Námslán og námsstyrkir
Mánudaginn 11. desember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Það frv. sem hér er um að ræða fjallar um breyting á lögum frá 1982 um námslán og námsstyrki og lýtur að breytingum á 4. gr. laganna. Breytingin eins og hún hefur verið samþykkt samhljóða í hv. Nd. er á þessa leið:
    ,,Stjórnin [Lánasjóðs ísl. námsmanna] skal skipuð til tveggja ára í senn. Skipunartími fulltrúa menntmrh. og fjmrh. skal þó takmarkaður við embættistíma þeirra ráðherra sem skipuðu þá eða tilnefndu sitji þeir skemur.``
    Þetta orðalag og þetta fyrirkomulag sem hér er gerð tillaga um er nákvæmlega eftir tillögu núverandi stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég vænti þess því að um málið geti náðst full samstaða hér í hv. deild eins og í hv. Nd. og legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.