Almannatryggingar
Mánudaginn 11. desember 1989


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Frv. þessu er ætlað að ná fram sparnaði á ákveðnum liðum sjúkratrygginga, þ.e. þeim er snerta útgjöld vegna tannréttinga og annars mjög sérhæfðs tannlækningakostnaðar. Þetta mun liður í víðtækari sparnaði innan almannatryggingakerfisins, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, m.a. er gert ráð fyrir að spara hundruð milljóna í lyfjakostnaði og um hundrað milljónir á sérfræðikostnaði almennra lækna.
    Það er athyglisvert að núv. ríkisstjórn skuli leggja til sparnað á þessu sviði --- og áður en hæstv. menntmrh. gengur úr salnum vildi ég gjarnan mega rifja upp að vorið 1983 breytti hann reglugerðum sem heilbr.- og trmrh. í þá átt að stórauka útgjöld ríkisins vegna tannlækningakostnaðar. Nú er hann sem sé aðili sem ráðherra í hæstv. ríkisstjórn að tillögum um að draga hér verulega úr og ná sparnaði upp á 100 millj. kr. að því er sagt er og ber þá nýrra við að Alþb. er farið að gera tillögur um skerðingar á framlögum til almannatrygginga.
    Auðvitað var ákvörðun hæstv. ráðherra 1983 ekkert annað en lýðskrumið eitt, enda neyddist viðtakandi heilbrrh. vorið 1983, Matthías Bjarnason, til að láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum að afnema þá reglugerð. Og kom á daginn að fyrir stórauknum framlögum á þessu sviði var ekki fjárhagslegur grundvöllur.
    Eins og nú háttar til um afkomu ríkissjóðs er auðvitað skylt að skoða alla liði þegar horft er til sparnaðar og minnkunar útgjalda og auðvitað hljóta allir ábyrgir aðilar og allir sem vilja láta taka sig alvarlega í umfjöllun um þau mál að viðurkenna nauðsyn þess og jafnframt að fallast á að það séu engir liðir sérstaklega undanþegnir í því. Ég hef ekki staðið hér upp til þess að halda því fram að þessir sérstöku liðir sem ráðherra gerði að umtalsefni séu einhverjar heilagar kýr sem ekki megi skerða. Það er fjarri því. Ég tel þvert á móti að eins og nú háttar til í ríkisbúskapnum sé skylt að leita allra hugsanlegra leiða til þess að ná sparnaði og lækkun útgjalda.
    Spurningin í máli sem þessu er hins vegar sú hvort hér er um að ræða raunhæfar tillögur, hvort hér er um að ræða framkvæmd sem gæti staðist og hvort hinn reikningslegi grundvöllur undir þessum tillögum sé þannig úr garði gerður að hann standist. Ég leyfi mér að hafa ákveðnar efasemdir um að svo sé varðandi þetta frv., herra forseti.
    Í grg. með frv. er fullyrt að tæplega helmingur barna og unglinga hér á landi njóti tannréttingarþjónustu. Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að þessi tala sé hrein ágiskun. Það sé hrein ágiskun hvað þarna er um að ræða mikinn fjölda. En á þessari tölu byggist síðan útreikningurinn á þeim sparnaði sem hér er um að ræða. Það er sagt að þessi kostnaður sé 125 millj. kr. á þessu ári og að það megi sem sé helminga hann og spara hugsanlega um 60 millj. og að auki 20 millj. vegna minni ferðarkostnaðar. Og afganginn, 20 millj., með samningum um minnkaðar álagsgreiðslur til læknanna.

Það er hins vegar mjög gagnrýnivert að mínum dómi að ekki skuli liggja fyrir alveg nákvæmar upplýsingar og nákvæmar tölur um þetta efni í þessari grg. vegna þess að reikningar læknanna sem hér um ræðir eru skýrir og ótvíræðir og það á að vera hægt að afla þessara gagna þannig að ótvírætt sé hvað hér er um að ræða mikinn fjölda barna og unglinga sem hagnýta sér þessa þjónustu.
    Mér er tjáð að þarna skakki verulegu og sömuleiðis er rétt að benda á að í grg. frv., sem ráðherra reyndar sagði að væri ítarleg og vel unnin, gætir ósamræmis í meðferð talna um þetta efni því í lok athugasemdar við 3. gr. frv. segir að í ár megi vænta þess að kostnaður ríkisins verði 700 milljónir, sem sé mikil hækkun frá árunum 1983--1986 og síðan segir: ,,Þessar hækkanir virðast fyrst og fremst til komnar vegna aukinna tannréttinga.`` En tannréttingar eru hins vegar sagðar vera 125 millj. kr., þannig að mismunurinn ætti að vera 575. Einhverjar hafa nú tannréttingarnar verið fyrir þessar breytingar sem hér er vikið að áður en samningur við lækna var gerður árið 1987, sem tók gildi í janúar 1988. Þessar tölur standast því ekki gagnrýna athugun að mínum dómi. Ég hygg að þarna sé einhver ónákvæmni á ferð sem ég skal þó ekki gera meira mál úr á þessu stigi málsins. Ég hygg að nefndin sem um þetta fjallar þurfi að fara vel í saumana á þessum atriðum, til að sjá hvort þarna er ónákvæmni eða villur á ferð. Því hafi kostnaðurinn aukist úr 400 millj. kr. í 700 millj. kr. og tannréttingarkostnaðurinn verið 125 millj. kr. þá er ljóst að það er eitthvað meira þarna með sem ekki kemur þó fram hvað er.
    Ég vil hins vegar, herra forseti, vekja athygli á því að í fskj. 2 með frv. er bréf frá stjórn Tannlæknafélags Íslands þar sem bent er á ýmsar leiðir til hagræðingar á þessu sviði og sparnaðar. M.a. segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Rétt er að höfuðreglan sé sú að sjúklingar beri jafnan sjálfir eitthvert hlutfall kostnaðar tannlæknisþjónustu sinnar. Hluti barna og unglinga, 6--15 ára, af almennum tannlækningum gæti verið 10%. Við það mundi kostnaður ríkisins lækka um 50 millj. kr.``
    Og mér er spurn þegar þeir menn sem hér eiga e.t.v. stærstan hlut að máli, tannlæknarnir sjálfir, leggja til með þessari hugmynd sparnað sem gæti numið
50 millj. kr. með því einu að hlutur sjúklinga þarna yrði 10%, hvers vegna ríkisstjórnin tekur ekki slíkri hugmynd fegins hendi. Eða jafnvel bara 5% og næði þar 25 millj. kr. sparnaði. Ég hygg að það sé nefnilega rétt sjónarmið sem þarna kemur fram að það er skynsamlegt að í verkefnum sem þessum, þó að það sé auðvitað eðlilegt að ríkisvaldið standi undir langstærstum hluta kostnaðar fái sjúklingurinn nasasjón af því hvað verið er að borga og hvað hlutirnir kosta, hvað sú þjónusta kostar sem verið er að veita honum. Þetta hefur hins vegar ekki verið gert, en á hinn bóginn er farið hér út í tiltölulega sérhæfðar ráðstafanir sem margt bendir til að muni ekki skila

þeim peningum sem hér er um talað, þ.e. þessum 60--100 millj. eftir því hvernig á það er litið.
    Auðvitað er það alltaf þannig, og ég tek undir það með hæstv. ráðherra, að það er hætta á því að aðilar misnoti heimildir þegar um það er að ræða að þriðji aðilinn greiðir allan kostnað, þegar sjúklingur og læknir, í þessu tilfelli tannlæknir, geta tekið ákvörðun um útgjöld sem ríkið á síðan að borga og aðrir koma ekki að. Þá er auðvitað hætta á því sem kalla mætti ,,ofmeðferð``, hætta á því að menn gangi eða seilist fulllangt í þann vasa sem greiðir kostnaðinn. Ég tel því að allar tillögur sem geta spornað við slíkri misnotkun séu jákvæðar og að því marki sem þær koma fram í þessu frv. þá leyfi ég mér að taka undir þær.
    Hins vegar var eitt atriði sem fram kom í ræðu ráðherra sem ég vil sérstaklega spyrja um og það eru þessar aðgerðir sem ekki eru gerðar í læknisfræðilegu skyni eins og það er kallað, aðgerðir sem ekki er brýn læknisfræðileg ástæða til þess að framkvæma, heldur er samkomulag á milli sjúklings og tannlæknis um að gera, hugsanlega í útlitsbætandi tilgangi, í fegrunartilgangi eða af öðrum ástæðum. Ef það er stefna ríkisstjórnarinnar að láta menn nú í auknum mæli greiða fyrir slíkar aðgerðir úr eigin vasa gildir það þá líka, er það þá stefna stjórnarinnar líka, að yfirfæra þessa hugsun yfir á aðgerðir á öðrum sviðum læknisfræðinnar? Því nú er vitað að slíkar aðgerðir fara fram á sviði lýtalækninga m.a. og á öðrum sviðum læknisfræðinnar, þar sem eingöngu er um það að ræða að fegra útlit viðkomandi, en ekki það sem kalla mætti brýnan læknisfræðilegan tilgang. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því, án þess að ég sé að gera neina tillögu um það frá minni hendi, hvort ríkisstjórnin hafi tekið upp þá stefnu að láta sjúklinga greiða kostnaðinn af slíkum aðgerðum. Hér getur verið um að ræða margháttaðar aðgerðir eins og ég veit að öllum hv. þm. er kunnugt. Ég held að það væri afar gagnlegt að fá það upplýst hvort hér hefur orðið stefnubreyting af hálfu núv. ríkisstjórnar í þessu efni.
    Að öðru leyti hyggst ég ekki fjölyrða um þetta frv., herra forseti. Ég vil að endingu aðeins ítreka það að við þær aðstæður sem nú ríkja í ríkisfjármálum verður ekkert undan því vikist að skoða alla liði með tilliti til þess hvar hægt er að bera niður til sparnaðar. Út af fyrir sig fagna ég því að til að mynda Alþb. leggur hér fram tillögur um breytta stefnu í þessum málum þvert gegn því sem heilbrrh. Alþb. aðhafðist vorið 1983.
    En að því er þetta frv. varðar þá hef ég mínar efasemdir um að þær reikningsforsendur sem þar eru til grundvallar lagðar standist. Ég tel að hv. heilbr.- og trn. þurfi að kanna það mál rækilega og eins hvort hægt er að ná fram sparnaði með öðrum og auðveldari og jafnvel réttlátari hætti heldur en hér er lagt til, til að mynda með þeirri aðferð sem lögð er til í bréfi Tannlæknafélags Íslands sem hér fylgir með sem fskj. 2.