Tekjuskattur og eignarskattur
Mánudaginn 11. desember 1989


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Um þetta leyti fyrir ári síðan urðu hér miklar umræður og deilur á Alþingi um þau skattalagafrv. sem hæstv. fjmrh. lagði þá fyrir Alþingi. Þar var um að ræða einhverjar mestu skattahækkanir, samanlagðar, sem komið hafa til meðferðar á Alþingi á einu bretti ef svo mætti segja. Það sem hins vegar er um að ræða nú er eilítið annars eðlis vegna þess að hér er að nokkru leyti verið að afturkalla mistök sem gerð voru í fyrra og viðurkenna þau þar með.
    Því verður hins vegar ekki neitað að hér er líka á ferðinni, í þessu frv. sem hér um ræðir, frv. til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, umtalsverðar skattahækkanir. Raunar er það svo að sá pakki sem nú er til meðferðar á hv. Alþingi, annars vegar þetta frv. og hins vegar frv. til laga um breytingar á lögum um virðisaukaskatt, sem er til meðferðar í hv. efri deild, leiðir til mjög mikilla hækkana á sköttum frá því sem nú er. Og það breytir engu þótt hæstv. fjmrh. og ríkisstjórn reyni að beina umræðunni frá þessari staðreynd og yfir í samanburð á því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. annars vegar og þessum frv. hins vegar. Það er ekki það sem er aðalatriði málsins. Aðalatriði málsins er að að hér er verið að hækka skatta með þessum tveimur frv. frá því sem gildandi lög gera ráð fyrir um 2--3 milljarða kr. a.m.k. Síðan geta menn skipst á skoðunum um það, á þeim nótum sem hæstv. fjmrh. hefur lagt upp með, hvort hér er um að ræða að þessu sinni eitthvað örlítið meira eða örlítið minna en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir stórfelldum skattahækkunum. Þess vegna er sú umfjöllun sem orðið hefur í þjóðfélaginu og fjölmiðlar hafa, því miður, alveg gagnrýnislaust tekið við, að því er virðist, um breytingarnar frá því sem er í fjárlagafrv. aukaatriði. Aðalatriðið er það, hvort sem litið er til fjárlagafrv. eða þeirra mála sem nú eru til meðferðar, að hvort tveggja gerir ráð fyrir miklum hækkunum á sköttum þó svo að nú sé búið að taka ákvörðun um
að gera tillögu til þingsins um að flutt verði á milli úr óbeinum yfir í beina skatta.
    Hæstv. fjmrh. fylgdi þessu máli hér úr hlaði fyrir nokkru síðan og kom einmitt að þessu atriði, nauðsyn þess hér á Íslandi að flytja skattbyrði úr óbeinum sköttum yfir í beina skatta, og ég hygg að hann hafi gert mikið mál úr því, kannski ekki síst í efri deild, að það væri einmitt í anda hinnar nýju jafnaðarmannastefnu Alþb. að beina sköttum úr hinu óbeina formi yfir í beina skatta. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni við 1. umr. að þetta væri í samræmi við allt sem erlendar sérfræðistofnanir og hinar viðurkenndu fjármálastofnanir víða um lönd hefðu lagt til við okkur Íslendinga í sambandi við þeirra ráðgjöf um hagstjórn. Og ber þá nýrra við, herra forseti, þegar Alþb. er farið að taka að sér að túlka og flytja hér mál stofnana sem þessara sem hafa ekki hingað til verið í neinni sérstakri náð hjá Alþb. eða skoðanabræðrum þess víða um lönd, hvorki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn né aðrar sambærilegar

efnahags- og fjármálastofnanir.
    Hitt er annað mál að þó svo að uppbyggingin í sköttum hér á landi sé nokkuð frábrugðin því sem annars staðar er að því leyti til að skattar í hinu óbeina formi vega þyngra en beinir skattar þá er það auðvitað ekki tilviljun. Það er vegna þess að hér hefur sú stefna verið mörkuð, vitandi vits, að skattleggja frekar eyðsluna og neysluna en öflun teknanna. Það hefur verið mörkuð sú stefna hér á undanförnum árum og áratugum að viturlegra væri að hamla ekki gegn því með sköttum að menn öfluðu sér tekna en hins vegar eðlilegra að afla nauðsynlegra tekna í ríkissjóð með því að skattleggja eyðslu manna eða neyslu.
    Það sem hér er lagt til gengur þvert gegn þessari stefnu. Og það er auðvitað alveg skýrt og ljóst að hér er verið að fara inn á aðrar brautir en þær sem hafa verið tiltölulega viðteknar hérlendis til þessa. Reyndar er það nú ekki svona einfalt vegna þess að um þessar mundir er verið að leggja til hækkanir á hvoru tveggja. En það sem fjmrh. bendir réttilega á er það að í því sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja til er ákveðinn tilflutningur úr óbeinum sköttum yfir í beina skatta. Það þýðir það að skattur manna af tekjum á næsta ári, af hverri viðbótarkrónu sem er umfram skattleysismörk, verður næstum því 40%, heildarskattur til ríkis og sveitarfélags. Og ég leyfi mér að fullyrða að við þær aðstæður sem hér eru og við það skattkerfi sem menn eru vanir að búa við, og við þann vinnumarkað sem hér er til staðar, hefur þetta vinnuletjandi áhrif á menn þó svo að fjmrh. geti bent á dæmi þess víða um lönd að jaðarskatthlutfall sé miklu hærra en 40%. En menn þurfa ekki annað en að horfa í eigin barm og gera sér í hugarlund hvort þeir telja taka því að bæta við sig einni yfirvinnustund þegar þeir halda ekki eftir nema 60 kr. af hverjum 100 kr. sem þeir fá fyrir þá stund. Það segir sig sjálft að þessi stefna, stefna hærri beinna skatta í staðgreiðslu, hefur vinnuletjandi áhrif á almenning og þar af leiðandi leiðir hún til minni verðmætasköpunar því að vinnufúsar hendur verða ekki jafnfúsar til þess að vinna þegar eftir er haldið einungis 60% af því sem upp er gefið að menn fái í laun.
    Ég hef ekki sannfæringu fyrir því, herra forseti, að þetta sé rétt stefna. Engu að síður var það auðvitað fásinna af hæstv. fjmrh. og hinni virðulegu ríkisstjórn að ætla sér að leggja hér fyrir þingið tillögur um 26% virðisaukaskatt, hærri en nokkurs staðar þekkist á byggðu bóli. Hæsti virðisaukaskattur sem mér er kunnugt um er á Írlandi, 25%, og það hefði auðvitað verið út í bláinn að ætla að taka hér upp 26% hlutfall á Íslandi, eins og ríkisstjórnin var um tíma búin að koma sér saman um.
    Ég lét þess getið í upphafi, herra forseti, að í frv. væru nokkur atriði þar sem fram kæmi iðrun ríkisstjórnarinnar vegna gerða sinna í skattamálum á síðasta þingi. Þar er um að ræða tvö atriði sem ég hyggst nú koma að áður en ég kem að meginefni frv. sem er að sjálfsögðu tekjuskattshækkunin sjálf og þær afleiðingar sem hún hefur og þeir útreikningar sem gerðir hafa verið af fjmrn. og öðrum aðilum um það

efni. En það eru tvö atriði þar sem ríkisstjórnin er að draga í land frá því í fyrra, tvö atriði þar sem stjórnin sér að sér, viðurkennir þá gagnrýni sem fram kom, m.a. hér á Alþingi í fyrra en einnig hjá almenningi í landinu, og ákveður sem sé að draga nokkuð í land með breytingar sem voru alveg úr hófi fram hér í fyrra.
    Þar er í fyrsta lagi um að ræða breytingarnar á eignarskattinum sem hér eru lagðar til og í öðru lagi breytingar á skattlagningu á nokkur atriði sem snerta fyrirtækin í landinu. Hvort tveggja er að sjálfsögðu til bóta. Ef ég nefni síðara atriðið fyrst er þar um að ræða það sem fram kemur í 1. og 2. gr. frv., sem og breytingar við nokkur önnur atriði sem ég hyggst ekki tína til, en þarna er m.a. um það að ræða að auka þær heimildir sem menn hafa til frádráttar vegna fjárfestinga, til flýtiafskrifta og vegna kaupa á hlutabréfum umfram það sem verðbólgan ein hefði fært mönnum. Hér er um að ræða atriði í 9. gr. auk 1. og 2. gr. frv. Þetta er auðvitað allt til bóta. Þetta er í samræmi við tillögur sem við sjálfstæðismenn höfum flutt hér á Alþingi og sjálfsagt að taka undir slíkar tillögur.
    Þó verð ég að undrast eitt atriði, herra forseti, að því er varðar 9. gr., svo ég haldi mig við þessi atriði fyrst, en í henni segir, með leyfi forseta: ,,Auk heimildar í 1. mgr. er mönnum heimilt að draga frá eignum sínum, sbr. 73. gr., markaðsverðbréf sem gefin eru út af ríkissjóði, ríkisvíxla, happdrættisskuldabréf ríkissjóðs, húsbréf gefin út af Byggingarsjóði ríkisins svo og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða, sbr. lög nr. 20/1989, þar sem verðbréfasjóðurinn er eingöngu myndaður af framangreindum skuldaviðurkenningum, enda séu eignir þessar ekki tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.``
    Það sem hér er um að ræða, herra forseti, er að hér er ekki lengur um þá kvöð að ræða gagnvart eignarskattsfrelsi skuldaviðurkenninga ríkissjóðs, að þær séu umfram skuldir. En eins og kunnugt er þá er það svo í núgildandi skattalögum að ríkisskuldabréf og aðrir sambærilegir ríkistryggðir pappírar eru aðeins skattfrjálsir að því marki sem þeir eru umfram skuldir. Þetta á reyndar við um sparisjóðsinnistæður og hlutafjáreign í hlutafélögum og fleira í þeim dúr, enda séu eignir þessar ekki tengdar atvinnurekstri eða skyldri starfsemi.
    Ég tel það til bóta, hæstv. forseti, að fella niður ákvæði um að þessar eignir verði að vera umfram skuldir. Ég er að því leyti til sammála þessu nýja ákvæði í frv. Ég held að það sé mjög til að skýra málið og auðvelda öll viðskipti með þessi mikilvægu bréf að fella þetta ákvæði niður og ég tek undir það sem segir í grg. frv. um þetta. Hins vegar er mönnum kannski kunnugt um að fjmrh. liggur undir kæru hjá Verðlagsstofnun fyrir að hafa auglýst sinn varning, skuldabréf ríkissjóðs, án þess að láta þess getið að eignarskattsfrelsi þeirra væri háð þessari takmörkun sem nú stendur til að fella niður. Skal ég ekkert um það segja hver niðurstaða verður af þeirri kæru. En auðvitað er mönnum það kunnugt að í þeim

auglýsingum sem birst hafa, a.m.k. til skamms tíma, um ríkisskuldabréfin hefur farið mjög lítið fyrir þessari takmörkun þegar verið er að hampa eignarskattsfrelsi þessara bréfa.
    En látum þetta nú allt vera, herra forseti. Það sem mér finnst óeðlilegt í tengslum við þessa breytingu er að láta hana þá ekki gilda yfir allt annað sem upp er talið í núgildandi 78. gr. laganna, þ.e. innistæður í innlendum bönkum og sparisjóðum, innlánsdeildum og stofnsjóðsreikningum samvinnufélaga, sem og verðbréf sem hliðstæðar reglur gilda um samkvæmt sérlögum og hlutafjáreign í hlutafélögum. En um þetta gilda í dag sömu ákvæði og um ríkisskuldabréfin.
    Hver er þá ástæðan fyrir því, hvaða rök hníga til þess að taka þarna ríkisskuldabréf og önnur markaðsverðbréf sem gefin eru út á vegum ríkissjóðs út úr? Það getur ekki verið nema ein ástæða fyrir því og hún er sú að auka enn það forskot sem þessir pappírar hafa á önnur sparnaðarform í landinu gagnvart sköttum og það er óeðlilegt. Alveg eins og hin vemmilega auglýsing fjmrh. í blöðum um eignarskattsfrelsi ríkisskuldabréfa er óeðlileg vegna þess að þar er um það að ræða að ríkissjóður, fjmrh., beitir sér fyrir gríðarlegum hækkunum á eignarsköttum sem hann síðan telur sér til tekna í auglýsingum sem þessari, að bitni ekki á hans eigin pappírum. Hann þvingar niður vextina á sínum eigin
verðbréfum með því að leggja háa eignarskatta á samkeppnisformin eða réttara sagt hann knýr samkeppnisformin til þess að bjóða miklu hærri vexti en ella væri til þess að ná upp þessum mun sem eignarskatturinn skapar.
    Ég sé ekki betur en að með þessari breytingu í 9. gr. séi verið að stíga eitt skrefið enn í að auka forskot verðtryggðra spariskírteina ríkissjóðs og annarra markaðsverðbréfa ríkissjóðs umfram hina almennu aðila á sparifjármarkaðinum og það er ekki eðlilegur hlutur. Þessi breyting hins vegar, í 9. gr., væri að mínum dómi ágæt ef hún væri víðtækari og næði til þeirra hluta sem ég var að telja hér upp og sem upp eru taldir í 78. gr. Þar með væri kominn enn frekari hvati til sparnaðar í landinu fyrir alla, óháð því í hvaða formi menn kjósa að spara og þar með er útrýmt óvissu og ákveðnum framkvæmdarerfiðleikum sem þessu fylgja í dag, enda kemur það glöggt fram í grg. með frv. að enginn heilvita maður tekur nú bankalán til þess að kaupa sér spariskírteini, vegna þess að nú þarf hann að borga fulla vexti af sínu bankaláni og það svarar ekki kostnaði. Sama er auðvitað að segja og jafnvel enn frekar um aðra sparnaðarmöguleika sem hér eru raktir þannig að ég tel að hér sé verið að skapa óeðlilegt forskot fyrir ríkissjóð.
    Þetta voru þau atriði, herra forseti, sem varða 1., 2. og 9. gr. frv. en meginefni þeirra er sem sagt að bæta um betur gagnvart fyrirtækjunum í landinu og létta aðeins á því gríðarlega óhagræði sem skattbreytingarnar í fyrra ollu fyrirtækjunum.
    Hin breytingin, sem er þessa eðlis, er í 10. gr., og varðar eignarskatta manna. Það atriði er reyndar

nátengt því sem ég hef nýlokið við að tala um og varðar þær breytingar sem koma fram í 9. gr. og snerta eignarskattsfrelsi markaðsverðbréfa ríkissjóðs.
    Í fyrra beitti fjmrh. sér fyrir gríðarlegum eignarskattshækkunum. Meiri hækkunum á sköttum á fasteignum og eignarskattsskyldum verðmætum en nokkru sinni hafa hér verið upp teknar. Það er óumdeilt og af öllum viðurkennt. Þessi breyting hafði það m.a. í för með sér að ranglæti gagnvart einstaklingum, þeim sem standa einir að heimilishaldi, m.a. ekkjum og ekklum og einstæðum foreldrum, margfaldaðist miðað við það sem áður var. Þarna var ákveðinn munur í eldri skattalögum þessum aðilum í óhag, en í stað þess að geta að hámarki verið 20--30% í krónum talið, þá jókst þessi munur upp í 145% ef viðkomandi var í hinu nýja og hærra skattþrepi með sínar eignir. Þ.e. mismunurinn annars vegar á einstaklingi og hins vegar á hjónum með sömu eignastöðu.
    Það hefur ekkert farið dult hversu gríðarleg óánægja hefur verið í landinu með þessar breytingar og hversu ósanngjörn þessi mikla hækkun var í fyrra. Ég hygg að mörgum hér inni sé kunnugt um ýmis dæmi þessa þar sem einstaklingar sem fyrir þessu hafa orðið hafa jafnvel þurft að taka bankalán til að geta staðið í skilum með þessar gríðarlegu hækkanir á eignarsköttum.
    Sjálfstæðismenn hér í Nd. hafa flutt frv. um að flytja eignarskattana aftur í það horf sem þeir voru hér fyrir ári síðan, í eitt þrep með 0,95% skatthlutfalli.
    Hér er hins vegar gerð tillaga um að viðhalda aðalskatthlutfallinu í 1,2% en lækka háeignaþrepið úr 1,5% niður í 0,75% en þó þannig að þar komi til sögunnar ákveðin tekjutenging sem að vísu hefur ekki tíðkast hérlendis áður og er það nýmæli hér í lögum að eignarskattur sé tekjutengdur.
    Það er um þetta að segja, herra forseti, að viðurkenna ber það að hér er auðvitað komið til móts við þau sjónarmið og þá gagnrýni sem haldið hefur verið uppi á þær eignarskattshækkanir sem hér dundu yfir í fyrra. Það ber að fagna því, en það ber jafnframt að benda á að með þessari breytingu er viðurkennt að þessar miklu hækkanir hafi komið afar illa niður, þær voru ósanngjarnar og óréttlátar og fengu ekki staðist. Hins vegar er rétt að gjalda jafnframt varhug við því að þær tölur um lækkanir sem hæstv. fjmrh. hefur látið sér um munn fara í þessu sambandi eru auðvitað lækkanir eftir að búið er að taka tillit til þeirra gríðarlegu hækkana sem hér urðu í fyrra, þannig að þetta frv. felur auðvitað í sér umtalsverða hækkun frá því sem hér var fyrir ári síðan, þeim eignarskatti sem hér var í gildi fyrir nákvæmlega 12 mánuðum síðan. En það er rétt að þetta er lækkun frá álagningunni nú í ár og þeim lögum sem nú eru í gildi. Og hverjir svo sem það hafa verið í stjórnarliðinu sem þetta hafa knúið fram, þá er það út af fyrir sig þakkarvert en ekki er mér kunnugt um hvort það er fyrir forustu fjmrh. sjálfs eða annarra stjórnarliða sem þessi breyting hefur náðst fram.

    Hér er jafnframt um það að ræða að eignarskattsfrelsið er hækkað í samræmi við vísitölur en lægra þrepið er látið vera óbreytt í 1,2% sem var reyndar hið almenna þrep fyrir nokkrum árum, en það var áður en hinn svokallaði eignarskattsauki til Þjóðarbókhlöðunnar kom til sögunnar. Þannig að það er ekki hinn rétti samanburður. Ef menn segja að skatturinn hafi verið 1,2% fyrir nokkrum árum þá er hann 1,45% í ár vegna eignarskattsaukans.
    Ég hef miklar efasemdir, virðulegi forseti, þó ég vilji taka viljann fyrir verkið í þessu efni hjá hæstv. ráðherra, um að tekjutenging þessa skatts geti gefið góða raun. Og ég hef líka miklar efasemdir um að slík tekjutenging sé
rökrétt og standist, þegar grannt er skoðað, almenn rök í þessum efnum. Það hefur verið margbent á það að eignir sem ekki gefi af sér tekjur séu lítils virði í raun þó þær kunni að vera hátt skrifaðar á fasteignamatsseðlum. Ekki er heldur þar með sagt að þó að einhver einstaklingur hafi töluverðar tekjur stafi þær af eign sem hann kann að eiga. En samkvæmt þessu frv. getur maðurinn þurft að borga fullan eignarskatt vegna tekna sem hann hefur af einhverju allt öðru, til að mynda og væntanlega í flestum tilfellum launum sínum. Þannig að hér er auðvitað verið að blanda saman ákveðnum hlutum sem ekki er alltaf rétt að blanda saman. Ég hef líka efasemdir um að sá grundvöllur sem hér mun byggt á varðandi tekjur manna muni skila réttri eða eðlilegri niðurstöðu og ég hygg að þetta fyrirkomulag muni því miður hvetja einhverja aðila til þess að greina ekki satt og rétt frá í sambandi við þessi mál.
    En væntanlega mun sú niðurstaða sem hér er fengin í þessu frv., ef hún verður samþykkt sem lög óbreytt, lina þjáningarnar í þeim tilfellum sem við höfum ýmis orðið vör við eftir breytingarnar hér í fyrra, hjá því fólki sem hefur litlar eða engar tekjur en situr af sérstökum ástæðum í stærri eignum en ýmsir telja nauðsynlegt fyrir viðkomandi. Það er fullt af slíku fólki hér í bænum sem af tilfinningalegum ástæðum til að mynda vill búa í því húsnæði sem það hefur átt alla ævi og vill geta leyft sér það þó að tekjurnar séu litlar. Og vissulega mun þetta ákvæði hjálpa slíku fólki. Því dettur mér ekki í hug að neita og auðvitað er það ánægjuefni ef með frv. tekst að lina þrautirnar sem núverandi ríkisstjórn hefur kallað yfir þetta fólk. En ég hygg, engu að síður, að á þessu fyrirkomulagi, þessari tekjutengingu eignarskattsins séu veigamiklir annmarkar, bæði fræðilega og það muni sömuleiðis koma í ljós í framkvæmdinni.
    Þetta voru, herra forseti, þau tvö atriði sem heldur horfa til bóta í þessu frv., þ.e. annars vegar breytingar sem snúa að atvinnurekstrinum og hins vegar lækkun eignarskattsins frá því sem nú er og hyggst ég ekki eyða frekari tíma í þessi atriði en snúa mér hins vegar að því meginefni frv. sem er sjálf hækkun skatthlutfallsins, sem er í 67. gr. núgildandi laga, en í 3. gr. frv. Það hefur verið látið í veðri vaka, herra forseti, að hér sé eingöngu um að ræða 2% hækkun skattsins eða hækkun skattsins um 2 prósentustig, en

þá eru menn sem því halda fram búnir að gleyma því hvernig 67. gr. núgildandi laga hljóðar. En hún er svo, með leyfi forseta:
    ,,Tekjuskattur þeirra manna, sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga þessara og hafa verið heimilisfastir hér á landi allt tekjuárið, skal reiknast af tekjuskattsstofni þeirra skv. 1. og 3. tölul. 62. gr. sem hér segir:
    1. Af tekjuskattsstofni reiknast 28,5%.`` --- Síðan er lítil tilvitnun í neðanmálsgrein a, en þar segir svo, með leyfi forseta: ,,Sjá þó ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 97/1988 en þar segir svo: ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 67. gr. laganna skal tekjuskattur manna reiknast 30,8% af tekjuskattsstofni við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 1989 og við álagningu tekjuskatts á árinu 1990 vegna tekna ársins 1989.``"
    Þannig hljóða lögin í dag. Með öðrum orðum, herra forseti, hækkunin sem hér er lögð til er alls ekki 2%, hún er 4,3%, vegna þess að lögin eins og þau hljóða nú gera ráð fyrir því að skatthlutfallið lækki um næstu áramót úr 30,8% í 28,5%. En frv. gerir ráð fyrir því að tekjuskattshlutfallið verði 32,8%. Og munurinn á 32,8% og 28,5% er 4,3%.
    Einhverjir ráku augun í þetta hér fyrir nokkru og reyndust minnugir þess að það mun hafa verið fyrir forgöngu einhverra þm. Alþfl. á síðasta þingi sem ákvæðið um 2,3% hækkun tekjuskatts í fyrra var ekki sett inn í lögin með varanlegum hætti, heldur bundið við eitt ár, árið sem nú er að líða, 1989. Og þeir menn sem eftir þessu mundu inntu forkólfa þessa máls í fyrra, þá sem höfðu frumkvæði að því að þetta var aðeins tímabundið, eftir því hvort þeir hefðu fallist á að þessi hækkun yrði áfram í lögunum. Að lögunum yrði breytt á þann veg að þessi hækkun úr 28,5 í 30,8% yrði varanleg. En þá kvað nú aldeilis við hljóð í strokknum úr þingflokki Alþfl. hér á baksíðu DV þann 24. nóv. Það var nú ekki aldeilis að þessir forsprakkar væru búnir að kyngja því að láta það yfir sig ganga að skattahækkunin í fyrra héldi óbreytt áfram á næsta ári, það var nú aldeilis ekki. Ekki sögðu þeir hv. þm. Karvel Pálmason og Sighvatur Björgvinsson það. En margt er nú skrýtið í þessum kýrhaus, þingflokki Alþfl., hæstv. forseti, með fullri virðingu fyrir uppruna forsetans hér. Nú er nefnilega eins og Bibba á Brávallagötunni segir komið annað ,,kjöt í stokkinn``. Nú er þingflokkur Alþfl. að því er virðist ekki bara búinn að samþykkja þessa 2,3% bráðabirgðahækkun á tekjuskatti til eins árs heldur búinn að bæta við tveimur prósentustigum í viðbót upp í 4,3% og það án þess að drekka vatn, það án þess að láta sér bregða.
    Ég vænti þess að sjálfsögðu fastlega að einhver af ábyrgðarmönnum Alþfl. hér í hv. deild útskýri fyrir þingheimi með hvaða hætti þessi myndbreyting hefur orðið, þessi ,,metamorphosa`` á Alþfl. í þessu máli, að flokkkurinn sem krafðist þess í fyrra að hér yrði eingöngu um að ræða bráðabirgðahækkun í eitt ár á þessum 2,3% er nú allt í einu búinn að samþykkja --- ekki bara það, heldur 2%

í viðbót. Og það ekki einu sinni til eins árs, heldur um alla framtíð. Því frv. gerir ekki ráð fyrir því að þetta verði með neinu bráðabirgðaákvæði eins og í fyrra. Þetta á að vera svona um alla framtíð samkvæmt þessu frv.
    Það er rétt sem bent hefur verið á í blöðum og víðar upp á síðkastið að núna fer býsna lítið fyrir þingflokknum þeim sem eitt sinn ætlaði að afnema tekjuskattinn, Alþfl. sem eitt sinn ætlaði að afnema tekjuskattinn og afla tekna í ríkissjóð fyrst og fremst með óbeinum sköttum og öðrum slíkum álagningaraðferðum. Og það fer lítið fyrir formanni Alþfl., sem er að vísu önnum kafinn á öðrum vettvang, en sem hefur einna helst talið það sér til tekna að hafa framkvæmt lagabreytingar þær sem fjmrh. Sjálfstfl. beitti sér fyrir hér vorið 1987 um upptöku á staðgreiðslu skatta og tengdum breytingum.
    Nei, þetta er auðvitað, herra forseti, afar ræfilslegt fyrir þennan stjórnmálaflokk. Ég ætla ekki að lesa hér upp tilvitnanir í það sem hv. þm. Karvel Pálmason og Sighvatur Björgvinsson sögðu við DV dagana 24. og 25. nóv. sl. vegna þess að þeir eru ekki hér og menn geta flett þessu upp sjálfir. Ég ætla ekki að tefja tímann á því en þeir láta það auðvitað þar koma glöggt fram að þeir hafi ekki samþykkt að breytingin frá í fyrra verði varanleg og látin ganga áfram, hvað þá meir. En það sem í þessu frv. felst er sem sagt ekki 2% hækkun á tekjuskattinum, tveggja prósentustiga hækkun, heldur hækkun um 4,3% frá gildandi lögum. Þannig er nú það.
    Þessari breytingu tengjast að sjálfsögðu breytingar á persónuafslætti, sjómannaafslætti, barnabótum og barnabótaauka. En það hefur verið ein helsta vörn fjmrh. í þessu máli gagnvart tekjuskattshækkuninni að hann hefði ákveðið að hækka þessa liði líka, einkanlega persónuafslátt og barnabætur. Rétt eins og það hafi nú aldrei staðið til, eða rétt eins og engum manni hafi dottið það í hug sem um þessi mál hafa vélað, að þarna væru þrjár stærðir innbyrðis tengdar sem hafa auðvitað mikil áhrif hver á aðra og sem verður að skoða allar í sérstöku samhengi.
    Þannig var nú frá þessu máli gengið upphaflega, herra forseti, að hækkanir á þessum liðum sem ég taldi upp, persónuafslætti, sjómannaafslætti, barnabótum og barnabótaauka voru tengdar lánskjaravísitölu. Það var til þess gert að skattbyrðin minnkaði þegar kaupmáttur minnkaði, þ.e. laun hækkuðu minna en lánskjaravísitala, en jafnframt að dæmið snerist við þegar kaupmáttur hækkaði, þá hækkaði skattbyrðin vegna þess að laun hækkuðu meira en lánskjaravísitalan. Þetta er nú gamalt mál og flestum kunnugt hér inni, enda var fjallað um þetta rækilega hér úr þessum stól fyrir ári síðan þegar fjmrh. reyndi með lymskulegum hætti að koma þeirri breytingu inn í lögin að viðmiðun við lánskjaravísitölu skyldi úr þeim tekin án þess að nokkur tæki eftir því. Honum tókst hið fyrrnefnda, þ.e. að koma því í gegn að viðmiðun við lánskjaravísitölu var afnumin, en honum tókst ekki að gera það án þess að nokkur tæki eftir því. Bæði var stjórnarandstaðan það vel á verði

að það uppgötvaðist hér innan dyra en síðast en ekki síst voru það samtök almennings úti í bæ, samtök launþeganna og þeirra sérfræðingar sem þetta uppgötvuðu og bentu á með rækilegum hætti hvernig skattalagabreytingin í fyrra kom út fyrir almenning, hvernig skattleysismörk voru lækkuð í því frv. sem upphaflega var lagt fram og hvernig hækkun skatta var þeim mun meiri eftir því sem tekjurnar voru lægri. Þetta orsakaði það á sínum tíma að ríkisstjórnin sá sitt óvænna og hækkaði persónuafsláttinn upp í það sem hann hefði orðið samkvæmt eldri lögum en skattfrelsismörkin lækkuðu eigi að síður vegna þeirrar hækkunar sem varð á skatthlutfallinu um 2,3%. Og nú er þessum leik haldið áfram og enn á ný á fjmrh. og hin svokallaða hagdeild fjmrn. í útistöðum við samtök launþega um þessa útreikninga.
    Nú er það auðvitað þannig eins og í öllum útreikningum, að niðurstaðan fer auðvitað eftir því hvaða forsendur menn gefa sér og hvaða tölur eru notaðar þegar byrjað er að reikna. Það má e.t.v. til sanns vegar færa að allir þeir aðilar sem hér hafa verið nefndir til sögunnar hafi nokkuð til síns máls eftir því hvernig á þessi mál er litið. En það verður hins vegar ekki sagt um fjmrh. eða hans starfsmenn að þeir hafi gert þessa mynd dekkri en hægt var eða þeir hafi reynt að draga upp allar skuggahliðar þessa frv. eins og þó hefði ekki verið óeðlilegt.
    Oss þingmönnum hefur borist, herra forseti, nýjasta fréttatilkynning fjmrn. sem er reyndar dags. 8. des. sl. en var í pósthólfum þingmanna nú seinni partinn í dag. Þar er spurt þessarar grundvallarspurningar í heiti fréttatilkynningarinnar: Eru skattaútreikningar fjmrn. villandi? Og greinilegt er að það sem fram hefur verið reitt af hálfu launþegasambandanna í landinu hefur eitthvað komið við kaunin á fjmrh. og starfsmönnum hans fyrst ástæða er talin til að gefa út sérstaka fréttatilkynningu um útreikninga annarra aðila. Það má bæta því við um þá aðila sem hér hafa birt útreikninga að bæði DV og Morgunblaðið hafa sjálfstætt reiknað út þessa hluti, þessar skattbreytingar, og sýnist mér að einnig þar komi fram verulegur munur frá því sem fjmrn. gefur upp. Þannig að það eru fjórir aðilar sem hafa sjálfstæða burði í þessum efnum, sem hafa --- ég vil ekki segja rengt útreikninga fjmrn. heldur varpað öðru
ljósi á þetta frv. en ráðuneytið gerir sjálft og reynt með því að sýna fram á, og tekist það bærilega að mínum dómi, að vissulega eru þessir útreikningar að einhverju leyti villandi.
    Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að hlaupa á þessari fréttatilkynningu í stuttu máli vegna þess að ég tel það óhjákvæmilegt með tilliti til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á upplýsingar ráðuneytisins um þessi mál. En fyrst vil ég taka undir það sem hér segir, að menn verða að gera greinarmun annars vegar á breytingum þeim sem skattkerfistillögurnar hafa í för með sér og hins vegar þeim breytingum sem mismunandi forsendur um kaupmátt á næsta ári hafa í för með sér. En það er einmitt á þeim forsendum að ég hygg sem BSRB

hefur gagnrýnt þessa útreikninga. Þeir vilja reikna með öðrum forsendum um kaupmátt á næsta ári en fram kemur í þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar og þar af leiðandi í þessum frumvörpum sem hér eru til meðferðar. Þetta er eitt og þetta er rétt. Annars vegar er um að ræða áhrif af skattkerfisbreytingum, hins vegar er um að ræða áhrif af mismunandi forsendum varðandi launaþróun og kaupmátt á næsta ári. En eins og ég gat um áðan hefur ríkisstjórnin rofið hið beina samhengi þarna á milli með því að afnema viðmiðun skattanna við lánskjaravísitölu.
    Hér á 1. bls. er talað um lægri virðisaukaskatt en áður var gert ráð fyrir og talað um að þessi hækkun tekjuskatts komi í staðinn. Þetta er nákvæmlega það atriði sem ég gerði að umtalsefni í upphafi að hér er verið að snúa þessari umræðu um hækkun skatta eða eftir atvikum lækkun einhverra skatta inn á þær brautir hvort um sé að ræða hækkun eða lækkun frá fjárlagafrv. Það er bara ekki það sem um er að ræða. Það sem um er að ræða er: Hvað eru hér samtals miklar hækkanir á ferðinni frá gildandi lögum? Og gildandi lög eru lög um söluskatt og lög um virðisaukaskatt með 22% þrepi, sem eiga að taka gildi um næstu áramót og svo hins vegar þau skattalög sem ég var hér að lesa upp áðan, herra forseti. Það eru ekki gildandi lög það sem ríkisstjórnin lagði til með fjárlagafrumvarpi sínu og það hefur ekkert með það að gera hvað fólkið í landinu þarf að borga í skatta á næsta ári, hvað lagt var til í fjárlagafrv. fyrir tveimur mánuðum síðan og er nú hvort eð verið að breyta í stórum stíl.
    Á bls. 2 í þessu skjali er sömuleiðis talað um að í mörgum tilvikum sé beinlínis um lækkun að ræða miðað við gildandi lög. Þetta er bara rangt, herra forseti. Gildandi lög eru þau lög sem ég var að lesa með þessu bráðabirgðaákvæði í eitt ár. Og það er ekki rétt og það er ekki sanngjarnt, jafnvel þó menn vilji miða við skattkerfið eins og það er í desember, að tala um það sem gildandi lög. Það hefði þá verið rétt að bæta inn dálki um hvað gildandi lög gerðu ráð fyrir að skatturinn yrði í janúar þegar menn eru að bera saman desember og janúar.
    Hér er spurt, herra forseti, á bls. 2 í fréttatilkynningu ráðuneytisins í nokkrum vandlætingartón: ,,En um hvað snýst málið? Er hagfræðin svona óútreiknanleg? Eða er vísvitandi verið að blekkja fólk, og ef svo er, hver er að blekkja hvern?`` Það var góð spurning úr þessum herbúðum, herra forseti. Og það var tímabært að fjmrn. spyrði sjálft sig þessarar spurningar, hvort í útreikningum þess nú eða fyrir ári síðan hafi verið fólgnar einhverjar blekkingar. Ég tel að blekkingarnar í fyrra hafi verið rækilega afhjúpaðar. En málið snýst ekkert um það hvort hagfræðin sem vísindagrein sé svona óútreiknanleg, enda er þetta engin hagfræði sem hér er verið að tala um. Þetta eru bara ósköp venjulegir skattaútreikningar sem hafa ekkert með hagfræði sem slíka að gera. Bara þetta orðalag, sá hroki sem fram kemur í þessum orðum er auðvitað til þess fallinn að reyna að villa mönnum sýn og gefa í skyn að þessi

mál séu eitthvað miklu flóknari og fræðilegri en þau eru í raun og veru.
    Hér stendur, með leyfi forseta:
    ,,Hvað sýna útreikningar fjmrn.? Þeir sýna samanburð á skattbyrði launafólks annars vegar miðað við núgildandi lög, þ.e. forsendur fjárlagafrv., og hins vegar miðað við forsendur tekjuskattsfrv.`` Hér er enn á ný verið að fullyrða að forsendur fjárlagafrv. séu núgildandi lög. Hvers lags fjarstæða er þetta, virðulegi ráðherra? Nú má svara úr sæti sínu ef ráðherrann vill. Nú þarf ekki að grípa fram í til að trufla ræðumann. Ef ráðherrann vill svara þessu úr sæti sínu, þá er það velkomið. Hvernig stendur á því að það er fullyrt hér að forsendur fjárlagafrv. séu núgildandi lög, jafngildi þeim? Ég er alveg undrandi á þessu og ég sé að ráðherrann er það líka, en hann ber engu að síður ábyrgð á þessu skjali, hefur eflaust lesið það vel og vandlega yfir. Ég get alveg unnt ráðherranum þess í sanngirni að það megi gera ágreining við útreikninga Alþýðusambandsins og BSRB vegna þess að menn geta þar deilt um þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar. Gott og vel. En ég hlýt að hafna tilhæfulausri staðhæfingu eins og þessari, um að forsendur fjárlagafrv. jafnist á við núgildandi lög, sem hreinni vitleysu.
    Síðan segir hér, með leyfi forseta: ,,Í fylgiskjölum með frv. er þetta gert með tvennum hætti [þ.e. útreikningarnir] annars vegar með samanburði á skattgreiðslum í desember 1989 og janúar 1990, sem sýnir stöðuna rétt fyrir og eftir áramót en gefur ekki heildarmynd af kerfisbreytingunni. Þess vegna er
jafnframt gerður annars konar samanburður sem sýnir meðalbreytingar milli áranna 1989 og 1990. Um leið felst í þessu samanburður á skatti á næsta ári miðað við gildandi lög annars vegar og samkvæmt frv. hins vegar því að forsendur fjárlagafrv. miðuðust við það að skattbyrðin yrði óbreytt milli 1989 og 1990.`` Hér er enn á ný sami misskilningurinn á ferðinni. En þarna kemur inn í ágreiningurinn við BSRB um kaupmáttarþróun á næsta ári sem ég ætla ekki að blanda mér inn í vegna þess að þar hafa menn ekki annað en þær forsendur sem þeir gefa sér.
    En með fullri virðingu fyrir þeim aðilum sem hér hafa lagt hönd á plóg og hafa komið að þessu máli þá tel ég að þessi fréttatilkynning sé óforsvaranleg og að hún sé síst til þess fallin að fegra málflutning ráðuneytisins í þessum efnum. Síst til þess fallin. Því miður.
    Ég ætla ekki að fara með þá reikninga sem aðilar hafa gert um þetta efni vegna þess að þeir liggja fyrir frá BSRB, frá ASÍ, í DV og Morgunblaðinu. En ég vildi bara segja það eins og reyndar er tekið undir í þessari greinargerð, þessari fréttatilkynningu, að samanburður á milli annars vegar desember 1989 og hins vegar janúar 1990 er ekki raunhæf aðferð til þess að meta þær breytingar sem verða á sköttum með þessu frv. ef það verður að lögum. Og það er rétt sem blaðamaður DV hefur ítrekað bent á að annaðhvort verða menn að bera saman þá mánuði þegar persónuafslátturinn hefur mest vægi eða þá

mánuði þegar hann hefur minnst vægi. En ekki annars vegar einn mánuð þegar hann hefur lítið vægi og hins vegar annan mánuð þegar hann hefur mikið vægi.
    Það er rétt að það má mæta þessu með því að bera saman meðalskattbyrði áranna, en þá eru menn bara á þeim hála ís að þeir vita ekkert um það hver launaþróun verður á næsta ári eða kaupmáttur. Þeir hafa ekkert fyrir sér í því, hvorki fjmrn. né BSRB, um það hver launaþróun og kaupmáttur verður á næsta ári, þannig að menn eru auðvitað strax í vanda með það eins og fram hefur komið í þessum deilum um útreikninga. Þannig að þó svo ráðuneytið taki undir það að samanburður milli desembermánaðar og janúarmánaðar sé varhugaverður þá er svar ráðuneytisins, það að birta meðalskattbyrði milli þessara tveggja ára, ekki besta svarið vegna þess að menn vita ekkert um árið 1990 annað en einhverjar lauslegar ágiskanir og spár. En menn geta hins vegar borið saman til að mynda júlí á sl. ári þegar persónuafslátturinn hafði mest vægi og svo janúar á næsta ári miðað við frv.
    Ég verð því að segja, herra forseti, að því miður hefur fjmrn. enn á ný fallið í þá gryfju að gefa ekki tæmandi upplýsingar um mál og að því leyti til villandi upplýsingar. En mér dettur auðvitað ekki í hug að staðhæfa að reiknimeistarar ráðuneytisins reikni rangt og enn þá síður að þeir geri það viljandi. Þetta er hins vegar staðreynd, sem ég tók hér fram, og sem ýmsir hafa orðið til að benda á á undan mér. Við höfum reynsluna frá í fyrra um nokkur atriði þegar sýnt var fram á að greinargerð fjmrn. um sambærilegt frv. var mjög villandi bæði að því er varðaði lánskjaravísitöluna, að því er varðaði hærra skattþrepið í eignarskattinum og reyndar fleiri atriði eins og upp komst á þeim tíma.
    Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Ég held að þetta séu aðalatriði málsins varðandi meginefni frv., að menn hafa verið hér í ríkum mæli að tala um vitlausa hluti, tala um samanburð á þessu frv. og fjárlagafrv. í stað þess að tala um samanburðinn á þeim báðum og núgildandi sköttum.
    En það er fleira í frv., herra forseti, og skal ég nefna tvennt en vera stuttorður um hið fyrra, þ.e. þann þátt frv. sem varðar vaxtabætur, enda kom hv. 1. þm. Reykv. ítarlega inn á það atriði í sinni ræðu hér fyrir hönd Sjálfstfl. síðast þegar málið var á dagskrá. Ég skal ekki blanda mér í þær umræður sem þá urðu um vexti á lánum Húsnæðisstofnunar en vissulega var sú ákvörðun, sem tekin var 5. des. í ríkisstjórn, nátengd þeim vaxtabótum sem hér eru til umfjöllunar. Og auðvitað var öllum ljóst það samhengi sem þar er á milli. Þess vegna var það mjög hryggilegt að ríkisstjórnin skyldi hafa tekið þá ákvörðun sem var langsamlega óskynsamlegust af þeim sem stóðu til boða í þessu efni.
    Og vegna þess að einn af ráðherrum Borgfl. er nú hér, sem ég hygg að hafi misst af umræðum um þetta mál á sínum tíma hér á föstudaginn og laugardaginn, þá er rétt að það komi fram að sú tillaga, sem ráðherrar Borgfl. fluttu í ríkisstjórninni, hefur að því

er mér sýnist mun víðtækari stuðning hér á Alþingi heldur en sú niðurstaða sem félmrh. knúði fram í ríkisstjórninni og er að sögn tilkomin vegna áhrifa Kvennlistans eða samkomulags við Kvennalistann frá því á síðasta vori. --- Ég verð að fá að skjóta því hér inn að mér finnst það ekki verðugur minnisvarði um afskipti Kvennalistans eða störf hans á síðasta þingi að þetta skuli vera það sem eftir stendur: afar óskynsamleg ákvörðun um þessa vexti á lánum húsnæðismálastjórnar sem tekin var í ríkisstjórn 5. des. sl.
    En að því er varðar efnisatriðin hér um vaxtabætur þá var auðvitað margbent á það á síðasta vori og á það hefur verið bent á þessu þingi, af einmitt talsmönnum Kvennalistans, að það er mikilli óvissu undirorpið hverjar þessar
vaxtabætur verða í raun og hvað ríkissjóður kemur til með að þurfa að bera mikinn kostnað þeirra vegna því að menn renna nokkuð blint í sjóinn með þessi atriði. Þetta hefði auðvitað þurft að vera mun betur undirbúið á síðasta vori eins og var krafa okkar sjálfstæðismanna þegar við lögðum til að málinu yrði frestað, ekki til þess að stoppa það heldur til þess að seinka því um nokkra mánuði.
    Ég vil ekki segja annað um þessi ákvæði í 8. gr. frv. en það að ég vona að þau leysi eitthvað af þeim vandamálum sem fyrirsjáanleg voru og geti þar af leiðandi orðið til þess að þetta vaxtabótakerfi geti þjónað tilgangi sínum samhliða húsbréfakerfinu. Þó svo menn hafi greint á um það hér í vor hvenær ætti að taka upp húsbréfakerfi þá hljóta allir sanngjarnir menn að vona að það kerfi gangi upp og þjóni sínum tilgangi. Auðvitað liggur það í augum uppi þó að á hinn bóginn sé komið á daginn, eins og spáð var af okkar hálfu hér á síðasta vori, að á meðan núverandi húsnæðiskerfi starfar eins og það gerir við hliðina á húsbréfum þá verður mun minni áhugi á þeim valkosti heldur en ella væri og heldur en æskilegt væri að mínum dómi.
    Það er rétt sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér í ræðu sinni sl. laugardag, herra forseti, að upphafleg áform um vaxtabreytingar í núverandi húsnæðislánakerfi hnigu auðvitað að því að hækka vextina mun meira en nú hefur verið gert vegna þess að í upphaflegum tillögum um þetta mál var auðvitað alltaf gert ráð fyrir því að vextirnir af þessum eldri tegundum húsnæðislána hækkuðu upp í það sama og húsbréfin bjóða upp á, þ.e. markaðsvexti, en í staðinn --- og það var auðvitað lykilatriðið í því efni --- í staðinn kæmu vaxtabætur til þeirra sem lægri hefðu tekjurnar og minni ættu eignirnar. Þessa stefnu tek ég undir. Þetta er sú stefna sem ég vil gjarnan stuðla að vegna þess að ég tel að það sé ástæðulaust að borga niður hér í stórum stíl fasteignalán til manna sem geta vel staðið undir markaðsvöxtum. En um þetta náðist ekkert samkomulag á síðasta vori, eins og menn rekur minni til, vegna þess að félmrh. og ríkisstjórnin vildu frekar semja við aðila sem voru á móti þessum grundvallaratriðum eins og til að mynda Alþb., heldur en að ganga til samstarfs við þá sem þessu voru

fylgjandi.
    Niðurstaðan liggur nú fyrir. Hún er klúður, herra forseti, hún er m.a. sú vaxtaákvörðun sem birtist hér 5. des. og er hið versta mál, svo maður vitni nú í góðkunnan aðila úr sjónvarpi sem sagður er hvísla í eyra fjmrh. vinsamlegum ábendingum. En hún er ekki bara sú vaxtaákvörðun. Þetta klúður lýsir sér jafnframt í þeirri staðreynd að það eru ekki nema nokkrir tugir aðila sem, a.m.k. enn sem komið er, hafa óskað eftir því að taka lán í húsbréfakerfinu. En til samanburðar má geta þess að það voru 2200 eða 2300 manns sem flykktust inn í húsnæðiskerfið á einum mánuði, í september 1986, þegar það kerfi hóf göngu sína.
    Vitaskuld er þarna ekki alveg sambærilegum hlutum saman að jafna. Ég viðurkenni það. En engu að síður er ljóst að húsbréfakerfið, vegna þessara aðstæðna og vegna þess hvernig um það var samið við andstæðinga málsins, siglir mun hægar úr vör heldur en ella hefði verið og þar af leiðandi væntanlega verða kvaðir ríkissjóðs og skuldbindingar vegna þessara mála þyngri í lengri tíma heldur en ella hefði verið. Því það hefði væntanlega verið hægt að lina skuldbindingar og fjárútlát ríkissjóðs fyrr ef staðið hefði verið að þessu máli eins og upphaflega var lagt til. Og því hélt ég nú satt að segja að sérhver fjmrh. mundi taka fegins hendi. En þannig er nú þetta, herra forseti. --- Og það ber nú vel í veiði að hv. 2. þm. Austurl. situr á forsetastóli. --- En þannig standa þessi mál.
    Að mínum dómi er eina jákvæða atriðið við þetta allt saman það að ég hygg að það sé að mörgu leyti skynsamlegt að húsbréfakerfið fari hægt af stað þó það hafi kannski ekki átt að vera svo hægt að það rétt silaðist úr vör. En það voru auðvitað bundnar inn í þetta alls kyns kvaðir eins og þær að þarna mættu ekki aðrir fá lán en þeir sem væru í biðröðinni margumtöluðu o.s.frv. En nóg um það.
    Ég vil bara segja það um þessa 8. gr., herra forseti, að ég vona að hún þjóni sínum tilgangi og að þessar vaxtabætur sem þar er talað um gegni því hlutverki sem þeim er ætlað. Það hljóta auðvitað allir sanngjarnir og velviljaðir menn að vona. Alveg eins og þeir hljóta að vona að það sem nú er búið að setja á laggirnar í sambandi við húsbréf þjóni sínum tilgangi og verði til þess að auðvelda fólki í landinu að komast yfir eigið húsnæði, a.m.k. þeim sem ekki þurfa neina sérstaka opinbera aðstoð. Því það er rétt hjá hv. 2. þm. Austurl. og hv. 18. þm. Reykv. að þetta kerfi húsbréfa er auðvitað fyrst og fremst til þess fallið að liðsinna þeim sem ekki þurfa sérstaka aðstoð til þess að komast yfir húsnæði. En við hliðina á því eru að sjálfsögðu vaxtabætur til þeirra sem eiga erfiðara um vik og svo má ekki gleyma því að Byggingarsjóður verkamanna hefur auðvitað miklu og ríku hlutverki að gegna eftir sem áður.
    Þá kem ég að lokaatriði þessa frv., herra forseti, sem ég vil gera að umtalsefni og það eru þær breytingar á ríkisskattanefnd sem hér eru lagðar
til. Ég hyggst ekki að svo stöddu gera miklar efnisathugasemdir við þær tillögur. En ég vil benda á

að það kann að vera varhugavert að ætla að hafa eingöngu menn í ríkisskattanefnd sem hafa það allir að fullu starfi og að þar séu ekki starfandi til að mynda endurskoðendur eða lögmenn sem auðvitað koma inn í þennan dómstól sem ríkisskattanefnd er með eilítið önnur sjónarmið en þeir sem þetta hafa að atvinnu. Og þó að það sé rétt sem fjmrh. lét koma hér fram í framsögu sinni að það er hugsanlegt að menn geti legið undir ámæli vegna hagsmunaárekstra --- þó hann gæti hins vegar ekki nefnt slík dæmi og tók það fram að enginn hefði borið slíkt á þá menn sem í nefndinni starfa núna --- þá er þessi leið engu að síður notuð hérlendis. Þetta er aðferð sem beitt er í ákveðnum tegundum dómsmála hér á Íslandi þegar kallaðir eru til sérhæfðir dóms- eða matsmenn. Það er auðvitað alkunna, t.d. í sjórétti, verslunarrétti og við ýmsar aðrar aðstæður, að til eru kvaddir menn sem hafa sérstaka fagþekkingu á málunum. Ég vil benda á þetta og láta það koma fram að þótt vissulega sé hægt að færa rök fyrir því sjónarmiði sem ráðherra hafði hér uppi um þetta, þá er hitt sjónarmiðið ekki síður mikilvægt, sem sé að sjónarmið þeirra, sem starfa við þetta dagsdaglega og eru í nánum tengslum við atvinnulíf og fyrirtæki, komist einnig að.
    Hitt er auðvitað til bóta að reyna að stytta meðferð mála hjá ríkisskattanefnd frá því sem nú er eins og þetta frv. stefnir að. Ég tek undir það, og að gera þar alla starfshætti greiðari en nú hefur verið samkvæmt lögum, þ.e. stytta úrskurðarfrest þann sem ríkisskattanefnd hefur um helming o.s.frv., eins og hér er gert ráð fyrir.
    Hins vegar vildi ég sagt hafa um þetta, herra forseti, að ég tel óeðlilegt að gera síkar tillögur um breytt skipulag í ákveðnum farvegi skattkerfisins, að gera slíkar tillögur í frv. sem er fyrst og fremst og í eðli sínu tekjuöflunarfrv. Ég tel óeðlilegt að blanda saman þeim greinum frv. sem ég hef þegar vikið að og snerta tekjuöflunarhlið málsins og ýmsa slíka þætti, eignarskattshlutfall, tekjuskattshlutfall, frádráttarliði ýmsa sem við höfum fjallað um --- að tengja þetta þessari skipulagsbreytingu sem hér er gerð tillaga um í 11. og 12. gr. frv., jafnvel þó að þær breytingar ættu fullan rétt á sér. Og ég sé satt að segja ekki hvaða brýnu nauðsyn ber til að knýja fram þær breytingar sem felast í 11. og 12. gr. nú, samhliða þeim hækkunum á sköttum sem ríkisstjórnin er að flytja þetta frv. til að ná í gegn. Ég sé ekki, hvaða brýnu nauðsyn ber til þess. Þess vegna vildi ég beina því til ráðherra, en ekki síst til hv. fjh.- og viðskn., hvort ekki væri nú ráð að gefa sér betri tíma til að fjalla um þetta efni, þessar greinar sem snúa að ríkisskattanefnd, en vera ekki að ana að skipulagsbreytingum á þessu sviði núna á einni viku rétt fyrir jólahlé, jafnvel þó að hægt sé að knýja fram hér sjálfar skattahækkanirnar á þeim tíma, eins og gera verður ráð fyrir að ríkisstjórnarmeirihlutinn geti gert.
    Ég tel að það séu varhugaverð vinnubrögð þegar um er að ræða dómstól af þessu tagi, ríkisskattanefnd, skipulag þess dómstóls, skipan hans og vinnubrögð, að

mönnum sé boðið upp á það að afgreiða slíkt mál hér á einni viku á hv. Alþingi. Ég tel það bara ekki boðleg vinnubrögð og það segi ég alveg burtséð frá því hvað stendur í þessum greinum. Þess vegna finnst mér eðlilegt að fjh.- og viðskn. gefi sér betri tíma til þess að fara yfir þessar greinar en meginefni frv. og fari rækilega yfir þetta mál með færustu kunnáttumönnum á þessu sviði, en það vill nú þannig til að þeir eru langflestir önnum kafnir við að undirbúa skattkerfisbreytingarnar sem fyrir dyrum standa um áramótin, og þar er ég að sjálfsögðu að tala um starfsmenn ríkisskattstjóraembættisins, ríkisskattstjóra, og hina ýmsu skattstjóra í landinu fyrir utan að sjálfsögðu ríkisskattanefndarmenn og ýmsa aðila, sem þurft hafa að skipta við þá nefnd fyrir hönd sinna umbjóðenda, endurskoðendur, lögmenn og aðra slíka.
    Ég tel ekki rétt að breytingar sem þessar séu knúnar í gegn með þeim hætti sem fjmrh. leggur til. Þeim er kastað hér inn fyrirvaralaust. Það er ekkert á þær minnst í til að mynda þeirri skrá um þingmál sem ríkisstjórnin hyggst fá samþykkt fyrir jól eða á upphaflegum lista sem fylgdi stefnuræðu forsrh. í upphafi þings. Það er hvergi vikið að þessu til að mynda í tengslum við fjárlagafrv. þegar talað er um skattamál, þannig að ég tel að ekki sé eðlilega að þessu staðið og kem þessari ábendingu sem sagt á framfæri við hv. fjh.- og viðskn. en áskil mér rétt til þess að fjalla nánar um efnisatriði málsins ef það verður knúið fram með þessum hætti.
    Ég vil svo að lokum, herra forseti, láta það koma fram að ég fagna því að ríkisstjórnin hefur fallið frá eða a.m.k. frestað áformum sínum um skattlagningu fjármagnstekna, en það kom ekki fram fyrr en með þessu frv. að ríkisstjórnin væri tilbúin að lækka eignarskatta öðruvísi en sem aðgerð í tengslum við upptöku fjármagnsskatta að öðru leyti. Þetta er breytt afstaða sem hér kemur fram. Hér er gerð tillaga um að lækka eignarskatta án þess að taka upp þá skattlagningu fjármagnstekna sem ráðgerð var og ég hlýt að fagna því. Ég tel að það sé afar mikilvægt að rasa ekki um ráð fram í því efni vegna
þess að slíkar breytingar geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á sparnað landsmanna. Og ég tel að það verði að velja þann tíma mjög vel og vandlega þegar slík breyting kemur til framkvæmda, ef í hana verður ráðist, og það megi ekki ráðast af því einvörðungu hvernig standi í bólið hjá ríkissjóði þá og þá stundina. Þess vegna fagna ég því að frá þessu hefur verið fallið með þessu frv. hér.
    Ég sé ekki ástæðu til að gera athugasemdir, herra forseti, við síðustu greinar frv., 13., 14. og 15. gr., enda eru þær ekki þess eðlis.
    Að endingu vil ég eingöngu segja það, herra forseti, að batnandi mönnum er best að lifa og vissulega er það svo að fjmrh. stendur hér í öðrum sporum nú en hann gerði fyrir ári síðan þegar hann er að leggja hér á þjóðina einhverja mestu skattpíningu sem elstu menn muna. Þau ákvæði frv. sem viðurkenna að þar voru mistök eru til bóta þó að

vissulega hefði mátt ganga lengra, ekki síst í sambandi við eignarskattsákvæðin. En hitt er rétt að hafa í huga að í heild sinni er þessi pakki allur, sem nú er til meðferðar, bæði hér í Nd. og Ed., ávísun á gríðarlegar skattahækkanir frá því sem nú er í gildi. Um það verður ekki deilt. Undan því getur hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn ekki vikist og það er kjarni þessa máls hvað sem líður útreikningságreiningi við hina og þessa aðila í þjóðfélaginu. Hér er um að ræða miklar skattahækkanir og því mega menn ekkert gleyma þegar þeir eru að bera saman þetta frv., virðisaukaskattsfrv. í Ed. og fjárlagafrv. frá því í haust.