Stofnun og slit hjúskapar
Mánudaginn 11. desember 1989


     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Það er aðeins út af orðum hv. 13. þm. Reykv. að sáttanefndir hafi verið mjög ,,vandræðalegur aðili`` í þessum málum eins og þm. orðar það. Ég sé ekki ástæðu til að kasta steini að sáttanefndum sem á undanförnum árum og áratugum, jafnvel öldum, hafa unnið vel að þessum málum, náttúrlega með misjöfnum árangri. Vil ég þess vegna taka upp hanskann fyrir þær. En það er kannski eðlilegt að lögum sé breytt eftir því sem árin líða. Öll löggjöf ber keim og eim síns aldarfars eins og sagt hefur verið. Þá dregur sami hv. þm. það í efa að valdsmenn, þ.e. bæjarfógetar, sýslumenn og lögreglustjórar séu hæfir til þess að sinna þessum málum. Það má vera að þeir séu misjafnir eins og aðrir menn, en ég vildi ekki skipta á þessum mönnum sem margir hverjir eru lífsreyndir og öðlast mikla lífsreynslu með hverju ári sem við bætist í þeirra störfum. Ég held að ég vildi ekki skipta á þeim í þessu tilviki og einhverjum sálfræðingum eða slíkum mönnum sem lærðir eru á nútímavísu. Ég tel að aðalatriði málsins sé að þeir menn sem fjalla um sáttastörf séu vinsamlegir, lífsreyndir menn sem vita nokkuð hvað klukkan slær í umhverfinu. Og ég get ósköp vel bætt því við --- og vona að það verði ekki virt mér til sjálfshóls --- að sjálfur hef ég sætt hjón sem lögðu fram árangurslaust sáttavottorð frá presti.