Stjórnarráð Íslands
Mánudaginn 11. desember 1989


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni það sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir byrjaði að nefna í upphafi ræðu sinnar, hver væru launin sem Borgfl. fengi fyrir að hafa myndað nýja ríkisstjórn með fyrrv. stjórnarflokkum. Ég held að það þurfi ekki að fjalla neitt frekar um það því að ákvörðun um að mynda nýtt umhverfisráðuneyti er náttúrlega því algerlega óviðkomandi.
    Ég ætla aðeins að víkja að því sem hv. þm. talaði um undir lok máls síns, þ.e. þar sem hún fjallaði um ráðstefnuna sem var haldin í Frankfurt nú í síðustu viku. Ég vil geta þess að ég tilkynnti reyndar framlag mitt til þeirrar ráðstefnu undir því heiti að ég væri ráðherra sem færi með málefni umhverfismála eða ég væri ábyrgur fyrir umhverfismálum í núverandi ríkisstjórn Íslands. Það er ákaflega erfitt að skýra út fyrir ráðherrum annarra landa þetta sem hv. þm. Sjálfstfl. hafa gert að aðalumtalsefni við þessa umræðu, að það þurfi flókna lagabreytingu til þess að það megi mynda nýtt ráðuneyti og að til komi ráðherra með þessu heiti. Í flestum löndum Evrópu mun það vera þannig að það er algjörlega frjálst við myndun nýrrar ríkisstjórnar að búa til öll þau ráðuneyti sem mönnum sýnist og tilnefna ráðherra með hvaða starfsheiti sem mönnum sýnist. Þannig má t.d. geta þess að þegar nýja norska ríkisstjórnin var mynduð nú fyrir skömmu var myndað nýtt ráðuneyti og til kom nýr ráðherra sem er kallaður þróunarmálaráðherra Noregs. Slíkt ráðuneyti var ekki til áður í Noregi og hefur ekki verið til. Þess vegna hefur það reynst mér mjög erfitt að skýra út fyrir útlendingum að flókna lagabreytingu þurfi til þess að koma á nýju ráðuneyti og nýrri verkaskipan innan nýrrar ríkisstjórnar, en ég hef reynt að gera það eins vel og ég get alls staðar þar sem ég hef komið. Því miður hefur það stundum ekki tekist því að menn hreinlega skilja þetta ekki. Í þessu tilviki þarna, eins og ég segi,
sagði ég einfaldlega að ég væri sá ráðherra sem færi með og væri ábyrgur fyrir umhverfismálum innan ríkisstjórnarinnar samkvæmt sérstöku erindisbréfi sem ég hef fengið í hendurnar. Meira þarf ég væntanlega ekki að fjalla um þetta atriði sérstaklega.
    Varðandi sjálfa ráðstefnuna í Frankfurt var hún mjög athyglisverð og lærdómsrík og ég verð að segja eins og er að ég hafði af því mikið gagn að sækja þessa ráðstefnu eins og ég efa ekki að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir er mér sammála um.
    Það var hins vegar mjög fróðlegt að ræða við aðstandendur þessarar ráðstefnu. Þeir töldu að að sumu leyti hefði þeim mistekist ætlunarverk sitt, en það var að leiða saman umhverfismálaráðherra Evrópulandanna og heilbrigðisráðherra til þess að ræða þessi mál sameiginlega. Það olli þeim nokkrum vonbrigðum að það komu ekki eins margir umhverfismálaráðherrar til þessarar ráðstefnu eins og þeir höfðu vænst. Þeir urðu reyndar 11 talsins en heilbrigðisráðherrar urðu helmingi fleiri eða 22 talsins.

En 32 þjóðir eiga aðild að svæðisskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Evrópu.
    Það er rétt að það voru aðeins tvær þjóðir sem nýttu sér það frelsi að láta tvo fulltrúa sína taka til máls. Annan þá fyrir svið heilbrigðismála og hinn fyrir svið umhverfismála. Í lokaorðum sínum, þegar þýski umhverfismálaráðherrann, sem reyndar var forseti ráðstefnunnar, sleit ráðstefnunni, lýsti hann yfir nokkrum vonbrigðum sínum með þetta atriði, þ.e. að það hefði heyrst í of fáum umhverfisráðherrum. Hann tilgreindi sérstaklega sem lofsvert að Ísland og Austurríki hefðu þar skorið sig úr með því að láta fulltrúa beggja þessara málaflokka taka til máls.
    Í ræðu minni sagði ég einfaldlega frá því að á Íslandi væri í vændum stofnun nýs umhverfisráðuneytis, þannig að hafi hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir haft af því einhverjar áhyggjur að ég væri að reyna að villa á mér heimildir, sem ég tel að ekki hafi verið, gerði ég mjög rækilega grein fyrir því í þeirri ræðu sem ég flutti á þessari ráðstefnu að íslenska ríkisstjórnin væri að undirbúa stofnun nýs ráðuneytis sem tæki til starfa eftir áramót og það væri ákvörðun Íslendinga að vinna að því að koma upp nýju umhverfismálaráðuneyti. Það fór því ekkert fram hjá neinum að slíkt ráðuneyti er ekki til í íslenskri ríkisstjórn. Það er hins vegar verið að undirbúa það. Þetta var nánast innihald minnar ræðu til þess að ítreka þetta enn frekar. Þar með held ég að ég hafi svarað hvað þetta atriði varðar.
    Að lokum vil ég aðeins geta þess að ég sé ekki í sjálfu sér að þó svo að málefni sem var tekið til umræðu á þessari merkilegu ráðstefnu, sem var haldin í Frankfurt, í síðustu viku hafi verið afar athyglisvert og mjög merkilegt mál sem slíkt og sjálfsagt að ræða það til þrautar síðar ef tækifæri gefst, þ.e. samband heilbrigðis- og umhverfismála, þá tengist það því máli sem hér er til umræðu ekki nema lítillega þannig að ég sé enga ástæðu til þess að það þurfi að tefja þessa umræðu til þess eins að bíða eftir að hæstv. heilbrrh. komi heim til þess að segja álit sitt á þessum málum. Bæði treysti ég vel hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur til að segja hvers hún varð áskynja á þessari ráðstefnu
og enn fremur treysti ég mér til þess að fjalla í nokkru um það sem þar fór fram, þ.e. hvernig heilbrigðis- og umhverfismálin blandast saman. Ég held að við tvö, ég og hv. þm., séum fullfær um að segja þingheimi frá því sem þarna fór fram.