Almannatryggingar
Mánudaginn 11. desember 1989


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Í fjarveru heilbr.- og trmrh. mæli ég hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Í tengslum við sparnað í ríkiskerfinu hefur verið ákveðið af hálfu ríkisstjórnarinnar að draga úr kostnaði við sjúkratryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar varðandi kostnað við sérfræðihjálp, lyfjakaup og tannlæknakostnað. Hefur verið rætt um að ná fram sparnaði sem nemur 10% af þessum útgjöldum á yfirstandandi ári eða sem samsvarar 500 millj. kr.
    Áætlað er að ná fram sparnaði í lyfjakostnaði sem nemur 300 millj. kr. og er unnið að tillögum þar að lútandi á vegum nefndar sem fengið hefur það hlutverk að vinna úr skýrslu um sparnaðarleiðir sem skilað var til heilbr.- og trmrh. fyrir skömmu. Ekki er reiknað með að gera þurfi lagabreytingar til þess að ná fram sparnaði í lyfjakostnaði.
    Enn fremur hefur verið reiknað með 100 millj. kr. sparnaði vegna sérfræðihjálpar lækna og er á vegum Tryggingastofnunar ríkisins unnið að samningum við lækna um þann þátt þannig að lagabreytingar eru ekki nauðsynlegar til þess að ná fram þeim sparnaði að mati ráðuneytisins.
    Auk þess þarf að ná fram 100 millj. kr. sparnaði vegna tannlæknakostnaðar ríkisins á næsta ári og er frv. það sem hér er mælt fyrir fram komið í tengslum við þær sparnaðarhugmyndir.
    Í ágúst sl. skipaði heilbr.- og trmrh. Guðmundur Bjarnason nefnd sem falið var að semja frv. til laga um skipulag tannlæknaþjónustu. Í þessari nefnd eiga sæti Ingimar Sigurðsson lögfræðingur, skrifstofustjóri heilbr.- og trmrn., sem jafnframt er formaður, dr. med. Guðjón Magnússon aðstoðarlandlæknir og Magnús R. Gíslason, yfirtannlæknir í heilbr.- og trmrn.
    Nefndinni er ætlað að gera tillögur um frv. til laga um skipulagða tannlæknaþjónustu með það fyrir augum að litið verði á tannheilbrigðisþjónustu eins og hverja aðra heilbrigðisþjónustu og að framkvæmdin verði með svipuðum hætti. Hér er um að ræða verkefni sem viðbúið er að geti tekið nokkurn tíma að vinna og telur nefndin ekki raunhæft að reikna með tillögum fyrr en á næsta þingi.
    Fljótlega eftir að nefndin tók til starfa fól heilbr.- og trmrh. nefndinni að gera tillögur um það með hvaða hætti mætti ná fram áðurnefndum sparnaði í útgjöldum ríkisins vegna tannlæknakostnaðar á næsta ári. Það hefur fyrst og fremst verið starf nefndarinnar undanfarnar vikur að gera tillögur um lausn þessa verkefnis og hefur nefndin haft að leiðarljósi að ekki verði minnkuð sú þjónusta sem þegar er fyrir hendi í tengslum við tannlæknaþjónustu við börn og unglinga. Samkvæmt nýjustu upplýsingum er reiknað með að kostnaður hins opinbera við tannlækningar samkvæmt lögum um almannatryggingar nemi um 1 milljarði kr. á yfirstandandi ári. Hefur þessi kostnaður farið ört vaxandi á síðustu þremur árum og má rekja aukninguna fyrst og fremst til tannréttinga. Þessi

kostnaður skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga í dag, þannig að ríkið greiðir sem næst 70% og sveitarfélögin 30%.
    Frá og með nk. áramótum leggst þessi kostnaður allur á ríkið, þ.e. á sjúkratryggingar, í samræmi við breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það er skoðun nefndarinnar að hægt sé að ná fram verulegum sparnaði með því að breyta 44. gr. almannatryggingalaga þegar í hlut eiga greiðslur vegna kostnaðar við gullfyllingar, krónu- og brúargerð, tannréttingar barna og unglinga, 6--18 ára, en frá og með nk. áramótum greiða sjúkratryggingar 50% af þessum aðgerðum verði lögin óbreytt. Og það sem meira er, þá virka þessi ákvæði laganna nánast sjálfvirkt þannig að það er ákvörðun hlutaðeigandi og tannlæknis hvort til þátttöku sjúkratrygginga kemur. Þannig þarf hvorki að liggja fyrir í þessu tilviki umsókn né samþykki greiðsluaðila.
    Það er skoðun nefndarinnar að lagaákvæði eins og það sem stendur í dag sé beinlínis hvetjandi til tannréttinga, án þess að læknisfræðileg nauðsyn liggi ætíð að baki. Fyrir því er lagt til að sé um að ræða krónu- og brúargerð, gullfyllingar og tannréttingar verði ekki um skylduafgreiðslu eða sjálfvirkar greiðslur að ræða, heldur heimildargreiðslur þannig að heimilt sé að greiða allt að 50% kostnaðar skv. 44. gr. þegar í hlut eiga gullfyllingar, krónu- og brúargerð og tannréttingar barna og unglinga á aldrinum 6--18 ára.
    Þykir eðlilegt að þátttaka hins opinbera sé mest í þeim tilvikum þar sem um er að ræða aðgerðir í lækningarskyni og allt niður í enga sé um að ræða tannréttingar sem ekki eru gerðar í læknisfræðilegu skyni. Í þessu tilviki er rétt að benda á að í dag er talið að tæpur helmingur barna og unglinga njóti tannréttingarþjónustu hér á landi og má reikna með að kostnaður hins opinbera vegna þessarar þjónustu nemi ekki undir 125 millj. kr. á yfirstandandi ári. Sé hins vegar miðað við framkvæmd tannréttinga í Noregi, þar sem heilbrigðisástand er hvað líkast því sem hér gerist, er talið að þriðjungur barna og unglinga þarfnist slíkrar þjónustu. Verði sama framkvæmd hér á landi og í Noregi, miðað við þær reglur sem hér fylgja með um tannréttingar, flokkun þeirra og greiðsluþátttöku hins opinbera, má reikna með um 60 millj. kr.
sparnaði vegna tannréttinganna einna, nái lögin fram að ganga, þ.e. þegar þau eru að fullu komin til framkvæmda.
    Eins og áður segir fylgja með frv. tillögur að reglum um flokkun tannréttinga með hliðsjón af nauðsyn og þátttöku hins opinbera, bæði skv. c-lið 39. gr., en þar er um að ræða fulla greiðslu og skv. 44. gr. en þar er um að ræða 50% greiðslu og 30% greiðslu samkvæmt drögum.
    Í frv. er enn fremur lagt til að því aðeins komi til greiðslna samkvæmt þessum ákvæðum, þ.e. skv. c-lið 39. gr. og 44. gr. varðandi gullfyllingar, krónu- og brúargerð og tannréttingar, að fyrir liggi sérstök umsókn hlutaðeigandi, þar sem tannlæknir flokkar

aðgerðina í samræmi við áðurnefnda flokkun, og jafnframt samþykki sjúkratrygginga. Á því að fara fram mat á nauðsyn aðgerðar áður en til greiðslu kemur.
    Með þessu er ekki verið að leggja til að annarri sérfræðiþjónustu fyrir aldurshópinn 6--18 ára, svo sem vegna skurðaðgerða o.s.frv., verði breytt. Hún verður með óbreyttum hætti eins og almenn tannlæknaþjónusta fyrir þennan aldurshóp. Því er með frv. þessu þegar í hlut á 44. gr. eingöngu tekið á gullfyllingum, krónu- og brúargerð og tannréttingum og í reynd fyrst og fremst á tannréttingum þar sem með fylgja ákveðnar reglur sem talið er rétt að settar verði, m.a. til að henda reiður á þessu máli. Reglur um flokkun og þátttöku sjúkratrygginga í gullfyllingum og krónu- og brúargerð yrðu settar síðar að fengnum tillögum tryggingaráðs.
    Það er skoðun nefndarinnar sem áður hefur verið vitnað til að verði framkvæmd tannréttinga með svipuðu sniði og gerist í Noregi muni tannréttingum fækka, m.a. vegna þess að ekki sé talin ástæða til að greiða fyrir tannréttingar nema þær séu framkvæmdar í læknisfræðilegu skyni.
    Flestir ættu að geta tekið undir þessi sjónarmið því víða má leggja til fé ef fallist verður á að heilbrigðiskerfið eigi að standa undir kostnaði við ýmiss konar aðgerðir sem sannanlega eru ekki framkvæmdar í læknisfræðilegum tilgangi, jafnvel þótt læknar og tannlæknar framkvæmi aðgerðirnar. Mætti hér benda á mörg atriði, jafnvel atriði sem nær væri að greitt væri fyrir eins og í sambandi við ýmiss konar tannholdsaðgerðir þeirra sem ekki njóta endurgreiðslna samkvæmt almannatryggingalögum og viðkomandi aðilar verða að bera að fullu.
    Það er mat ráðuneytisins að til þess að ofangreindar breytingar nái tilætluðum árangri sé nauðsynlegt að efla eftirlit með framkvæmd þeirra þátta almannatrygginga sem snerta tannlækningar og er því lagt til að tryggingaráð ráði sérstakan tannlækni til þess starfa. Er reiknað með að hann beri ábyrgð gagnvart tryggingaráði en starfi ekki á vegum tryggingayfirlæknis án lagafyrirmæla eins og nú tíðkast.
    Benda má á að þegar á heildina er litið er reiknað með að um 60 millj. kr. sparnaði verði náð með ofangreindum breytingum þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda. Enn fremur hljóta að sparast verulegar fjárhæðir vegna ferðakostnaðar, en hann er áætlaður á yfirstandandi ári vegna tannréttinga einna um 40 millj. kr. Má því reikna með að heildarsparnaður þar geti numið 20 millj. kr. þegar til framkvæmda kemur. Enn vantar um 20 millj. kr. svo náð verði þeim 100 millj. kr. sem um er rætt og í því tilviki skal bent á að sem stendur er unnið að gerð samninga við tannlækna um þessa þjónustu og er fyllsta ástæða til þess að sérfræðingar innan tannlæknisfræðinnar fallist á að lækka sérfræðiálag en það er í dag 32% og ættu því að vera möguleikar á að ná þessum 20 millj. sem á vantar með samningum. Aðrar leiðir koma enn fremur til greina eins og fram

kemur í athugasemdum við frv.
    Varðandi gildistöku laganna vísa ég til ákvæðis til bráðabirgða þar sem fjallað er um rétt þeirra sem þegar eru í meðferð vegna tannréttinga.
    Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. þetta og vísa til ítarlegra athugasemda en vil leggja til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til heilbr.- og trn. með þeirri beiðni að nefndin hraði störfum því mikilvægt er að frv. þetta nái fram að ganga fyrir 1. jan. nk. þar sem hér er um mikilvægan sparnað að ræða sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.
    Herra forseti. Ég vil endurtaka þá tillögu mína að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.