yfir 4,5% hið hæsta. En það er ekki rétt að mínu mati sem haldið var fram hér af hæstv. félmrh. að slík ákvörðun, um að nýta þessa heimild, hafi verið tekin þá. Hún var ekki tekin á þeim tíma heldur var verið að taka hana nú alveg nýverið. Svigrúmið sem ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra höfðu varðandi þetta mál var að hámarki 4,5% en ekki að minnsta kosti 4,5% eins og hæstv. ráðherra orðaði það hér í ræðu sinni áðan, enda hefur ríkisstjórnin virt þetta hámark við ákvörðun sína og ekki gengið gegn þingviljanum, enda hefði það þótt tíðindum sæta. Það er hins vegar rétt að nefna það að af hálfu hæstv. ráðherra og af hálfu Alþfl. var hugmyndin að standa að þessu máli með allt öðrum hætti. Ef hæstv. félmrh. hefði komið vilja sínum fram hér gagnvart þinginu sl. vor hefðu menn ekki staðið frammi fyrir þriðjungs hækkun á húsnæðisstjórnarlánum heldur einhverjum öðrum og hærri tölum því að það var hugmyndin að ekkert þak yrði á þessari vaxtaákvörðun og engin binding að öðru leyti en því að vextirnir yrðu ekki hærri en sem svaraði að vaxtamunur gagnvart raunvöxtum væri 0,5--1%.
    Hvað ætli raunvextir séu um þessar mundir, almennt? Ég hef það ekki nákvæmlega fyrir mér hér, en ég efast um að þeir séu fjarri því að liggja á bilinu 6,5--7% eða þar um bil. Og þá sjá menn það hver niðurstaðan kynni að hafa orðið ef hæstv. félmrh.

hefði getað knúið fram þá stefnu sína sem hann boðaði hér og reyndi að fá samþykkta sl. vor í sambandi við svigrúm til vaxtaákvarðana í húsnæðismálum.
    Ég tel að þessi ákvörðun sem nú liggur fyrir sé óskynsamleg miðað við allar aðstæður og alveg sérstaklega miðað við það að ekki er búið að ganga frá því verðbótakerfi sem við á að taka og hæstv. ráðherra gerði hér að umtalsefni hvernig það verður útfært í einstökum atriðum. Og það sem ég hlýt að gagnrýna í þessu efni er að það er ekki samfella í ákvörðunum. Það er ekki stillt saman um þessar ákvarðanir sem réttmætt væri þannig að ljóst sé hvað er verið að gera á hverjum tíma. Verðbótakerfið sem á að taka gildi um áramót en vaxtaákvarðanir þegar teknar. Milliþinganefnd sem átti að fara ofan í þessi
efni hefur ekki skilað af sér til þingsins. Þetta eru ekki vinnubrögð við hæfi í svo stórum málaflokki sem varðar jafnmarga miklu eins og húsnæðismálin. Á þetta er skylt að benda.
    Ég hlýt líka að nefna hér við þessa umræðu það samkomulag sem Kvennalistinn stóð að við ríkisstjórnina varðandi húsbréfakerfið sl. vor. Þær hjálpuðu hæstv. félmrh. til að fá það kerfi lögfest hér í þinginu og raunar tryggðu framgang þess eins og ljóslega kom fram á þeim tíma. Það er viðurkennt hér af talsmanni Kvennalistans að í dag vildu þær gjarnan reyta hár sitt ef það mætti verða til þess að tryggja það að við þetta samkomulag væri staðið en viðurkennt að það yrði kannski til heldur lítils. Þess vegna sitja þær ósköp prúðar hér í þingsölum. Mér finnst það ósköp dapurlegt Kvennalistans vegna, vegna þess að eflaust var þetta samkomulag gert í góðri trú, að þær standa nú frammi fyrir þessari niðurstöðu, og það er virðingarvert að þær viðurkenna það að sú hefur reyndin á orðið. En þær voru varaðar við í umræðum hér í þinginu að það samkomulag sem þær stóðu að á þessum tíma tryggði ekki framkvæmd þeirra mála sem þær voru að reyna að fá fram í sambandi við félagslegar íbúðabyggingar og fleira. Þær gengu ekki frá þessu samkomulagi þannig að þær gætu haft það í hendi að eftir gengi. Ég kalla það hraustlega að verið hjá hv. 12. þm. Reykv. að standa hér fyrir máli sem varðar þetta samkomulag á þessum tíma vegna þess að það var alveg ljóst að hv. þm. hafði ekki mikinn hug á því eða var ekki mjög bjartsýnn í þessum efnum að því er húsbréfakerfið varðaði þegar það mál var hér til umræðu upphaflega í þinginu, líklega í marsmánuði.
    Auðvitað gat ekkert tryggt framgang þessara mála varðandi félagslegar íbúðabyggingar og magnaukningu í þeim efnum nema aukin framlög til þeirra mála af ríkisins hálfu, en það var ekki það sem Kvennalistinn samdi um. Og nú er það í mikilli óvissu hvað verður um framgang þess máls út af fyrir sig og sjálfsagt seint úr því skorið hvað verður rakið til þess samkomulags sem þarna var gert á sínum tíma sem gerði félmrh. kleift að ná fram og lögfesta frv. um húsbréf, breytingu á húsnæðisstjórnarlánunum þar að lútandi sl. vor. Það sem snýr að Kvennalistanum

skiptir þó ekki mestu máli í þessum efnum þó að hann beri ábyrgð á lagasetningunni, fyllstu ábyrgð á þeirri lagasetningu, heldur hitt að það tókst að fá hér niðurneglda ákvörðun meiri hl. fjh.- og viðskn. í nál. um það að svigrúm til vaxtahækkana væri takmarkað, þar væri sett á þak, en í því þaki fólst engin ákvörðun um það að vextir skyldu hækka á tilsettum tíma, einhverjum ákveðnum tíma eins og hæstv. félmrh. var að láta liggja að hér. Það er sjálfstæð ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur nú tekið.