Almannatryggingar
Mánudaginn 11. desember 1989


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Ég hef afar litlu við það að bæta sem hv. síðasti ræðumaður hefur gert hér að umræðuefni. Ég tek undir hans orð að það er nauðsynlegt að spara í heilbrigðiskerfinu sem og á öðrum sviðum og þá ekki síst í því sem þetta frv. fjallar um. En það kemur kannski illa við suma sem hafa lagt trúnað á að það eigi alltaf að auka útgjöld hins opinbera til einstaklinga, m.a. með því sem gert var í ársbyrjun 1983, m.a. sem var lofað að gera þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð, 28. sept. 1988, en þar segir í einum kaflanum um heilbrigðismálin að fyrirkomulag á tannlæknaþjónustu verið endurskoðað í því skyni að lækka tilkostnað heimila og hins opinbera án þess að dregið verði úr þjónustu. Mér sýnist nú allt fara öruvísi í þessu frv. Hér er auðvitað verið að draga verulega úr þjónustu og koma meiru yfir á heimilin, þvert ofan í það sem var yfirlýsing þeirrar ríkisstjórnar sem er nú enn við lýði þó að tveimur hafi verið bætt við.
    Þetta finnst mér vera að koma aftan að fólki. Þetta eru háar og miklar upphæðir. Með þessu frv. eru prentuð fylgiskjöl, m.a. frá stjórn Tannlæknafélags Íslands og þar er sagt að þeir fái þær upplýsingar í Tryggingastofnun ríkisins að ferðakostnaður á sl. ári hafi numið hvorki meira né minna en 48,8 millj. kr. og þar af er áætlað að 55% eða 26,8 millj. tilheyri tannréttingaferðum einum. Þetta eru ekki neinar smáupphæðir sem hér er um að ræða. En nú á að leggja þetta niður. Er þá ekki verið að draga úr þjónustu, sérstaklega landsbyggðarinnar í þessum efnum? Þá eiga landsbyggðarmenn að standa undir kostnaði því að allir verða að koma hingað suður til að fá þessa þjónustu. Hér er auðvitað fyrst og fremst verið að draga úr því sem það opinbera hefur verið að greiða til landsbyggðarinnar. Það er enn þá einu sinni verið að mismuna fólki. Ekkert af þessari þjónustu er komið úti á landi þó að talið sé líklegt að á næstunni komi þjónusta á fjórum stöðum
á landinu, þar af á einum stað í þriggja kortera keyrslu héðan frá Reykjavík. Þetta finnst mér nú vera ósamræmi miðað við stefnu ríkisstjórnarinnar.
    Hér er aðeins um eitt atriði að ræða og ég tel að það þurfi að taka á þessu, ég er alveg sammála því. En það á ekki enn að auka bilið á milli strjálbýlis og þéttbýlis eins og verið er að gera þarna. Það er alveg merkilegt hversu sumir þingmenn, sem eiga ekki til orð a.m.k. fyrir kosningar að lýsa yfir ástúð sinni á jafnrétti á milli landshluta, eru tilfinningalausir þegar slíkar breytingar eru gerðar eins og hér er lagt til. Þá er eins og það dofni alveg yfir þeim og þeir hafi ekki nokkra tilfinningu fyrir þessu, rétta upp höndina með þeirri breytingu en spyrja ekki einu sinni: Hvað kemur þá í staðinn? Hvað verður gert til þess að jafna þennan mismun? Það er kominn tími til að þessir þingmenn öðlist alveg fullkomna meðvitund og viti hvað þeir eru að gera, jafnvel í jólaösinni.
    Mig langar líka til þess að spyrja hæstv. starfandi

heilbr.- og trmrh. að því: Hvað líður heildarendurskoðun laganna um almannatryggingar og skipulag Tryggingastofnunar ríkisins? En í sömu stefnuyfirlýsingu og ég vitnaði til hér áðan segir að endurskoðun laga um almannatryggingar og skipulag Tryggingastofnunar ríkisins verði lokið um mitt ár 1989. Það er löngu liðið þetta miðja ár 1989 samkvæmt okkar dagatali því að í dag er 11. des. og ekki eftir nema 20 dagar af þessu ári. En það bólar ekkert á þessari endurskoðun. Hins vegar hafa verið uppi mikil ræðuhöld hingað og þangað á haustmánuðum um stórfelldar breytingar á heilbrigðis- og tryggingakerfinu. Jafnvel að fara 40--50 ár aftur í tímann og afnema það sem þá vannst.
    Mér finnst þetta nú ekki bera vott um það að hér sé ríkjandi félagshyggjustjórn eins og var mikið talað um og var mjög fagnað af því fólki öllu þegar þessi stjórn var mynduð í lok september 1988. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvað líður þessari endurskoðun? Hvað hefur tafist? Því hér er alveg afdráttarlaust tekið fram að þeirri endurskoðun verði lokið um mitt ár 1989. Fyrst verið var að semja um þetta við stjórnarmyndun og marka þessu svona afdráttarlausan tíma þá á auðvitað að standa við það. Og hver er þá ástæðan fyrir því að þetta er ekki búið? Var þessu ekki sinnt? Fylgdi hæstv. heilbr.- og trmrh. þessu ekki eftir? Það kemur ekkert fram um það og við þingmenn eigum rétt á því að fá að vita hver ástæðan er fyrir því að þetta liggur ekki fyrir og þetta er ekki gert.
    Annars vil ég segja það að ég vil taka á því af fullkominni alvöru að draga úr kostnaði hins opinbera. Það þarf víða að gera það og hafa betra taumhald á, en þá verða menn líka að vera sjálfum sér samkvæmir. Það á ekki að byrja á því að lofa því að það eigi ekki að draga úr neinu og síðan eftir rúmt ár að koma með aðgerðir sem eiga að draga stórkostlega úr þvert ofan í það sem þessir sömu menn segja. Síðan er beðið eftir heildarendurskoðun langt umfram þann tíma sem þessir sömu menn ákváðu að gera. Og svo aftur þetta, sem er stórt atriði og mikið, að það er alltaf verið að mismuna fólkinu sem býr í þessu landi. Og það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hvað á að leggja á herðar þeirra sem búa fjærst höfuðborginni. Þar vantar að sýna meiri sanngirni
heldur en þessi ríkisstjórn hefur gert þrátt fyrir sín loforð.