Framhald umræðu um umhverfismál
Mánudaginn 11. desember 1989


     Forseti (Árni Gunnarsson):
    Vegna þessara orða hv. síðasta ræðumanns vill forseti segja eftirfarandi:
    Á fundi með formönnum þingflokka í dag og forsetum lagði forseti Nd. til að umhverfismál yrðu tekin til umræðu á fundi sem lyki kl. 5. Þá kom fram sú hugmynd þingflokksformanna tveggja flokkanna, þ.e. Framsfl. og Sjálfstfl., að heldur yrði tekin upp hér á fundi síðdegis í dag umræða um frv. um tekjuskatt og eignarskatt. Reynt var að koma á samkomulagi um að svo mætti verða, sem ekki tókst, og var horfið aftur að því ráði að taka upp umræðuna um umhverfismál á fundinum síðdegis í dag og ljúka henni fyrir kl. fimm svo að þá gæti farið fram atkvæðagreiðsla um þau mál sem þá voru útrædd. En það varð að samkomulagi við þingflokkaformenn að umræðan um tekjuskatt og eignarskatt yrði tekin upp á seinni fundinum eða framhaldsfundinum sem hæfist kl. hálfníu.
    Forseti telur sig hafa gert þarna nákvæmlega það sama og forverar hans í starfi hafa gert áður, að ná samkomulagi við þingflokkaformenn um mál af þessu tagi og hafi því haldið á málum með þeim hætti sem reglur segja fyrir um.
    Það kann að vera að forseti hefði átt að heimila hv. 3. þm. Reykv. að ljúka máli sínu um umhverfismálafrv. í upphafi þessa fundar og sem samkomulagsleið er forseti tilbúinn núna ef hv. þm. vill þiggja það, í fjarveru hæstv. forsrh. og hæstv. hagstofuráðherra, að ljúka máli sínu.