Eftirlaun til aldraðra
Mánudaginn 11. desember 1989


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Í fjarveru heilbr.- og trmrh. mæli ég hér fyrir frv. til laga um framlengingu á lögum nr. 2/1985, um eftirlaun til aldraðra. Þetta frv. er flutt í samræmi við fyrirheit ríkisstjórnarinnar þess efnis að framlengja beri lög nr. 2/1985, um eftirlaun til aldraðra, næstu tvö árin þannig að þau gildi í meginatriðum óbreytt að öðru leyti en því er snertir iðgjaldshlutfall sem lífeyrissjóðir greiða til þessa lífeyriskerfis.
    Í þessu tilviki er rétt að rifja aðeins upp gang mála á undanförnum árum. Fyrstu lög um eftirlaun til aldraðra, sem reyndar hétu lög um eftirlaun fyrir aldraða félaga í stéttarfélögum, voru sett árið 1970, sbr. lög nr. 18/1970. Var það gert í framhaldi af kjarasamningum árið 1969 og stofnun hinna svonefndu almennu lífeyrissjóða verkalýðsfélaga í ársbyrjun 1970. Tilgangurinn með þeim lögum var sá að veita eldri félögum verkalýðsfélaganna réttindi umfram það sem iðgjaldagreiðslutími gat veitt tilefni til þar sem lítið var eftir af starfsævi þeirra eða henni jafnvel lokið.
    Samkvæmt fyrirheiti ríkisstjórnarinnar við samninga 1969 skyldu útgjöld vegna þessara viðbótarréttinda næstu 15 árin borin af Atvinnuleysistryggingasjóði að 3 / 4 hlutum og ríkissjóði að 1 / 4 en síðan var ætlunin að hlutaðeigandi lífeyrissjóðir tækju við, enda yrði þá farið að draga verulega úr útgjöldum vegna þessara ráðstafana. Höfuðástæðan fyrir því að sett voru lög um þetta efni í stað bráðabirgðaákvæða í reglugerðum lífeyrissjóðanna var fjárhagsgrundvöllurinn og því var gert ráð fyrir að lögin féllu úr gildi í árslok 1984.
    Lögunum var síðan breytt með lögum nr. 97/1979, sem þá hétu lög um eftirlaun til aldraðra. Var enn gert ráð fyrir því að eftirlaunagreiðslur samkvæmt
lögunum féllu niður í árslok 1984. Þegar þar að kom þótti ekki koma til greina að eftirlaunagreiðslur þessar féllu niður án frekari ráðstafana af hálfu stjórnvalda og voru því ákvæði laganna um eftirlaunagreiðslur framlengd til 1. jan. nk.
    Nú er ljóst að þær lífeyrisgreiðslur sem hér um ræðir mega ekki falla niður frá og með 1. jan. nk. þar sem þær skipta miklu um fjárhag og afkomu þess fólks sem nýtur þeirra í dag. Það var af þessum sökum sem ríkisstjórnin gaf í tengslum við lausn kjarasamninga í lok aprílmánaðar sl. fyrirheit um að hún mundi beita sér fyrir framlengingu laganna. Heilbr.- og trmrn. fól umsjónarnefnd eftirlauna sem starfar samkvæmt lögunum að kanna málið. Í greinargerð nefndarinnar frá 9. júní sl. kemur fram að hún telur einkum þrjá kosti koma til greina um framlengingu laganna:
    Í fyrsta lagi að framlengja enn um sinn núgildandi lög í meginatriðum óbreytt að öðru leyti en snertir það iðgjaldshlutfall sem lífeyrissjóðir greiða til þessa lífeyriskerfis.
    Í öðru lagi að framlengja greiðslur með yfirtöku hins opinbera á þeim.
    Í þriðja lagi að framlengja greiðslur samkvæmt lögunum en breyta kostnaðarskiptingu milli

lífeyrissjóða annars vegar og hins opinbera hins vegar.
    Umsjónarnefndin taldi síðasta kostinn álitlegastan og lagði síðan fram formlega tillögu þar að lútandi.
    Það er hins vegar skoðun ríkisstjórnarinnar --- og er það reyndar í samræmi við fyrirheit hennar --- að framlengja beri lögin næstu tvö árin með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þeim kosti sem fyrstur er nefndur hér á undan. Á þeim tíma verði þau tekin til endurskoðunar í tengslum við heildarendurskoðun málefna lífeyrissjóðanna með hliðsjón af þeim tillögum umsjónarnefndar sem áður er getið. Þetta felur í sér að lífeyrissjóðir greiða verðtryggð réttindi eftir reglugerðum sínum og í samræmi við iðgjaldsgreiðslutíma en hið opinbera það sem á vantar full réttindi samkvæmt gildandi lögum.
    Með þessari tveggja ára framlengingu og breytingu á iðgjaldshlutfalli sem lífeyrissjóðunum er gert skylt að greiða til þessa eftirlaunakerfis og gert er ráð fyrir í þessu frv. gefst bæði ráðrúm til að kanna lögin í tengslum við mótun framtíðarstefnu í málefnum lífeyrissjóða og jafnframt fá núverandi greiðsluaðilar tóm til aðlögunar að breyttri kostnaðarskiptingu. Þykir heppilegra að framlög sjóða verkalýðsfélaga til greiðslu verðtryggingar skv. I. kafla laganna og framlög annarra sjóða til greiðslu eftirlauna skv. II. kafla verði lækkuð í áföngum á tveim árum heldur en að þau verði felld niður þegar í stað eins og tillögur umsjónarnefndarinnar gerðu ráð fyrir. Samkvæmt ofanrituðu eru efnisatriði frv. eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi. Gert er ráð fyrir tveggja ára framlengingu laganna og að á þeim tíma verði lögin tekin til endurskoðunar í tengslum við heildarendurskoðun lífeyrissjóðsmála.
    Í öðru lagi. Framlög lífeyrissjóða til uppbótargreiðslna, þ.e. verðtryggingin, en þær eru bornar af hlutaðeigandi lífeyrissjóðum sem hundraðshluti af iðgjaldstekjum, sbr. 24. gr. laganna, verður 2% á árinu 1990 og 1% á árinu 1991 í stað 3% eins og verið hefur frá 1986. Árin 1980--1984 var
hlutfallið 5% og 4% árið 1985.
    Hlutfallið hefur því farið lækkandi enda fækkar þeim sem njóta réttar samkvæmt lögunum í samræmi við það sem gengur og gerist í lífinu. Verði sama prósentutala, þ.e. 3%, látin gilda áfram hefði það í för með sér að lífeyrissjóðirnir stæðu að öllu leyti undir greiðslu verðtryggingarinnar, en á árinu 1988 var hlutfallið 78% og á árinu 1989 um 90%. Lækkun iðgjaldshlutfalls sem hér er gert ráð fyrir hefur í för með sér að iðgjaldsframlög hlutaðeigandi lífeyrissjóða dygðu að líkindum fyrir greiðslu um það bil 65% af kostnaði af verðtryggingu skv. I. kafla laganna á árinu 1990 og um 35% af kostnaðinum á árinu 1991. Í þessu tilviki er rétt að benda á að í upphafi var gert ráð fyrir að hið sameiginlega framlag lífeyrissjóða dygði fyrir greiðslu 50--60% af útgjöldum vegna verðtryggingarinnar og hefur svo verið lengst af þar til 1988 eins og áður hefur komið fram. Það liggur því ljóst fyrir að hlutfall iðgjaldatekna sem nú gildir, 3%, sem lífeyrissjóðirnir leggja fram til greiðslu

verðtryggingar eftirlauna, er orðið miklum mun hærra en upphaflega var stefnt að. Ástæðurnar fyrir því að hið sameiginlega framlag lífeyrissjóðanna hefur farið vaxandi sem hlutfall af kostnaði af greiðslu verðtryggingar eftirlauna eru nokkrar, en þó vegur þungt að hlutfallið ræðst að nokkru af þeim mun sem er á launum á hverjum tíma og á því fimm ára meðaltali sem grunnlífeyrir er miðaður við samkvæmt lögunum. Dragi úr þessum mun lækkar hlutdeild verðtryggingarinnar í eftirlaunum en hlutdeild sjálfs grunnlífeyrisins mundi þá aukast. Þetta gerist ef dregur úr verðbólgu og þar með hækkun peningalauna frá því sem áður var.
    Auk þess mætti nefna að iðgjaldsstofn lífeyrissjóða hefur verið víkkaður í áföngum undanfarin þrjú ár þannig að hann miðast ekki lengur við dagvinnulaun heldur við heildarlaun. Sú breyting kemur að fullu til framkvæmdar á næsta ári og hefur hún valdið og mun valda aukningu iðgjaldatekna umfram launabreytingar.
    Í þriðja lagi hafa iðgjaldstekjur aukist umfram launabreytingar vegna fjölgunar greiðenda og allt þetta hefur í för með sér að framlög lífeyrissjóðanna eru orðin miklu hærri en að var stefnt í upphafi eins og áður hefur komið fram.
    Ef litið er til kostnaðarins liggur ljóst fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna eftirlauna skv. II. kafla laganna vegna verðtryggingarinnar mun aukast úr 18 millj. í 28 millj. kr. á næsta ári en kostnaður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Atvinnuleysistryggingasjóðs hvors um sig mun aukast úr 14 millj. í 21 millj. kr. Rétt er að benda á að verði lögin ekki framlengd yrði óhjákvæmilegt að hið opinbera tæki á sig allan kostnað af þeim eftirlaunum sem nú eru greidd skv. II. kafla laganna sé ætlunin að bæta hlutaðeigandi aðilum lífeyrinn vegna verðtryggingarinnar. Verði sama prósentutala látin gilda áfram, þ.e. þessi títtnefndu 3%, liggur hins vegar ljóst fyrir að lífeyrissjóðirnir muni greiða allan þennan kostnað á næsta ári.
    Ekki er ástæða til þess að fara um frv. þetta mikið fleiri orðum og vil ég vísa til ítarlegra athugasemda við frv. þar sem gerð er grein fyrir aðdraganda og efni laga um eftirlaun til aldraðra, ýmsum þáttum sem snerta eftirlaun, bæði almenn eftirlaun og til aldraðra félaga í stéttarfélögum og til aldraðra bænda. Enn fremur vil ég vekja athygli á þeim upplýsingum sem fram koma í athugasemdum við frv. um fjölda eftirlaunaþega og réttindi þeirra, um framreikning á fjölda lífeyrisþega, áætlaðan fjölda lífeyrisþega 1. janúar ár hvert til 2003 o.s.frv. Enn fremur vísa ég sérstaklega til þess sem fram kemur í lok athugasemdanna þar sem gerð er grein fyrir breytingum þeim sem fólgnar eru í frv. Ég vek enn fremur athygli á því að til viðbótar þarf að breyta lögum um Lífeyrissjóð bænda til samræmis við áðurnefndar breytingar í lögum um eftirlaun til aldraðra. Fjmrh. hefur nú þegar kynnt slíkt frv.
    Ég vil að lokum leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til heilbr.- og trn. og jafnframt endurtaka þau tilmæli mín að reynt verði að hraða

afgreiðslu þessa máls með tilliti til eðlis þess.