Framhald umræðu um umhverfismál
Mánudaginn 11. desember 1989


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Vel má það vera, herra forseti, að formanni Sjálfstfl. hafi verið um þetta kunnugt, en það var ekki formaður Sjálfstfl. sem stóð hér í ræðustól í dag og var beðinn að gera hlé á ræðu sinni og hæstv. forseti deildarinnar hefur ekki látið svo lítið að nefna það við þann ræðumann sem var beðinn að gera hlé á ræðu sinni. Þetta tel ég gagnrýniverð vinnubrögð.
    Og að því er varðar upplýsingar hæstv. forseta um hugmyndir um stofnun alþjóðlegrar mengunarrannsóknastöðvar tel ég að vísu ekki skort á sjálfboðaliðum í stjórnarliði til þess að ræða um og gefa upplýsingar um umhverfismál eða mengunarmál, en þeir sem hér eiga um að fjalla samkvæmt lögum og stjórnarskrá landsins hafa ekki hirt um að gefa Alþingi þessar upplýsingar sem nú hafa verið gefnar í Ríkisútvarpinu, né heldur að skýra málið frekar fyrir þinginu.