Stjórnarráð Íslands
Mánudaginn 11. desember 1989


     Ragnhildur Helgadóttir (frh.) :
    Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn virðist ekki hafa talið ástæðu til að styðja hæstv. forseta í því að fresta umræðunni þar til hæstv. heilbrrh. gæti tekið þátt í henni. Mér þótti ekki hlýða að halda áfram ræðu minni hér áðan og fjalla um það málefni sem hann átti svo ríkan hlut að í síðustu viku án þess að fara fram á að hann væri viðstaddur.
    En mér þykir það auðvitað gagnrýnivert að áfram sé haldið því að við erum ekki að tala hér um málefni sem á að hrista af eða afgreiða stofnun heils ráðuneytis rétt eins og að rétta pappír yfir borð heldur erum við að fjalla hér um þau mál sem verða meðal stærstu pólitísku mála í framtíðinni og fá æ meiri forgang í öllum stjórnmálum. Áður en ég kem að efnisþáttum um það get ég ekki komist hjá að fjalla örlítið um svar hæstv. hagstofuráðherra.
    Hæstv. ráðherra sagði að auðvitað væri erfitt að útskýra fyrir útlendingum að lagabreytingu þyrfti til að stofna ráðuneyti og hægt væri að vera ráðherra tiltekinna mála án þess að til væri ráðuneyti. Það vefst nú fyrir Íslendingum, held ég, ekki síður en útlendingum hvernig það má vera. Það þarf engar útskýringar til ef lagabreytingu þarf, þá er bara um það að ræða að bíða eftir þeirri lagabreytingu. Ráðuneytið er ekki stofnað fyrr en sú breyting er orðin á lögum hvort sem mönnum líkar það betur eða verr nema þá að hæstv. ríkisstjórn láti sér í léttu rúmi liggja hvaða lög gilda í landinu. En ég vil nú ekki trúa því, enda sýnir framlagning þessara mála og formhlið þeirra að svo er ekki. Hæstv. ríkisstjórn vill auðvitað reyna að ganga frá þessum málum með lögmætum hætti.
    En það breytir því hins vegar ekki að ég tel margt í þessu frv. afar óskynsamlegt svo að ekki sé meira sagt. Sérstaklega að nú, þegar nýr áratugur fer senn að hefjast, skulum við vera að taka upp siði sem menn tóku upp í tilraunaskyni á miðjum 7. áratugnum. Þegar menn eru óðum að sýna fram á, um öll lönd sem einhverjum framförum hafa tekið, að sameina beri sem allra mest
stjórnun umhverfismála og heilbrigðismála, þá erum við að aðskilja þetta og búa til nýtt ráðuneyti. Hæstv. hagstofuráðherra fór um það orðum að þetta væri einkennilegt frá sjónarmiði margra annarra þjóða séð. Það væri t.d. svo í Noregi að þar væri bara hægt að stofna ráðuneyti t.d. þróunarmála rétt si svona án lagabreytngar. Mér er ekki kunnugt um það en sinn er siður í landi hverju. Ég vil bara um það segja þetta: Það væri þokkalegt hér á voru landi, með möguleika fjárlaganna eins og þeir eru, ef hægt væri, án lagabreytinga, að stofna hvert ráðuneytið af öðru. Ef nauðsynlegt er að stofna nýtt ráðuneyti tel ég að þetta sé ekki heppilegt val hjá hæstv. ríkisstjórn, að tína umhverfismálin út úr ýmsum ráðuneytum og það ráðuneytum þar sem starfsmenn, bæði embættismenn og sérfræðingar búa yfir verðmætri þekkingu til að fjalla um þau mál af mikilli reynslu. Mér sýnist það þjóna lítilli skynsemi að flytja þau mál þaðan og í

nýja skrifstofu og undir nýja stjórn í hendurnar á allt öðrum embættismönnum, jafnvel þótt góðir séu. Mér þykir þetta afar óskynsamleg nýting á þekkingu og mannafla. Ég held að við þurfum hér á landi á öllu okkar að halda í því efni.
    Önnur röksemd fyrir því að tengja fastar heilbrigðisþáttinn og umhverfisþáttinn er bókstaflega sú að sú hætta fer vaxandi sem heilbrigði manna víða um lönd er búin af ýmiss konar aðgerðum og breytingum í umhverfinu. Vaxandi þekking manna hefur gert þeim fært að verja heilbrigði, líkamlega, andlega og félagslega, með því að beita ýtrustu þekkingu í þessu skyni. Þess vegna var það að nú á fundinum í síðustu viku sem ég ræddi um var samþykkt ný yfirlýsing Evrópuráðherranna um umhverfi og heilbrigði. Ég ætla að leyfa mér að rekja hana að nokkru leyti. Í formálanum segir að í yfirlýsingunni sé tekið mið af þeim þætti í stefnumörkun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem venjulega er kallaður Heilbrigði allra árið 2000. Mið er tekið af þeim kafla í þeirri stefnuyfirlýsingu sem fjallar um umhverfið. Í fyrsta þætti rökstuðningsins fyrir hinni nýju yfirlýsingu ráðherranna segir að þeir viðurkenni hvernig heilbrigði manna sé háð stórum þáttum í umhverfinu. Þeir leggi áherslu á lífsnauðsyn þess að afstýra heilsutjóni með því að vernda umhverfið. Þeir viðurkenni hversu mikils virði fyrir heilsu og vellíðan hreint umhverfi sé. Þeir hafi fengið hvatningu vegna margra dæma um hvaða árangur hefur náðst í baráttunni gegn mengun og fyrir endurreisn heilsusamlegs umhverfis og þeir minni á hvernig skynsamlegt þróunarkerfi getur bætt heilsu og aukið vellíðan. Þeir hafi áhyggjur af hinni lítt hugsuðu nýtingu náttúruauðlinda og líka framleiðslu sem menn hafa unnið að, á hvern hátt þessir þættir skemma umhverfið og stofna heilsu manna í hættu. Þeir hafi í huga hið alþjóðlega eðli margra umhverfis- og heilbrigðisþátta og hvernig þjóðir eru gagnkvæmt háðar hver annarri að þessu leyti til. Og þeir geri sér ljósa þá staðreynd að nauðsynlegt er að stofna til samvinnu í sem stærstum hluta heimsins vegna þess hvaða hætta þróunarríkjum er búin af umhverfisþáttum. Vegna hinna sérstöku aðstæðna á Evrópusvæðinu, séstaklega vegna mannfjölda þar, mikillar og hraðrar iðnvæðingar og mikillar umferðar,
vilji þeir taka sérstakt tillit til alþjóðlegra aðgerða til að vernda umhverfi og heilsu, eins og t.d. samþykktir um vernd ósonlagsins. Þá gefa þeir yfirlýsingar um það sem þeir telja að eigi að vera grundvallarréttindi einstaklinga í þessu sambandi og hverjir eigi að vera meginþættir í hinni opinberu stjórnun eða stefnumörkun stjórnvalda.
    Út frá þessum sjónarmiðum, sem ég áður gat, er það orðað í fyrsta sinn með miklu ákveðnari hætti en áður í samtökum Evrópuríkjanna hversu mikilvægt heilbrigt umhverfi er fyrir þá heilbrigði sem hver og einn maður getur framast notið og hvernig upplýsingar og ráðgjöf um þessa þætti eru hlutir sem hver og einn einstaklingur á að eiga rétt á og hvernig einstaklingar

eiga að hafa möguleika á að taka þátt í ákvörðunum um þessi efni.
    Það er líka lögð áhersla á ábyrgð hvers einstaklings til að taka þátt í vernd umhverfisins, bæði að því er varðar sína eigin heilsu og einnig vegna annarra. Ekki aðeins vegna samtímamanna heldur að við förum þannig með umhverfi okkar að við eyðileggjum ekkert fyrir komandi kynslóðum heldur bætum það og skilum næstu kynslóðum betra umhverfi en við sjálf búum við. Það er ekki svo langt síðan menn fóru að verða sér meðvitandi um mikilvægi þessa og um það hvað hver og einn lifandi maður getur gert í þessu skyni og hvernig við getum með samræmdum aðgerðum okkar bætt það umhverfi sem við búum í, bæði landið og auðlindir þess, og hagnýtt þekkingu til að vernda heilsu barna okkar og okkar sjálfra gegn ýmiss konar hættum sem frá umhverfinu stafa.
    Að því er varðar þennan þátt og rétt einstaklinganna geta ráðherrarnir sérstaklega um mikilvægi fjölmiðlanna í þessu sambandi, hvernig fjölmiðlarnir gegni lykilhlutverki í því að vekja menn til vitundar og varkárni og jákvæðrar afstöðu til verndunar heilbrigði og umhverfis. Þeir segja að fjölmiðlarnir eigi rétt á því að fá sanngjarnar, skynsamlegar og nákvæmar upplýsingar og hvetja ætti þá til að koma þessum upplýsingum með áhrifamiklum hætti til skila til almennings. Loks geta þeir um mikilvægi áhugamannasamtaka á þessu sviði en um það þarf ekki að fara mörgum orðum hér á landi svo glæsilegan árangur sem við höfum séð á mörgum sviðum heilbrigðis- og umhverfisverndar vegna samtaka áhugamanna. Þó hefur það ekki gerst enn, mér vitanlega, að menn hafi stofnað til samtaka sem sérstaklega miði að því að tengja saman þessa tvo þætti, heilbrigði og umhverfi. Um það snerist þessi ráðstefna, að tengja saman þessi svið með miklu nánari og virkari hætti en áður hefur verið. Segja má að þessi yfirlýsing og ráðstefnan þar sem hún var samþykkt komi í kjölfar Brundtland-yfirlýsingarinnar að því leyti til að í báðum yfirlýsingunum er varað við því með mjög eindregnum hætti að einangra umhverfismálin. Einmitt vegna mikilvægis þeirra skiptir það höfuðmáli að þeir umhverfisþættir sem tengjast starfi, þekkingu og reynslu í ýmsum stjórnunardeildum ríkjanna eða ráðuneytum að þeir séu hafðir þar í stað þess að einangra þá í sér stofnunum eða ráðuneytum. Hæstv. ráðherra Hagstofu gat þess einmitt áðan hve fáir umhverfisráðherrar hefðu, þrátt fyrir allt, tekið þátt í þessari ráðstefnu sem var þó verið að stofna til með ærinni fyrirhöfn og mikilli vinnu hinna hæfustu manna til þess að tengja saman þessi málefni. Ég óttast nefnilega að staðreyndin sé sú að harla lítill skyldleiki sé milli ýmissa hluta sem gera þyrfti í umhverfisráðuneyti eins og t.d. þess að í umhverfisráðuneyti væru teknar ákvarðanir sem tækju mið af því hvaða plöntutegundir hæfðu best fyrir tiltekna tegund af jarðvegi og svo aftur á móti hins að rannsaka gerlainnihald í matvælum. Þetta eru gjörólík verkefni og gjörólík störf og ólík menntun sem til greina kemur ef halda á uppi góðum mælingum og

rannsóknum á þessum sviðum.
    Þetta kann e.t.v. að vera ein ástæða þess hve umhverfismálunum virðist hafa hætt til að einangrast þegar þau eru í sérstökum ráðuneytum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, og byggi á því sem ég heyrði marga fjalla um í máli sínu, að hreinlega hafi betur og betur komið í ljós áhugi manna á því að sameina þessi verkefni. Einmitt til þess að mannaflinn sem að þeim ynni skilaði betri árangri ef ég má svo segja, og að sú vitneskja sem vísindamenn á þessum sviðum öllum búa yfir skili sér út í umhverfi manna og hafi áhrif á líf þeirra með áhrifaríkari hætti en verið hefur.
    Vissulega er það svo þegar ég segi þetta að ég á vitanlega ekki við að allar rannsóknir á umhverfinu hljóti umsvifalaust að skila niðurstöðum sem yrðu grundvöllur að skjótum ákvörðunum fljótlega eftir að rannsóknir væru framkvæmdar. Vitanlega er það ekki svo heldur á það einungis við um sumar rannsóknirnar. Það er staðreynd að það eru ótrúlega mikilvægir þættir sem engar mælingar liggja fyrir um í mörgum landanna, ótrúlega mikilvægir þættir sem við erum einmitt oft að ræða um að setja þurfi reglur um því að við vitum að heilbrigðishætta fylgir þessum þáttum. Við vitum að mengunin er fyrir hendi en við vitum ekki hve mikil brögð eru að heilsutjóni af sumum þessara þátta. Þess vegna var það að ráðstefnan í síðustu viku lagði mikla áherslu á að nauðsynlegt væri að efla rannsóknir á þessu sviði í þeim tilgangi að ákvarðanir yrðu teknar á enn traustari grunni og mælingar yrðu gerðar og fylgst með framvindu og árangri betur en gert hefur verið.
    Í yfirlýsingu fundarins segir í ábendingum um opinbera stefnumörkun, sem eru
reyndar ekki ábendingar heldur grundvallarreglur,,,principles for public policy``, ef mér leyfist að lesa þetta á því máli sem skjalið er á.
    Í fyrsta lagi er skýrgreint hvernig sambandið er á milli umhverfis og góðrar heilsu. Góð heilsa og vellíðan þarfnast hreins umhverfis, þar sem líkamleg, andleg, félagsleg og fagurfræðileg tillit eru ríkjandi eða fá að njóta sín. Umhverfið ætti að vera talið uppspretta betri lífsskilyrða og fyrir batnandi líðan fólks.
    Í öðru lagi er lögð áhersla á forvarnir.
    Í þriðja lagi er lögð sérstök áhersla á tillit til þeirra sem eru sérlega viðkvæmir eða í mikilli áhættu vegna starfa eða annarra aðstæðna og að sérstakt tillit sé tekið til þeirra sem hafi lítil efni.
    Í fjórða lagi er áhersla lögð á að allar aðgerðir í vandamálum vegna umhverfis og heilsu séu byggðar á hinum bestu vísindalegum upplýsingum sem fáanlegar eru.
    Í fimmta lagi er bent á að tengja þurfi vel hina nýju stefnumörkun, hina nýju tækni og þróun, möguleikum umhverfisins, þannig að við förum ekki fram yfir það sem umhverfið ber. Með öðrum orðum að við sjáum um að tæknin spilli ekki umhverfinu. Þess vegna ber hið opinbera ábyrgð á að sýnt sé fram á að slíkar aðgerðir séu ekki hættulegar heilsu eða umhverfi.

    Í sjötta lagi er sagt í þessari yfirlýsingu að heilbrigði einstaklinga og samfélaga eigi að hafa skýran forgang fram yfir tillit til efnahags- og viðskiptamála.
    Í sjöunda lagi. Á öllum hliðum efnahagsstjórnunar í þjóðfélaginu þurfi að taka tillit til áhrifa umhverfis á heilsu og vellíðan.
    Í áttunda lagi er tekið fram að stjórna verði notkun ýmiss konar efna, efnasambanda, framleiðslu og úrgangs á þann hátt að unnt sé að ná hinum besta árangri í nýtingu náttúruauðlinda og valda svo lítilli mengun sem unnt er.
    Loks er yfirlýsing um að hinir ýmsu stjórnunaraðilar, ríkisstjórnir og opinber yfirvöld sem og einkaaðilar skuli stefna að því að koma í veg fyrir og draga úr slæmum áhrifum hættulegra efna og aðgerða og spillts umhverfis þannig að það smiti ekki út frá sér.
    Í tíunda lagi er lögð áhersla á að samræma þurfi grundvallarkröfur sem gerðar eru í þessu sambandi, eða staðlana öllu heldur, að þá þurfi að samræma. Og að stöðugt þurfi að endurskoða og taka mið af nýrri þekkingu um umhverfið og heilbrigði.
    Í ellefta lagi segir að sá sem orsakar tjón skuli bera á því fjárhagslega ábyrgð til þess að unnt sé að bæta tjónið eða koma í veg fyrir það eins og mögulegt er.
    Í tólfta lagi er talað um að efla þurfi mælingar og mat á hættulegum áhrifum umhverfisins fyrir heilsuna og einnig að það þurfi að framkvæma miklu nákvæmari mælingar og mat á tjóni í umhverfinu sem og á heilsunni.
    Þá er vikið að því að taka þurfi tillit til allra þessara þátta í viðskiptum við önnur lönd og að forðast beri að flytja á milli landa tjón á umhverfi og heilsu, ef orða má það svo.
    Í fjórtánda lagi er bent á að í þróunaraðstoð þurfi að vinna að þróun, vernd og umbótum í heilbrigðismálum. Þar með eru upptalin þau atriði sem í yfirlýsingunni voru nefnd um opinbera stefnumörkun.
    Og loks er bent á nokkur atriði sem í felast hugmyndir um hvernig koma beri þessum hugmyndum á framfæri við þá sem ákvarðanir þurfa að taka og annast þær aðgerðir sem á er bent. Inngangssetningin í þeim kafla er þessi: Umhverfinu ætti að stjórna sem jákvæðri uppsprettu heilbrigði og vellíðanar manna.
    Ég játa það, herra forseti, að þessi þýðing er nú ekki sem allra best, ég bið velvirðingar á því en ég held að hún sé nokkurn veginn eftir orðanna hljóðan. Betra er auðvitað að segja: ,,Umhverfinu ætti að stjórna sem uppsprettu fyrir góða heilsu og vellíðan.``
    Í þessum kafla er vikið að því að til þess að koma þessum hugmyndum á framfæri svo það verði til að bæta umhverfi og heilsu þurfi að vera mjög greinilega skýrt fyrir almenningi og einkaaðilum hvaða ábyrgð þeir beri á því að koma í framkvæmd reglum sem á er bent. Á það er bent hvaða þýðingu ýmiss konar aðrir þættir í stjórnkerfinu hafi þannig að það tengist heilsuverndinni. Hvernig meðferð lands og atvinnutækja og skipulagsmál hafi þýðingu til að

tryggja að umhverfið verði heilsusamlegt.
    Um þetta eru talin upp miklu fleiri atriði og það gefst kostur á því síðar að koma þeim á framfæri. Ég mun ekki fara út í það hér, vafalaust verður þessi yfirlýsing þýdd og birt. Og ég tel að það þurfi að gerast hið allra fyrsta því að hún á mikið erindi við þá sem stjórna okkar þjóðfélagi ekki síður en aðra og hún á erindi þegar við erum að fjalla um það að hverfa frá þeirri stefnu sem allir eru núna að hverfa til. Okkur hættir svo til á okkar kæra landi að taka okkar ákvarðanir í einhvers konar tímaskekkju. Því miður. Við höfum ef til vill ekki haft tök eða bolmagn til að fylgja eftir skrefum annarra og stærri þjóða þegar þær stigu þau. Þegar þær svo hafa komist að þeirri niðurstöðu að betra hafi nú verið að stíga jafnvel ekki þetta skref, a.m.k.
ekki að halda áfram eftir þeirri braut sem þá var mörkuð, þá ætlum við að byrja á sama hlutnum og þær gripu til fyrir a.m.k. 25 árum.
    Ég held því að það væri afar skynsamlegt að endurskoða þetta. Það er kannski ekkert einfalt mál fyrir þingmann úr Sjálfstfl. að setja sig í spor hæstv. ríkisstjórnar eða hæstv. forsrh. en ég get vel skilið, ef það var ætlunin að bæta ráðherra í ríkisstjórnina, að þá þyrfti sá hinn sami hæstv. ráðherra að hafa ráðuneyti. En ég vil eindregið beina því til hæstv. forsrh., sem ég veit að lætur sér annt um umhverfið og hefur skilning á málum til heilsuverndar, aðgerðum til verndar heilbrigði manna, að hann endurskoði þessa afstöðu sína og hætti við að stofna til sérstaks umhverfisráðuneytis. Það skyldi þó aldrei vera að það væru til aðrir þættir í stjórnkerfi okkar sem væri fullt eins mikil ástæða til að hafa í sérstöku ráðuneyti og öllu fremur.
    Ég óttast það með öðrum orðum að við séum hér að stofna til kostnaðar að óþörfu og við séum því miður að draga úr líkum á góðum árangri í því máli sem við erum að tala um. Því miður. Og ef við samþykkjum þessa gerð þá erum við líka að skella skollaeyrum við því sem er verið að benda á í öllum mikilvægustu skýrslum, a.m.k. í Evrópu ef ekki víðar um lönd, annars vegar um heilbrigði og hins vegar um umhverfismál. Við erum að skella skollaeyrum við því með því að taka umhverfismálin og setja þau í sérstakt ráðuneyti. Ég vil því eindregið skora á hæstv. ríkisstjórn að endurskoða þetta og ég hygg að það sé enn þá tími til þess að svo verði gert.
    Þó að við lítum bara á hrein og bein fyrirkomulagsatriði og stjórnaratriði og hagræðingu þá sé ég ekki nokkra minnstu ástæðu til að minnka heilbrrn. Ég sé það ekki. Heilbrrn. getur mætavel sinnt þeim efnum sem því eru falin samkvæmt lögum núna, enda fái það til þess bolmagn að gera t.d. Hollustuvernd betur kleift að sinna sínum verkefnum. Og sem betur fer hefur aðstaða margra þátta sem tengjast Hollustuverndinni stórbatnað. Það eru núna möguleikar á mun betra eftirliti með hættulegum mengunarþáttum sem skipta miklu fyrir heilsu manna. Það er nóg að benda á geislamælingarnar í því sambandi. Mér er það ofarlega í huga vegna þess að

fyrir örfáum dögum hitti ég fólk að máli sem bjó í héraði í Austur-Evrópu sem hafði orðið fyrir ótrúlegu tjóni vegna Tsjernóbíl-slyssins og þetta land býr enn við afleiðingarnar af því tjóni. Þar var um að ræða hérað sem lifði á terækt en uppskera langs tíma í þessu héraði er ónýt. Þetta er eitt dæmi af mörgum. Og það hefði ekki mikið þurft að gerast til þess að við hefðum beðið mikið tjón einmitt af því slysi ef vindur hefði staðið dálítið öðruvísi. Það er því mjög mikils virði að aðstaða sé til þess, bæði tækni og þekking, að framkvæma reglulegar mælingar á slíku og svo er um marga þætti í umhverfi okkar.
    Nú er það ekki svo að það sé nýuppfundið að nauðsyn sé að tengja saman aðgerðir til heilsuverndar og stjórn þeirra mála og stjórn umhverfismála, það er ekki eins og það hafi verið fundið upp í síðustu viku þó að þessi mikilvægi fundur og þessi Evrópuyfirlýsing hafi þá verið samþykkt og gefin út. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur unnið mikilsvert starf á þessu sviði, bæði í sérfræðilegu starfi sem unnið var vegna fundar sem haldinn var í Vínarborg um þetta efni árið 1983, og 1984 var samþykkt stefnumörkunin um heilbrigði fyrir alla. Hún var reyndar kynnt almenningi fyrst á fundi hér á Íslandi. Þess vegna er það atriði mörgum okkar enn ofar í huga. Í þeirri yfirlýsingu er sérstakur kafli, einn af níu, einmitt um heilsusamlegt umhverfi. Þar eru þessir hlutir dregnir fram með mjög áhrifaríkum hætti, með upplýsingum um hina ýmsu þætti heilbrigðismála sem tengjst óhjákvæmilega umhverfisverndarmálunum. Þá þegar er lögð áhersla á það hvernig hinir ýmsu þættir stjórnkerfisins verða að starfa saman. Í því kemur fram að í raun og veru er ekki talið æskilegt að einangra umhverfismálin. Þar er eitt af aðalmarkmiðunum að vernda umhverfið þannig að ekki hafi í för með sér hættu fyrir heilbrigði, að tryggja árvekni þjóðfélagsborgaranna og þátttöku í þessum aðgerðum og að styðja alþjóðlegar aðgerðir til þess að vernda heilsu manna gegn þeim þáttum í umhverfinu sem hættulegir eru. Þetta er aðalatriðið í því markmiði og að minna á hvernig þessir þættir renna saman, annars vegar heilsa manna og svo umhverfið.
    Það er hins vegar ótrúlegt hvaða atriði það voru sem bent er á að væru raunveruleg vandamál í ríkjunum þegar sú samþykkt var gerð. Þetta var 1984. Þá bar þar eiginlega allt að sama brunni, að það væri skortur á tengslum milli þáttanna. T.d. segir hér: Nú er skortur á því að hinar ýmsu greinar nálgist sameiginlega það að stjórna heilsusamlegu umhverfisþáttunum og það skortir samræmingu sem nær árangri til þess að tryggja að efnahagsstjórnunin í þjóðfélaginu hafi ekki afleiðingar sem draga úr hollustu og heilbrigði. Bent er á hver brögð eru að því að hinar ýmsu greinar starfi ekki nægilega vel saman að þessu máli. Og hafa menn getað leyst þetta með sérstökum umhverfisráðuneytum? Aldeilis ekki. Þeir komast að hinni þveröfugu niðurstöðu.
    Það má segja að allt frá því að ráðstefnan um manninn og umhverfi hans var haldin í Stokkhólmi

árið 1972 hafi árvekni manna farið vaxandi í öllum löndum Evrópusvæðis Heilbrigðismálastofnunarinnar um áhrif umhverfisþátta á heilsu
manna. Samt eru menn ekki komnir lengra en raun ber vitni.
    Ég held þess vegna að það séu afar þungvæg rök sem liggja til þess að við tökum þátt í því að efla einmitt umhverfisþættina í ráðuneytunum. Ég held reyndar að umhverfismálin væru betur komin í öðru ráðuneyti heldur en sérstöku umhverfisráðuneyti. Og ég held að menn komist meir og meir á þá skoðun að flestir þættir umhverfismála tengist mjög heilbrigðismálunum. Þó eru vissir þættir sem gera það ekki og þeir eiga best heima í þeim fagráðuneytum þar sem sérfræðingar eru á þeim sviðum.
    Ég held, herra forseti, að ég láti senn lokið þessu máli. Mér virðist mörgu ósvarað í sambandi við það sem við erum hér að fjalla um. Ég hef mest rætt um tengsl heilbrigðis og umhverfis og það er af þeim eðlilegu ástæðum að þar eru að gerast mikilvægir hlutir nú þessa dagana sem ég tel skipta miklu fyrir okkur Íslendinga að við séum þátttakendur í. Ég hef ekki vikið að hinum mikilvægu þáttum sem varða þá umhverfisvernd sem nauðsynleg er vegna náttúru landsins og nýtingar náttúruauðlinda án þess að það tengist með jafnbeinum hætti heilbrigði manna eins og margt af því sem ég hef hér verið að ræða um. Þó er í víðara samhengi hægt að færa að því rök að svo sé. Ef ekki líkamlegu heilbrigði, þá a.m.k. andlegu og félagslegu.
    Ég tel að á það verði ekki of mikil áhersla lögð að við umgöngumst okkar land með þeim hætti að við skilum því betra í hendur komandi kynslóða heldur en við tókum við því. Ég held að það sé mikill misskilningur þegar menn telja þjóðlega menningu felast í því að gera landið sem líkast því sem var á einhverjum fyrri öldum nema þá að menn vilji fara aftur til landnámsaldar og gera það skógi vaxið milli fjalls og fjöru. En þeir forfeður okkar, sem þurftu að yrkja jörðina sér til lífsviðurværis og þurftu að byggja húsin sín úr því sem til féll af landinu, þurftu að kynda húsin sín með því sem til féll af landinu, höfðu hvorki ráð né þá þekkingu sem nútíminn býr yfir til þess að bæta landið í staðinn, til þess að bæta fyrir það sem þeir tóku. Um þetta vitnar e.t.v. ekkert með sorglegri hætti heldur en gamlar jarðabækur. Ef við flettum í gegnum gamlar jarðabækur frá ýmsum þeim héruðum sem hafa frá margra sjónarmiði bestu bithaga landsins fyrir sauðfé, þá er lýsing jarðanna með þeim hætti að það er yfirleitt tekið fram að þar hafi verið skógur til eldiviðar. Verðmætamatið virtist miða við það hvort hægt var að höggva einhver sprek í eldinn. Og ef við lesum þessar jarðalýsingar þá sjáum við að víða þar sem slíkar lýsingar áttu við fyrir nokkur hundruð árum eru núna rofabörð og melar og enginn skógur. Þetta er e.t.v. sú auðn og sú eyðilegging sem hrópar á okkur, fólk sem nú er uppi, til að gera hvað við getum til þess að bæta land okkar. Ekki einungis að planta einhverjum hríslum einhvers staðar á auða bletti, heldur að gera það allt með forsjá og byggja á

þeirri þekkingu sem við höfum eða eigum aðgang að, þannig að við eigum það líklegt að árangur sjáist af því starfi. Því að fátt er eins unnið fyrir gýg eins og tilraunir til að byggja upp áhuga á þessu sviði án þeirrar forsjár að menn geri sér grein fyrir með hvaða hætti bæði land og nýr gróður þarf að vinna saman til þess að að skógi verði. Ef menn sjá árangur erfiðis síns verða að dauðum og visnum trjám, þá hverfur þessi áhugi.
    Við höfum gengið í gegnum slíkt tímabil, a.m.k. bæði hæstv. forsrh. og ég. Við höfum upplifað það bæði að það hefur verið mismunandi mikill almennur áhugi manna á slíku. Þess vegna held ég að hið --- ef ég má svo segja --- uppeldislega atriði í þessu sambandi verði ekki ofmetið og það er að á það sé lögð áhersla að hér þarf mikla þolinmæði. Það að klæða landið skógi er eins og fjallganga. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við þurfum að sækja á brattann og við dettum mörgum sinnum, hnjótum í urð og grjóti, svo tekin séu orð úr frægu kvæði. En þetta eru hlutir sem menn verða að gera sér grein fyrir áður en lagt er af stað í slíka göngu.
    Við vitum að markmiðið sem við eigum fyrir höndum er ekki ný búgrein sem skilar arði eftir eitt eða tvö ár. Þetta er vinna sem er fyrir framtíðina og þetta er vinna fyrir fólk sem núna er kannski að ganga sín fyrstu skref eða er ekki einu sinni fætt. Þess vegna er þetta vinna sem á eftir að breyta köflum í sögu okkar og það er stórt verkefni fyrir þessa kynslóð að vinna þetta verk og sjá um að það sé gert og hvetja fólk til þess og veita því hugrekki þegar mistekst. Gefa því aðgang að leiðbeiningum til þess að unnið sé með þeim hætti að árangur sé líklegur til að verða góður. Að þessu leyti til erum við að tala um verk sem eru eins og að byggja upp fiskistofnana. Það þarf að hlífa vissum svæðum, líka á landi, leyfa þeim að byggjast upp og hleypa þar að nýju lífi, veita þangað nýju lífi.
    Allt eru þetta þættir sem eru ómetanlegir og ég hef ekki rætt um í þeim kafla ræðu minnar þar sem ég talaði um tengsl heilbrigðis og umhverfis. Þetta eru samt þættir sem geta átt eftir að hafa áhrif á náttúrufar landsins og á þann veg á heilbrigði og lífsafkomu manna þótt síðar verði. En til þess að við getum náð árangri á þessu sviði verðum við að ná árangri á þeim sviðum sem kalla að í dag.
    Ég sé það að hv. þm. sem í dyrunum stendur er mér innilega sammála og það
gleður mig mjög því ég hygg að hann sé meðal yngstu þingmanna. Það er einmitt sá hópur sem þarf að skilja þetta best. Þess vegna bið ég hv. þm. Guðmund Ágústsson líka að skilja það að þetta leysum við ekki með nýju ráðuneyti. Þetta leysum við ekki með nýju ráðuneyti. Þetta leysum við með huga og höndum verkfærs fólks í landinu. Og þetta leysum við með upplýsingum frá þeim sem byggja á þekkingaröflun og rannsóknum. Þetta leysum við með aðstoð Háskóla Íslands, sem hér á sinn fulltrúa á varamannabekk í þingsalnum, hv. þm. Jóns Braga Bjarnasonar, og fleiri manna úr hans hópi, fleiri

manna með sambærilega þekkingu. Þetta er fólkið sem á að leiðbeina okkur um það hvernig við byggjum upp umhverfi okkar á þann veg að það auki hreysti þjóðarinnar, þar með dugnað hennar og gleði. Og um leið og umhverfið er heilsusamlegra og fegurra þá eykur það líka andlega hreysti fólksins, bókstaflega talað, hamingju þeirra sem búa í þessu landi.
    Þetta frv., herra forseti, fjallar auðvitað ekki um hamingjuna en ég ætla að vona það að hæstv. forsrh. --- sem ég veit að er það ekki um megn að skipta um skoðun ef hann telur annað skynsamlegra, sem ég veit að hefur einlægan áhuga á umhverfismálum --- ég vonast til þess að hæstv. ráðherra skoði hug sinn á nýjan leik. Ég vonast til þess að hann ráðfæri sig við hæstv. heilbrrh. og ég vonast til þess að hann ráðfæri sig við ýmsa þá sem sérstaka þekkingu hafa einmitt á ýmsum þáttum umhverfisins, bæði þeim er tengjast vernd auðlinda landsins og uppbyggingu þeirra svo og auðlind hafsins. Ég vonast líka til að hann ráðfæri sig við þá aðila sem hafa verið að berjast fyrir því að tryggja heilsusamlegt umhverfi á vinnustöðum.
    Hvað um launþegasamtökin í landinu? Telja þau að heilsusamlegu umhverfi á vinnustöðum sé betur borgið með því að umhverfisráðuneyti sé stofnað? Telja þau að það dragi úr vinnuslysum eða vinnusjúkdómum ef sérstakt umhverfisráðuneyti er stofnað? Ég hygg að svo sé ekki. Hitt er sönnu nær að þeir hópar eiga mikið undir því, og ekki aðeins þeir hópar heldur við öll eigum mikið undir því að framfylgt sé þeim grundvallarhugmyndum sem staðfestar eru, m.a. í félagsmálasáttmála Evrópu sem tók gildi 1965, að hver og einn eigi rétt á vinnuumhverfi sem spilli ekki heilsu hans.
    Í þessu efni hefur verið unnið ótrúlega gott verk sem ég held að mörg fyrirtæki hafi getað notfært sér en því miður mörg hafa ekki fengið aðstöðu til þess. ( Forseti: Forseta langar til að spyrja hv. ræðumann hvort hann geti lokið máli sínu á næstu þremur mínútum eða svo eða hvort hann vill fresta máli sínu því hér hafði verið fyrirhugað að láta ganga fram atkvæðagreiðslu um þrjú dagskrármál áður en þingflokksfundir hefjast klukkan fimm.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir ábendinguna en ég get ekki neitað því að ég á svolítið meira eftir en þrjár mínútur. En með tilliti til kaflans um heilsusamlegt vinnuumhverfi geri ég mér ljóst að það skiptir máli að sjá til þess að hv. þm. sitji ekki of lengi í senn yfir ræðum þótt um umhverfismál séu. Það mun auðvitað bæta vinnuþrek okkar að við fáum hlé nú á eftir klukkan fimm og ég geri mér ljóst að mál þurfa að ganga fram, atkvæðagreiðslur, og mun þiggja það að fá að gera hlé á máli mínu.