Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 11. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Enn á ný er flutt hér frv. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þessi skattur hefur verið við lýði nú í um það bil áratug, en honum hefur verið valið það form að á hverju ári er flutt að nýju frv. til staðfestingar álagningu hans á næsta ári.
    Þær tölur sem lagðar eru til í þessu frv. eru óbreytt hlutfall frá því sem lagt var á á árinu í ár og þess vegna felur frv. í sér þá fyrirætlan að skatturinn haldi óbreyttu gildi sínu á næsta ári.
    Í sjálfu sér er ekki mikið um þennan skatt að segja. Þetta er gamall kunningi hv. alþm. Það munu allir flokkar sem nú eiga sæti á Alþingi hafa greitt skattinum atkvæði utan hinn nýi flokkur frjálslyndra hægrimanna þannig að það eru kannski fáir skattar sem jafnbreið samstaða hefur skapast um hér á þessum áratug eins og sá sem ég mæli hér fyrir nú þó hann hafi nú í upphafi verið ætlaður til skemmri tíma þegar við hv. forseti deildarinnar sátum í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar veturinn 1978--79 og fjölluðum um fyrstu útgáfuna af þessum skatti.
    Það hefur nokkuð verið vikið að því í umræðum í Nd. að verslun í dreifbýli ætti í sérstökum erfiðleikum og ríkisstjórnin hefur fengið skýrslu um þann vanda. Þær tillögur eru til meðferðar hjá ríkisstjórninni eins og kynnt var í hv. Nd. þegar um þetta mál var fjallað þar og formaður fjh.- og viðskn. þeirrar deildar kynnti þær tillögur sem nefndin hafði lagt til og kæmi einnig til greina að þær yrðu einnig kynntar hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar.
    Að svo mæltu, virðulegi forseti, legg ég til að þessu frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.