Erfðafjárskattur
Mánudaginn 11. desember 1989


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um erfðafjárskatt, nr. 83/1984. Til þess að hægt sé að ganga með formlegum hætti frá samningi milli Norðurlandaþjóðanna og komast hjá tvísköttun arfs þarf að gera þá breytingu á lögum um erfðafjárskatt sem hér er lögð til, en fulltrúar Norðurlandaþjóðanna hafa nýlega undirritað samning til að komast hjá tvísköttun arfs og gjafafjár.
    Í núgildandi lögum um erfðafjárskatt er ekki sérstök lagaheimild fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda slíka samninga svo sem er í gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Í frv. er lagt til að ríkisstjórnin fái almenna heimild til að gera slíka samninga við önnur ríki.
    Framkvæmdin nú á þessu ákvæði er þannig að ef eigandi fasteignar á Íslandi er búsettur erlendis og búskipti verða þar á ríkissjóður ekki tilkall til erfðafjárskatts af eigninni. Breytingin sem nú er gerð felst í því að skattlagningarrétturinn verður hjá því ríki þar sem fasteignin er staðsett, óháð því hvar búskipti fara fram. Stefnt er að því að aðildarríki Norðurlandasamningsins fullgildi tvísköttunarsamninginn um erfðafjárskatt þannig að honum verði beitt um dánarbú þeirra sem falla frá 1. jan. 1990 og síðar.
    Hv. Nd. hefur lagt til að til viðbótar þeim ákvæðum sem frv. gerir ráð fyrir bætist við nýtt ákvæði til að komast hjá tvísköttun í ríkjum þar sem gagnkvæmur samningur er ekki fyrir hendi, þ.e. annarra ríkja en Norðurlandanna.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.