Framhald umræðu um umhverfismál
Mánudaginn 11. desember 1989


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram um grundvallaratriði varðandi stjórn þingsins áðan tel ég eðlilegt að segja hér örfá orð.
    Ég er þeirrar skoðunar að þingflokksformenn hafi ekkert umboð til að semja um það við forseta hvort gert sé hlé á ákveðnu máli sem ræðumaður hefur samþykkt að gera hlé á í deildinni. Ég tel að það sé grundvallaratriði að gera sér grein fyrir því að sjálfstæði þingmanna í störfum helgast af rétti sem er skjalfestur í stjórnarskránni og þingsköpum og birtist í ýmsum myndum, m.a. þeirri ákvörðun að hlutað er um sæti hér í þinginu þegar menn mæta til þings til að undirstrika að allir þingmenn eru jafnir að rétti á Alþingi Íslendinga. Þess vegna vil ég taka undir það að ég tel að þegar slíkt á sér stað sé eðlilegt að það sé rætt við þann þingmann sem hlut á að máli.
    Þessu vildi ég koma á framfæri um leið og ég veit að núv. hæstv. forseti hefur á því fullan hug að stjórna neðri deild Alþingis í vetur í sátt við þá þingmenn sem hér eru.